Sá fyrsti Júlíus Geirmundsson ÍS 270 (I) kemur úr slipp á Ísafirði. Skipið kom til landsins í mars 1967 og var eitt átta skipa sem smíðuð voru fyrir Íslendinga í Boizenburg í Austur-Þýskalandi. Í þýska alþýðulýðveldinu voru byggð yfir 50 skip fyrir íslenskar útgerðir.
Sá fyrsti Júlíus Geirmundsson ÍS 270 (I) kemur úr slipp á Ísafirði. Skipið kom til landsins í mars 1967 og var eitt átta skipa sem smíðuð voru fyrir Íslendinga í Boizenburg í Austur-Þýskalandi. Í þýska alþýðulýðveldinu voru byggð yfir 50 skip fyrir íslenskar útgerðir. — Ljósmynd/Margrét Leós.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útgerð fjögurra skipa með nafninu Júlíus Geirmundsson og einkennisstöfunum ÍS 270 spannar rúmlega hálfa öld. Fyrsta skipið var smíðað í Boizenburg í Austur-Þýskalandi og var einn átta báta sem þar voru smíðaðir fyrir Íslendinga. Skipin fjögur hafa komið með yfir 200 þúsund tonn að landi.

Fyrsta skipið með nafninu Júlíus Geirmundsson var í eigu Gunnvarar hf. og kom til heimahafnar á Ísafirði þann 2. mars 1967 eða fyrir rúmlega fimmtíu árum. Fjögur skip hafa borið nafnið og einkennisstafina ÍS 270. Útgerð skipanna hefur gengið vel og samtals hafa þau borið að landi rúmlega 200 þúsund tonn af fiski.

Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður Hraðfrystihússins - Gunnvarar á Ísafirði, hefur tekið saman fróðlega grein um sögu þessara fjögurra skipa þar sem ýmislegt sem tengist byggingu þeirra og útgerð kemur fram. Einnig speglar grein hans breytingar sem hafa orðið á íslenska fiskiskipaflotanum á síðustu áratugum og jafnvel heimsmyndinni ef því er að skipta.

Á grein Kristjáns á heimasíðu fyrirtækisins er byggt í þessari samantekt með góðfúslegu leyfi Kristjáns.

Fyrsti báturinn var smíðaður á Ísafirði

Gunnvör hf. og Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal sameinuðust árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. og gerir m.a. út frystitogarann Júlíus Geirmundsson ÍS. Á þeim 27 árum, sem frystitogarinn hefur verið gerður út hefur hann aflað rúmlega 120 þúsund tonna og áætla má að verðmæti þess afla á verðlagi ársins 2016 sé um 41,5 milljarðar króna. Fyrirtækið Gunnvör hf. var stofnað 7. október 1955 af bræðrunum Jóhanni og Þórði Júlíussonum, Jóni B. Jónssyni, Margréti Leósdóttur, Báru Hjaltadóttur og Helgu Engilbertsdóttur. Fyrsti bátur félagsins var mb. Gunnvör ÍS 270, 47 tonn að stærð, smíðaður af M. Bernharðsson á Ísafirði árið 1956. Árið 1962 bættist stálskipið Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 í flotann, 156 tonn að stærð smíðuð í Flekkefjord í Noregi og bar það nafn móður þeirra bræðra Jóhanns og Þórðar.

Vopnaðir verðir voru með í för

Þriðja skip fyrirtækisins var fyrsti Júlíus Geirmundsson ÍS 270, 268 lesta skip byggt í Boizenburg við Elbu í Austur-Þýskalandi eftir teikningu Ísfirðingsins Hjálmars Bárðarsonar, skipaverkfræðings. Skipið kom til Ísafjarðar 2. mars 1967 og var annar af átta bátum, sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Boizenburg. Meðal nýjunga um borð var að Simrad-fiskleitartækjum fylgdi sjónvarpsskífa, svo að unnt var að fylgjast með fiskigöngum í sjónvarpi.

Þegar skipið var fullsmíðað var því siglt eftir Elbu til Hamborgar, en ekki var hægt að hafa möstrin uppi á meðan. Fóru starfsmenn skipasmíðastöðvarinnar með því og reistu möstrin þegar til Hamborgar var komið. Vopnaðir verðir voru með í för, sem sáu til þess að starfsmennirnir skiluðu sér austur fyrir járntjaldið aftur.

Nöfnin í fjölskyldunni

Skipið bar nafn föður þeirra bræðra Jóhanns og Þórðar, Júlíusar Geirmundssonar bónda á Atlastöðum í Fljótavík. Hann var fæddur 26. maí 1884 og bjó ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Jónsdóttur og börnum á Atlastöðum í Fljótavík frá árinu 1905 til 1946, en þá fluttu þau til Ísafjarðar, Júlíus lést árið 1962 en Guðrún kona hans árið 1951. Kristján G. Jóhannsson, sem skrifaði greinina sem hér er byggt á, er barnabarn þeirra hjóna.

Júlíus Geirmundsson ÍS byrjaði á þorskanetum, en fór sumarið 1967 á síldveiðar og var þetta síðasta alvöru síldarárið um sinn. Í upphafi árs 1969 hófu margir bátar frá Vestfjörðum togveiðar og var Júlíus Geirmundsson í þeim hópi. Þótt bátarnir væru yfirleitt ekki ætlaðir til togveiða gengu þær vel næstu árin og t.d. var afli Júlíusar yfirleitt nálægt tvö þúsund tonnum á ári.

Fljótlega var farið að kanna með hagkvæmari skip til þessara veiða og í kjölfarið sömdu útgerðarfélög á Ísafirði, Súðavík og Þingeyri við skipasmíðastöð í Flekkefjord í Noregi um smíði fimm skuttogara, sömu stöð og hafði smíðað stálbátinn Guðrúnu Jónsdóttur ÍS 267, sem kom til landsins í lok árs 1962.

