Gunnlaugur Einar Kristjánsson fæddist 8. maí 1930 í Skógarneshólma, Eyja- og Miklaholtshreppi. Hann lést á HVE - Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Stykkishólmi, 20. mars 2017.

Foreldrar hans voru Kristján Gíslason, f. 31.1. 1897, d. 13.11. 1990, og Jóhanna Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 28.1. 1897, d. 9.2. 1980.

Gunnlaugur var næstyngstur fjögurra systkina, þau eru Gísli Jóhann, f. 1922, d. 2003, Anna Ólafía, f. 1924, d. 2015, og Hörður Agnar, f. 1936.

Gunnlaugur kvæntist 17. október 1953 Maríu Guðmundsdóttur, f. 19. ágúst 1933. Börn þeirra eru 1) Guðrún, f. 1953, maki hennar er Jónas Steinþórsson, f. 1952, 2) Kristján, f. 1956, maki hans er Dallilja Inga Steinarsdóttir, f. 1959, 3) Guðmundur, f. 1959, maki hans er Dagbjört I. Bæringsdóttir, f. 1964, 4) Þröstur, f. 1961, maki hans er Helga Guðmundsdóttir, f. 1964, 5) Jóhann, f. 1962, maki hans er Vaka H. Ólafsdóttir, f. 1958. Barnabörn og barnabarnabörn eru 42 talsins.

Gunnlaugur bjó í Skógarneshólma til þriggja ára aldurs, fluttist þá með fjölskyldu sinni að Búðum í Staðarsveit, 1936 flytur fjölskyldan til Stykkishólms, þar bjó hann síðan.

Gunnlaugur lauk námi í húsasmíði frá Iðnskóla Reykjavíkur 1948, sveinsbréf í húsasmíði fékk hann 1951. Eftir nám vann hann við húsasmíðar, einnig við skipasmíðar í slippnum hjá Kristjáni Guðmundssyni og ýmsar mannvirkjagerðir, brúarvinnu o.fl. Meðal annars kom hann að stofnun Skipavíkur hf. árið 1964 og einnig trésmiðjunnar Aspar hf. sama ár.

Hann stundaði trilluútgerð í mörg ár, var bæði á grásleppuveiðum og handfærum.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 31. mars 2017, klukkan 14.

Á kveðjustundu kærs frænda og vinar er margs að minnast frá langri og náinni samleið og þakkarefnin eru mörg. Milli barna þeirra Jóhönnu og Kristjáns, frá Skógarnesi, hefur ávallt ríkt mikil vinátta, og tryggð þeirra við Hólminn hefur gefið þeim kost á að halda vel saman. Nú hefur enn fækkað í hópnum og Hörður lifir nú einn systkini sín. Laugi og Maja hafa einnig notið þeirrar miklu gæfu að eiga barnahópinn sinn í Stykkishólmi. Ungur að árum fer Laugi að læra smíðar hjá föður sínum. Betri gat sá skóli ekki orðið og Laugi sækir síðan öll réttindi í húsasmíðum til Iðnskólans í Reykjavík. Vitaskuld stóð hinn ungi atgervismaður vel að vígi, orðinn útlærður, reynslumikill smiður, með náðargáfu völundarins í blóðinu og gæddur eðliskostum samviskusemi og dugnaðar. Enda fóru í hönd annasamir tímar hjá þeim feðgum við húsasmíðar m.a. víða um sveitir. Verkstæði þeirra var í litlu húsnæði, á lóð Kristjáns, og þar var síðar stofnað iðnfyrirtækið Ösp og voru Laugi og Hörður meðeigendur þess. En bátasmíðin heillaði Lauga einnig, þar sögðu genin til sín, og varð hann einn af stofnendum Skipavíkur á sínum tíma. Af mörgum verkum var það Lauga mikils virði og áskorun að vera falin yfirumsjón á endurgerð gamla Clausen-hússins hér í bæ. Þar fékk fagmaðurinn að spreyta sig á flóknu verkefni og handbragð hans og vandvirkni fengu virkilega að njóta sín. Um nokkurt árabil stundaði Laugi grásleppuútgerð af miklum krafti, hann undi sér vel á sjónum, þótt puðið væri mikið, enda ekkert gefið eftir. Og ekki má gleyma búskapnum en Laugi og Bjarni mágur hans áttu um tíma saman nokkrar skjátur uppi í nýrækt. Það var oft gaman að heyra þá vinina ræða ástand og horfur í búrekstrinum og þar voru sko engir kotbændur að spjalla. Það var afar gaman og fróðlegt að eiga samræður við Lauga, hann var vel lesinn og minnugur og sagði skipulega frá. Hann gat verið fastur fyrir ef því var að skipta en samt sanngjarn á skoðanir annarra. Laugi var alla tíð mikill og sannur náttúruunnandi í víðustu merkingu þess orðs. Náttúrufegurð fæðingarstaðar hans, í Skógarnesi, er einstök og þar átti hann sinn sælureit og unaðsstundir. Hann var fróðleiksfús til hinsta dags og fylgdist vel með gangverki líðandi stundar þrátt fyrir erfið veikindi. Manni leið einstaklega vel í návist Lauga, hægláta, trausta fasið hans hafði þægilega útgeislun og vinarþelið og gæskan leyndi sér ekki. Hinum löngu og erfiðu veikindum sínum tók Laugi af miklu æðruleysi og stillingu, það var eins og hann hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að láta veikindin aldrei buga sig og mæta hverjum nýjum degi af bjartsýni og yfirvegun. En baráttuna háði hann ekki einsamall. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim dugnaði og umhyggju sem Maja sýndi í veikindum Lauga og allar þær fórnir sem hún færði og gáfu þeim báðum mikið. Að leiðarlokum þakkar fjölskylda okkar elskulegum frænda og vini samfylgdina og biðjum Maju og öðrum ættingjum Guðs blessunar.

