Sigur Elsa Guðrún Jónsdóttir sigraði í sprettgöngu með frjálsri aðferð. Hér er hún fyrst í brautinni, á eftir henni Kristrún Guðnadóttúr úr Ulli sem varð önnur.
Sigur Elsa Guðrún Jónsdóttir sigraði í sprettgöngu með frjálsri aðferð. Hér er hún fyrst í brautinni, á eftir henni Kristrún Guðnadóttúr úr Ulli sem varð önnur. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Akureyri Einar Sigtryggsson sport@mbl.is Skíðamót Íslands hófst í Hlíðarfjalli á Akureyri í gær með 1 km sprettgöngu kvenna og karla.

Á Akureyri

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Skíðamót Íslands hófst í Hlíðarfjalli á Akureyri í gær með 1 km sprettgöngu kvenna og karla. Segja má að sigurvegararnir hafi komið hvor af sínum enda litrófsins, annar margreyndur en hinn að keppa í fyrsta skipti á Íslandi.

Í kvennaflokknum vann Elsa Guðrún Jónsdóttir og var það hennar 50. Íslandsmeistaratitill í skíðagöngu. Karlaflokkinn vann hins vegar algjörlega óþekkt stærð í göngunni hérlendis. Var það Isak Stiansson Pedersen en hann býr, æfir og keppir í Noregi. Var hann skráður keppandi Akureyringa en fáir heimamenn kunnu nokkur skil á honum.

Móðir Isaks, sem er íslensk, sagði að það væri eiginlega tilviljun að Isak væri að keppa fyrir hönd Akureyringa.

Aðspurður sagðist Isak ekki hafa vitað neitt hver staða hans væri miðað við aðra keppendur en eitthvað kannaðist hann þó við nokkra af yngri keppendunum. Hann renndi því blint í sjóinn þegar keppnin hófst. Var Isak með besta tímann í tímatökunni og einnig í milliriðlunum. Í úrslitagöngunni tók hann strax forustu og vann með nokkrum yfirburðum.

Öll fjölskyldan er spennt fyrir framhaldinu en tvær einstaklingsgreinar eru eftir auk boðgöngu. Segjast þau ekkert vita hvernig staða Isaks er í öðrum greinum en bíða spennt eftir að sjá það, þar sem Isak hefur mikinn áhuga á að keppa fyrir Íslands hönd og stefnir á landsliðssæti.

Elsa Guðný var mun vissari með stöðu sína og stefnir á að vinna þær einstaklingsgreinar sem eftir eru. Hún er rétt skriðin yfir þrítugt en segist ekki getað verið mikið lengur á fullu í göngunni. „Ólympíuleikarnir eru á næsta ári og ég hef áhuga á að komast á þá. Svo kannski fer ég að róa mig. Ég er í fullri vinnu, með tvö börn og get ekki gefið nógu mikinn tíma í þetta,“ sagði hún.