Grétar Haraldsson fæddist í Reykjavík 6. mars 1935. Hann lést á Droplaugarstöðum 14. mars 2017.

Hann var sonur hjónanna Mörtu Tómasdóttur , f. 1913, d. 2003, og Haraldar Guðmundssonar, f. 1906, d. 1986, fasteignasala. Systkini hans eru Ingadís, f. 1947, og Sigurður, f. 1953.

Grétar gekk í Austurbæjarskólann, varð stúdent frá VÍ 1955, cand. juris frá HÍ 1960, héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður 1976.

Fyrri eiginkona hans, 1955-70, var Dóra Hafsteinsdóttir, f. 1936. Börn þeirra: 1) Sigurður Júlíus, f. 1955, kvæntur Bergþóru S. Þorbjarnardóttur. Þeirra börn eru: i) Þorbjörn, f. 1979, í sambúð með Önnu Dóru Ófeigsdóttur. Dóttir þeirra er Auður Anna. ii) Grétar Dór, f. 1982, í sambúð með Heiðrúnu Björk Gísladóttur. Dætur þeirra eru Hanna Sólveig og óskírð stúlka. iii) Kári, f. 1985, kvæntur Eddu Halldórsdóttur. Sonur þeirra er Hallur. iv) Helga Svala, f. 1989. 2) Jakobína Marta, f. 1956, gift Benny Lindgren. Þeirra börn eru i) Haraldur Vatnar, f. 1981, ii) Helga María, f. 1983, gift Martin Berg. Þeirra börn eru Lilja Noemi og Hjálmar. iii) Viðar, f. 1991. 3) Halldóra, f. 1962, var gift Gunnari Braga Guðmundssyni. Dætur þeirra eru: i) Dóra, f. 1981, gift Arnari Má Kristinssyni. Börn: Ingunn Marta, Gunnar Friðrik, Eysteinn Ari og Arnaldur Jón. ii) Áslaug, f. 1989, í sambúð með Agli Lúðvíkssyni. iii) Hildur, f. 1994. 4) Haraldur, f. 1968, kvæntur Hörpu Ágústsdóttur. Þeirra synir eru Orri, f. 1996, og Aron, f. 1998.

Síðari eiginkona Grétars (1974-86) var Svanfríður Kjartansdóttir, f. 1943. Dætur þeirra: 1) Gréta Hrund, f. 1967, gift Gunnari Bjarka Finnbogasyni. Börn: i) Andri Geir, f. 1989, í sambúð með Nönnu Rakel Ólafsdóttur, sem á soninn Tristan Mána. ii) Svandís Edda, f. 1991, í sambúð með Sigurbirni Viðari Karlssyni. Börn: Ylfa Hrund og Gunnar Snær. iii) Birkir Darri, f. 1993, iv) Grétar Snær, f. 1997, kærasta: Erna Guðrún Magnúsdóttir. 2) Þóra Steinunn, f. 1971, fósturdóttir), gift Jóni Óttari Ólafssyni. Börn: i) María, f. 1992, í sambúð með Arnari Gauta Guðmundssyni. ii) Ragnheiður, f. 1999, iii) Bryndís, f. 2008, og iv) Pétur Axel, f. 2010. 3) Heiðrún, f. 1979, gift Kristjáni Hrafni Guðmundssyni. Þeirra börn eru Þórir Leó, f. 2009, og Ólöf Svana, f. 2013. 4) Þórunn, f. 1980, gift Birni Sighvatssyni. Börn þeirra eru Marta, f. 2007, Tryggvi, f. 2010, og Óttarr, f. 2015.

Grétar var í sambúð með Rósu Ólafsdóttur, f. 1951, frá 1986-93 og með Solveigu Theodórsdóttur, f. 1943, frá 1994-2007.

Hann var fulltrúi borgardómarans í Reykjavík 1960-61, fulltrúi hjá Friðriki Guðjónssyni útgerðarmanni 1961-67 og rak eigin málflutningsstofu frá 1967. Auk lögmennskunnar fékkst hann meðal annars við fasteignasölu, byggingastarfsemi og útgerð. Hann var formaður knattspyrnudeildar Vals 1984-1985. Sérstakur áhugamaður var hann um að gleðjast með afkomendum sínum, ekki síst í skíðaferðum, innan lands og utan.

Útför Grétars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 31. mars 2017, og hefst athöfnin kl. 13.

„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“

(Kahlil Gibran)

Minningarnar um elsku pabba munu alltaf lifa með okkur.

Heiðrún og Þórunn.

Margir tala mikið en gera minna. Gaspra um góðverk sín. Ýkja þau, ef þau eru ekki hreinlega uppspuni frá rótum. Aðrir tala minna en gera meira. Rétta hjálparhönd án orða. Án þess að berja sér á brjóst, án þess að láta umheiminn vita. Eru eins konar lágvært en mikilvægt mótstöðuafl við hégómann í heiminum, hræsnina og sjálfshólið, sjálfsmyndirnar og falsmyndirnar. Of fáir eru í hópi hinna síðarnefndu. Þeim manneskjum fækkaði því miður um eina á dögunum við andlát tengdaföður míns, Grétars Haraldssonar.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Grétari fyrir ellefu árum, sem ekki er langur tími í stóra samhenginu. En út frá okkar stundum saman, og lýsingum ástvina hans sem fengu mun lengri tíma með karli, hef ég undanfarna daga reynt að átta mig á hvernig manneskja hann var. Margt kemur upp í hugann en á einn eða annan hátt sameinast það í þessum skurðpunkti; að Grétar var manneskja sem lét verkin tala. Sem dæmi finnst mér tilhneiging hans til að forðast ræðuhöld segja meira en margt. Ætli þeir séu margir hæstaréttarlögmennirnir, sem afþakka að halda ræður á mannamótum? Meira að segja í brúðkaupum barna sinna? Hann vildi ekki svið og sal af áheyrendum til að tjá væntumþykju sína. Hann „gerði“ væntumþykju. Af þessum sökum og mögulega fleirum kom kappinn án efa einhverjum fyrir sjónir sem kassalaga karakter, jafnvel kaldur frá sjónarhóli þeirra sem ekki þekktu hann. Á bak við grófa andlitið og pírðu augun var gagnrýninn hugur sem hafði litla þolinmæði fyrir moðreyk og innantómt hjal, sem örugglega flestir sem kynntust lögmanninum í honum vita mætavel. En þeir sem höfðu kynni af Grétari á öðrum og persónulegri vettvangi vita að inni í skrokknum stóra var enn stærra hjarta. Fullt af gæsku og falslausri gjafmildi og kærleika sem hann var óspar á allt fram á síðasta dag.

Grétar lifði tíma gríðarlegra breytinga á íslensku samfélagi, ólst upp í þjóðfélagi sem var að ýmsu leyti einfaldara, og ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem ég lærði af honum væri það sá kostur að flækja ekki hlutina ef hjá því væri komist. Hann var fæddur sama ár og Elvis, þar með er líklega upptalið það sem þeir áttu sameiginlegt því tengdapabbi greindi ekki nokkurn mun á rokki, raftónlist eða ryksuguhljóði. Og þó; á meðan jafnaldrinn í vestri eignaðist stað í hjörtum fólks með söng eignaðist Grétar stað í hjörtum fólks með aðgerðum. Og þar mun hann lifa áfram, eins og sá ameríski.

Eflaust finnst einhverjum óviðeigandi að nefna hér stóra löst tengdapabba. Hann var nefnilega Valsari. En þó kannski einmitt við hæfi að það sé hér með skráð, svart á hvítu, í eilífðarbókina að hann var góður Valsari.

Kristján Hrafn Guðmundsson.

Mig langar að minnast tengdaföður míns, Grétars Haraldssonar, hrl., með nokkrum orðum. Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir ellefu árum er ég kynntist Þóru dóttur hans. Allt frá því var hann stór hluti af lífi mínu vegna þess hversu mikla rækt Grétar lagði við fjölskyldu sína. Hann hafði einstakt lag á að búa til tilefni og hefðir sem gerðu það að verkum að fólk kom saman á þægilegan og fjölskylduvænan hátt. Á slíkum stundum þurfti Grétar ekki að vera miðpunkturinn, því þótt hann gæti vel sagt skemmtilegar sögur leyfði hann öðrum alltaf að njóta sín. Hann vildi bara vera innan um sína því hann vissi að það var það sem skipti máli og hann hafði einlægan áhuga á því sem fólkið hans tók sér fyrir hendur. Eins og flestir fór hann í gegnum dimma dali á lífsins vegferð og gerði mistök eins og við öll. En af því að hann var svo heill í sýn sinni á lífið og hvað skipti máli urðu sögur af mistökum hans – sérstaklega á yngri árum – yfirleitt að gamansögum. Þessi natni hans við fjölskyldu sína og samferðamenn alla skilaði sér ríkulega til baka. Síðustu mánuðina, er hann lá á sjúkrabeði, var stöðugur straumur til hans af fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum, eins og gestabækurnar eru til vitnis um. Hann var líka sáttur maður í lokin, þótt fjármunir og efnisleg gæði hafi kannski verið horfin. Menn taka heldur ekki peninga með sér yfir í næsta heim en eitt er víst; Grétar Haraldsson er með ríkari mönnum sem hafa lagt í þá för.

Jón Óttar Ólafsson.