Skíðamót Íslands hófst á Akureyri í gær þegar keppt var í sprettgöngu venju samkvæmt, en keppt var í Hlíðarfjalli.
Elsa Guðrún Jónsdóttir frá Ólafsfirði og Isak Stiansson Pedersen frá Akureyri fóru hraðast yfir. Ólíkt er á komið með þeim en Elsa var að vinna sinn fimmtugasta Íslandsmeistaratitil eftir því sem fram kom hjá henni í samtali við mbl.is í gærkvöldi. Isak er á hinn bóginn að keppa í fyrsta skipti á Skíðalandsmótinu.
Aðstæður þóttu nokkuð góðar, lítill vindur var á svæðinu og þægilegur snjór.
Keppni á landsmótinu heldur áfram í dag og verður keppt í skíðagöngu með frjálsri aðferð klukkan 13. Mótinu lýkur síðan á sunnudag ef áætlanir ganga eftir.
sport@mbl.is