Blessuð sé minning Gunnlaugs Einars Kristjánssonar, hans bíða vinir í varpa.

Jóhanna og Ellert.

Sól er sátt við báru,

sveipar hana armi.

Brimhörð geislann brýtur,

blika tár á hvarmi.

Sendu, sálnafaðir,

sáttageisla niður.

Bylgja á hugans hafi

hrópar nú – og biður.

(Elín Sigurðardóttir)

Vinur minn Gunnlaugur Kristjánsson er farinn á grásleppu. Hann valdi tímann, vorið á næsta leiti og allt það bjarta sem því fylgir.

Mínar fyrstu minningar um Lauga eru síðan ég, smá snáði í Þorvaldsey, var við þá uppbyggingu sem hann setti m.a. krafta sína í. Einnig var Laugi lengi með rollur líkt og afi og pabbi, en fjárbændur í „nýræktinni“ voru duglegir að hjálpast að og því hitti maður stundum á Lauga við rollustúss.

Ég var um tvítugt þegar pabbi hvatti mig til að sækja um pláss á grásleppu hjá Lauga. Fjarlægur draumur þá, fannst mér, að komast að hjá þeim aflakóngi til margra ára. Er mér minnisstætt þegar ég stressaður bankaði upp á að Höfðagötunni og bar upp umsókn mína. Laugi tók vel á móti mér og fljótlega var ég munstraður á Valinn.

Við tók ógleymanlegur tími með Lauga á Valnum. Við félagarnir rerum töluvert tveir og þær stundir eru þær eftirminnilegustu.

Sé hann fyrir mér brosmildan og snaggaralegan náttúruunnandann, þar sem hann situr stjórnborðsmegin í Valnum og dregur netin klár aftur.

Þegar netin voru hrein og klár og vel fiskaðist lá sérstaklega vel á okkur félögum og þá kom fyrir að Laugi kallaði grásleppurnar „kærusturnar sínar“, þegar þær spriklandi köstuðust upp fyrir borðstokkinn.

Við vinirnir náðum einstaklega vel saman og lengi á eftir var ég duglegur að kíkja til Lauga heim að Höfðagötu og þá var setið við eldhúsborðið og drukkið kaffi og spjallað um heima og geima.

Sólarglampinn í haffletinum og bros Lauga við Lónið er minning sem ég hlýja mér við. Verð ævinlega þakklátur fyrir plássið á Valnum og stundirnar með grásleppukónginum.

Takk kærlega fyrir mig, vinur minn.

Votta Maríu, börnum og afkomendum innilega samúð.

Magnús Ingi Bæringsson.