A: Afneitun á því að fólki sé mismunað á grundvelli kyns. Lýsir sér t.d. svona: „Farið nú að hugsa um eitthvað sem skiptir máli, stelpur.“ B: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

A: Afneitun á því að fólki sé mismunað á grundvelli kyns. Lýsir sér t.d. svona: „Farið nú að hugsa um eitthvað sem skiptir máli, stelpur.“

B: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Einn tíu þjóðarleiðtoga sem eru í forsvari fyrir HeForShe verkefni UN Women.

C: Hillary Clinton. Eina konan sem hefur verið forsetaframbjóðandi annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum.

D: Druslugangan. Frábært framtak sem hefur vakið athygli á kynferðisofbeldi

E: EM í fótbolta kvenna í Hollandi í sumar. Íslenska landsliðið tekur nú þátt í þriðja sinn.

F: Feðraveldið. Glatað fyrirbæri. Skamm!

G: Glerþakið. Burt með það.

H: Hrútskýringar. Þegar karlar útskýra lífsins gátur fyrir konum til að koma vitinu fyrir þær.

I: Ísland. Hefur mörg ár í röð verið efst á lista World Economic Forum yfir jafnrétti kynjanna.

J: Jafnlaunavottun. Þorsteinn Víglundsson, félags-og jafnréttismálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um jafnlaunavottun.

K: KÞBAVD. Skammstöfun fyrir: konur þurfa bara að vera duglegri (prófið að skipta fyrsta orðinu út fyrir „karlar“ og þá sjáið þið hvað þetta er hallærislegt).

L: Launamunur kynjanna. Óútskýrður launamunur kynjanna er um 8%. Afhverju?

M: Mótmæli. Höldum. Áfram. Að. Mótmæla.

N: Núna er rétti tíminn fyrir femínisma.

O: Ofsafengin viðbrögð. Koma stundum í kjölfar þess að fólk tjáir sig um jafnrétti.

P: Pungur. Utanáliggjandi líffæri. Heyrst hefur að konur skorti það sárlega til að a) fá sömu laun og karlar b) tekið sé jafnmikið mark á þeim og körlum.

Q: Hví er þessi stafur í íslenska stafrófinu?

R: Rauðsokkur. Þær ruddu brautina fyrir femínista 21. aldarinnar.

S: Sambíóin. Bjóða kvenkyns bíógestum upp á dömubindi.

T: Tvöþúsundogsautján. Í ár eru konur 12% stjórnenda 50 stærstu fyrirtækja landsins.

U: Unnur Brá Konráðsdóttir. Gaf barni sínu brjóst í ræðustól Alþingis og minnti þannig á að brjóst eru ekki kynfæri. (Já, það þurfti að minna á það.)

V: Verzlunarskóli Íslands. Þar er eitt öflugasta femínistafélag landsins sem hikar ekki við að hrista upp í hlutunum.

X og Y: Kynlitningarnir. Þið vitið; þessir sem ákveða hvort við fæðumst kven- eða karlkyns.

Z: Zzzzzz... Það sama og stendur hjá bókstafnum Q.

Þ: Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Öflug baráttukona sem er óstöðvandi í að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi.

Æ: Æææ .. hættu þessu kerlingarvæli. Sagt í gamla daga við konur þegar þær vildu eitthvað upp á dekk. Heyrist enn.

Ö: Öfgafemínisti. Stundum notað um fólk sem gerir sér grein fyrir því að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill leggja sitt af mörkum til að breyta því. annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir