Inger Hallsdóttir fæddist 14. desember 1935 í Reykjavík. Hún lést 20. mars 2017 á Landspítalanum.

Foreldrar hennar voru Ingeborg Nanna Kristjánsson, f. 22. apríl 1912 í Melbu í Noregi, d. 7. mars 1990, og Hallur Kristjánsson, f. 2. ágúst 1906 á Breiðabólsstað, Fellsströnd, d. 24. apríl 1988. Systkini Inger voru Rúnar Þór, f. 6. desember 1941, d. 26. nóvember 2006, og Heba, f. 2. október 1950. Inger giftist 31. desember 1955 Kristjáni Baldvinssyni, f. 30. nóvember 1935, d. 14. mars 2012. Börn Inger og Kristjáns eru: 1) Halldóra Kristjánsdóttir, barnahjúkrunarfræðingur, f. 12. júní 1956, hennar sambýlismaður er Jóhannes Vilhjálmsson þjónustustjóri. Börn þeirra eru Sóley, nemi, og Snædís, nemi. 2) Baldvin Þorkell Kristjánsson læknir, f. 19. desember 1957, kvæntur Gunni Helgadóttur framkvæmdastjóra. Börn þeirra eru Tinna, læknir, í sambúð með Peter Hellman, Kristján, læknir, í sambúð með Sigríði Johnson, og Helga, arkítekt, í sambúð með Sören Made. 3) Hallur Kristjánsson dýralæknir, f. 31. janúar 1961, d. 6. maí 2007. Hann var kvæntur Birgittu Bonde lyfjafræðingi. Dóttir þeirra er Sara, nemi. 4) Kristján Ingi Kristjánsson lögreglufulltrúi, f. 18. febrúar 1964,, kvæntur Guðleifi Þórunni Stefánsdóttur þýðingarfræðingi. Börn þeirra eru Cilia Marianne þjóðfræðingur, gift Þóri Hilmarssyni. Börn þeirra eru Karítas Sól og Ágústa Bella, Sunna, nemi, í sambúð með Páli Árnasyni, dóttir þeirra er Guðrún. Halla, nemi, gift Anouar Le Patron Haturier, sonur þeirra er Mohamed Ýmir. 5) Elías Kristjánsson sálfræðingur, f. 19. júní 1971, kvæntur Ásdísi Hörpu Smáradóttur þroskaþjálfa. Sonur þeirra er Ísak Örn.

Inger varð stúdent frá MR árið 1955 og útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1957. Hún kenndi meðal annars í Langholtsskóla í Reykjavík, í grunnskólanum á Selfossi, Fellaskóla í Reykjavík, grunnskóla á Akureyri, leikskóla í Förde í Noregi og í Heiðarskóla í Keflavík.

Inger verður jarðsungin frá Guðríðarkirkju í dag, 31. mars 2017, klukkan 13.

Þegar ég sest niður hér fyrir framan tölvuna skortir mig orð til að minnast okkar kæru Inger. Erfitt er að skilja að hún er farin frá okkur. Hún mun ekki taka á móti með brosi, kossi og hlýjum faðmi á Prestastígnum. Við Kristján Ingi munum ekki setjast að girnilegu brauði og áleggi á fallegu heimili. Né horfa með henni á dönsku fréttirnar eða Barnaby með súkkulaðirúsínur í skál og kaffi. Eða hlæja saman að einhverri skemmtilega sagðri skopsögu úr hversdagslífinu.

Ég kvaddi með kossi á ennið þann 19. mars án þess að gera mér grein fyrir því að þetta væri okkar hinsta kveðja. Daginn eftir kvaddi elsku Inger þennan heim að fullu og öllu. Ég sit og minnist margra stunda gegnum árin. Minningar um mína elskulegu tengdaforeldra sem munu ylja mér og mínum um ókomin ár. Morgunkaffi á Skóló, Fårekål og hangikjötsveislur á Prestastígnum, rauðvínsglösin, kaffi á könnunni, sumarið í Förde, jól á Akureyri, ferðalögin, sumarbústaðaferðirnar af nógu er að taka. Ég veit að þú hefur ratað leiðina til tengdapabba og laumað hendi þinni í hans.

Takk fyrir allt og allt.

Guðleif Þórunn Stefánsdóttir (Bella).

Í dag kveðjum við ástkæra konu sem var tengdamamma mín.

Frá fyrsta degi tóku Inger og Kristján mér opnum örmum. Aldrei skorti góð ráð, hjartahlýju og stuðning frá þeim í gegnum árin. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til Ingerar og Kristjáns. Ég er sérstaklega þakklát fyrir þær samverustundir sem við áttum þegar Inger og Kristján heimsóttu okkur í nokkur skipti til Svíþjóðar á þeim árum sem við bjuggum þar. Þá var kátt í kotinu og mikil gleði hjá krökkunum okkar að hafa afa og ömmu í heimsókn. Þegar Inger varð áttræð 14. desember 2015 fagnaði fjölskyldan með henni í frábærri ferð til Kaupmannahafnar og í dag eru þær minningar gleðigjafi.

Í Hávamálum segir:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Inger á í mínum huga orðstír sem er til eftirbreytni og ástæða til að taka sér til fyrirmyndar.

Hún var ósérhlífin, setti alltaf fjölskyldu og ástvini í fyrsta sæti, dugnaðarforkur, heiðarleg, skörp og ávallt samkvæm sjálfri sér.

Að kynslóðir komi og fari er gangur lífsins en það er sárt í hjarta að sjá á eftir kynslóð sem hverfur núna með Inger. Kynslóð sem var stór og mikilvægur hluti af lífi okkar allra, mótaði okkur og deildi með okkur gleði og sorg.

Inger kveður núna fimm árum eftir að hún kvaddi lífsförunaut sinn og sálufélaga, tengdapabba minn, Kristján Baldvinsson heitinn. Það yljar mér um hjartarætur á sorgarstundu að hugsa til þess að þau séu núna saman og Inger horfin til þeirra endurfunda sem hún þráði.

„en þar bíða vinir í varpa,

sem von er á gesti.“

(Davíð Stefánsson)

Takk fyrir allar minningarnar sem urðu til í áranna rás. Minningin er ljós sem lifir.

Gunnur Helgadóttir.