Dregið var um röð hjá borgardómara

Dregið var um röð skuttogaranna fimm hjá borgardómara í Reykjavík, nafn Gunnvarar hf. kom fyrst upp úr pottinum og fékk útgerðin því fyrsta skipið. Þessir skuttogarar voru af svokallaðri „minni gerð“, þ.e. mældust innan við 500 tonn.

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson, númer tvö í röðinni með því nafni, var 407 lesta togari og kom til heimahafnar á Ísafirði 5. desember 1972. Það voru ýmis nýmæli í norsku togurunum, þeir voru búnir vélum til framleiðslu á ís um borð og aflinn var ísaður í kassa sem bætti stórlega meðferð hans og þar með gæði hráefnisins fyrir fiskvinnslurnar í landi.

Það var mikil breyting fyrir sjómennina að vera á þessum skipum í stað bátanna, sem áður voru. Þau gátu verið að í verri veðrum og fóru betur með mannskapinn. Þóttu þetta mikil skip og til er saga af því að eitt sinn, fyrsta vetur Júlíusar, þurfti hann að koma í land vegna veðurs. Matsveinninn var spurður hvort það hefði verið bræla og svaraði að bragði: „Ég veit það ekki, ég fór ekkert upp.“

Eftir slipptöku í ágúst 1972 fékk austur-þýski Júlíus nafnið Guðrún Jónsdóttir ÍS 276, en var síðan seldur til Vestmannaeyja í ársbyrjun 1973 og fékk þá nafnið Kristbjörg II VE 71.

Þegar leið á áttunda áratug síðustu aldar höfðu eigendur Gunnvarar hf. áhuga á að fá nýtt og stærra skip í stað skuttogarans Júlíusar Geirmundssonar. Þegar ljóst var að lán fengist frá Fiskveiðasjóði samdi Gunnvör hf. við stöðina í Flekkefjord um smíði á nýjum skuttogara, sem afhendast skyldi síðla árs 1978.

Bylting frekar en breyting

Þriðja skipið sem bar nafnið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var 497 tonna skuttogari, sem fyrst kom til heimahafnar á Ísafirði 15. júní 1979. Við komu skipsins var rætt við Hermann Skúlason skipstjóra, sem sagði að frekar mætti tala um byltingu en breytingu á veiðitækni á togveiðum á vélbátnum Guðrúnu Jónsdóttur borið saman við nýja skipið.

Eldri Júlíus, númer tvö í röðinni, gekk upp í kaupin. Skipið var síðan selt aftur til Íslands og gert út frá Keflavík og Sauðárkróki áður en það var aftur selt til Noregs, Póllands og loks sigldi það undir fána St. Vincent and the Grenadines.

Gunnvör hf. samdi árið 1987 við skipasmíðastöðina Gryfia í Stettin i Póllandi um smíði á skuttogara eftir teikningu Bárðar Hafsteinssonar skipaverkfræðings. Eldri Júlíus (III) þurfti að hverfa úr rekstri hér á landi til að veiðileyfi fengist á nýja skipið. Það fór þó svo að Síldarvinnslan hf. á Neskaupstað festi kaup á skipinu og fékk það nafnið Barði NK.

Gunnvör hf. tók togarann Barða NK 120 upp í kaupin, sem var mun minna skip, smíðað í Póllandi árið 1975. Fékk það skip nafnið Guðrún Jóns ÍS 279. Til að uppfylla kröfur um að skipið færi af íslenskri skipaskrá var stofnað fyrirtæki á eynni St Vincent and the Grenadines og skipið skráð þar á svokallaðan þægindafána.

Afhent skömmu fyrir fall Berlínarmúrsins

Barði NK (áður Júlíus Geirmundsson III) var seldur til Namibíu árið 2002 og var nafni skipsins breytt í Bardi og það gert út frá Lüderitz. Árið 2007 urðu eigendaskipti á skipinu og fékk það þá nafnið Kamali.

Samningurinn við pólsku skipasmíðastöðina 1987 var með öðru sniði en vant var, hún sá um smíði skrokksins, en Gunnvör hf. lagði til mest allan búnað. Þetta kom til m.a. vegna þess að þjóðfélagið í Póllandi var mjög lokað á þessum árum, strangar reglur um gjaldeyrisviðskipti og skriffinnska mikil. Á þessu slaknaði mjög á byggingartíma skipsins og allt var orðið mun frjálsara þegar það var afhent, enda þá einungis tíu dagar í fall Berlínarmúrsins.

Í fyrstu var gert ráð fyrir að skipið yrði ísfisktogari með möguleika á að heilfrysta afla en á byggingartímanum var ákveðið að breyta því í flakafrystiskip. Skuttogaravæðingin hafði á sínum tíma miklar breytingar í för með sér og koma frystiskipanna voru talsverð tíðindi, svo ekki sé meira sagt. Nokkrum dögum eftir komu frystiskipsins Júlíusar Geirmundssonar sagði svo í Morgunblaðinu:

„Skipið hefur vinnslugetu á við lítið sjávarþorp, en við það starfa einungis 27 menn, 25 um borð og 2 á skrifstofu í landi. Skipið er 1.403 brúttótonn, 57,5 metrar á lengd og 12 metra breitt. Fiskurinn er fullunninn um borð og er afkastageta um 42 tonn af fullunnum afurðum á sólarhring, en það jafngildir um 100 tonna afla upp úr sjó. Á venjulegum skuttogara af þessari stærð eru um 15 menn i áhöfn þannig að aðeins er bætt við 10 mönnum til að fullvinna veiðina.“ aij@mbl.is