Agla Stefanía Bjarnadóttir fæddist á Eskifirði 4. maí 1924, dóttir hjónanna Gunnhildar Steinsdóttur og Bjarna Marteinssonar. Hún andaðist í Sunnuhlíð í Kópavogi 18. mars 2017.
Systkini hennar eru Herborg, f. 1908, d. 1985, Guðbjörg, f. 1909, d. 1976, Guðlaug, f. 1913, d. 1998, Jóhanna, f. 1915, d. 1915, Hilmar, f. 1916, d. 2013, Steingrímur, f. 1919, d. 1997, Eðvarð, f. 1926, d. 2016 og Magnús, f. 1930.
Agla giftist 29. janúar 1944 Pétri Andrési Maack Þorsteinssyni frá Reyðarfirði, f. 1919, d. 2006. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Pálsson og Áslaug Katrín Pétursdóttir Maack. Börn Öglu og Péturs eru: 1) Pétur Maack, f. 1944, kona hans er Bjarndís Markúsdóttir, f. 1948, börn þeirra eru: a) Þórhildur Þöll, f. 1970, gift Birgi Bragasyni, börn þeirra eru Ársól Eva, f. 1998, Bjarndís Diljá, f. 2001 og Bragi Már, f. 2007, og b) Reynir Freyr, f. 1977, í sambúð með Evu Arnfríði Aradóttur, f. 1988, dætur þeirra eru Matthildur María, f. 2016, og Ísold Agla, f. 2016. 2) Bjarni, f. 1946, kona hans er Sólveig Valdimarsdóttir, f. 1949, synir þeirra a) drengur, f. 1977, d. 1977, b) Davíð Örn, f. 1979, dóttir hans Sara Rún, f. 2008, d. 2009, og c) Einar Valur, f. 1981. 3) Þorsteinn, f. 1953, kona hans er Ingibjörg Hjaltadóttir, f. 1953, börn þeirra eru a) Pétur Maack, f. 1973, kvæntur Önnu Lilju Stefánsdóttur, f. 1982, börn þeirra eru Þorsteinn, f. 2009, og Védís Maack, f. 2013, sonur Önnu er Daníel Bent, f. 2005, b) Jóhann Hjalti, f. 1976, kvæntur Katrínu Ölfu Snorradóttur, f. 1982, dóttir þeirra er Sara Sif, f. 2014, dóttir hans og Svanfríðar Jóhannsdóttur er Harpa Dagbjört, f. 2002, c) Steinar Ingi, f. 1983, í sambúð með Lindu Sæberg Þorgeirsdóttur, f. 1982, sonur þeirra er Esjar Sæberg, f. 2016, dóttir Steinars og Eyrúnar Einarsdóttur er Móeiður Mist, f. 2009, dóttir Lindu er Anja Sæberg, f. 2006, og d) Ragnhildur Agla, f. 1988, gift Steinari Loga Sigurþórssyni, f. 1988, sonur þeirra er Oliver Unnsteinn, f. 2017. 4) Egill, f. 1955, kona hans er Guðbjörg Björnsdóttir, f. 1956, synir Guðbjargar og stjúpsynir Egils eru a) Arnþór Björn Reynisson, f. 1980, kvæntur Helgu Róbertsdóttur, f. 1978, sonur þeirra Björn Róbert, f. 2011. Synir hans og Lindu Jónínu Steinarsdóttur eru Bjarki Fannar, f. 2003, og Marinó Freyr, f. 2007, og b) Rúnar Snær Reynisson, f. 1981, kvæntur Borghildi Sigurðardóttur, f. 1984, börn þeirra eru Brynhildur Una, f. 2008, Dagbjört Vala, f. 2011 og Reynir Sveinn, f. 2016.5) Sigurður, f. 1963.
Útför Öglu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 31. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.
Fallin er frá mágkona mín og heiðurskonan Agla Bjarnadóttir. Ég sé fyrir mér að Agla hafi fæðst sem frekar þroskað barn, hún var þriðja yngst af átta systkinum. Tveggja ára eignaðist hún bróður og um fimm árum síðar annan bróður. Heyrt hef ég að Agla hafi verið dugleg að passa bræður sína. Nokkrum sinnum kom það fram, eftir að hún var komin á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og minnið farið að daprast, að hún þyrfti að drífa sig heim til að hugsa um strákana sína. Ég hélt að hún meinti syni sína fimm, nei, minnið var komið það langt aftur í tímann og Agla svaraði „nei, Magga og Ebba, yngstu bræður mína“.
Agla átti auðvelt með að læra og ef tækifæri hefði gefist er líklegt að hún hefði krækt sér í gráðu, en hún náði þó að fara í Versló árin 1940-1941. Innan við tvítugt kynntist hún Reyðfirðingnum Pétri Maack og þá varð ekki aftur snúið og þau giftu sig. Árið 1946 fluttu þau í Kópavoginn og byggðu sér einbýlishús, sem þau stækkuðu eftir því sem fjölskyldan stækkaði, og voru meðal frumbyggja Kópavogs. Á þessum tíma var ekki komið vatn í hús, svo að Pétur bjargaði því með því að koma með tunnu af vatni á kvöldin (hann var á bíl). Agla fór svo í þvottalaugarnar með þvottinn. Agla og Pétur voru mjög samhent hjón og eignuðust fimm myndarlega stráka og fallegt heimili sem þau bjuggu á þar til Pétur lést.
Það eru næstum 47 ár síðan ég tengdist fjölskyldu Bjarna og Gunnhildar, en þau voru foreldrar Öglu. Aldrei hef ég séð Öglu skipta skapi og það er svo sannarlega ekki öllum gefið, þvílíkt jafnaðargeð. Innilegar samúðarkveðjur til allra afkomenda Öglu og takk fyrir það hvað alltaf var gott að koma til ykkar Péturs.
Hvíl í friði.
Borghildur Jónsdóttir.
Í 60 ár bjuggu þau við Urðarbraut í Kópavogi og voru með fyrstu frumbyggjum þar um slóðir. Agla rifjar þessi ár upp í Kópavogsblaði, sem kom út 2006. Það er gaman að lesa þessa grein og reyna að gera sér í hugarlund allar þær breytingar sem þar hafa orðið síðan.
Þau Agla og Pétur voru mjög samhent hjón þó ólík væru. Pétur minn gat verið ansi fasmikill en Agla hafði aftur á móti mikla skapstillingu og var því gott mótvægi við Pétur. Úr urðu einstök hjón, sem alltaf var gott að leita til og sérstök gestrisni var viðhöfð þar á bæ. Agla var lengst af heimavinnandi, enda nóg að gera með alla fimm strákana sem þau eignuðust. Í nokkur ár starfaði hún þó utan heimilis og vann sem aðstoðarkona hjá tannlækni. Einnig hafði hún gaman af að lesa fyrir vistmenn Sunnuhlíðar, en það gerði hún sem sjálfboðaliði lengi vel.
Sem barn vandi ég komur mínar á Urðarbrautina þótt lengra væri að fara þangað frá Reykjavík en nú þegar allir hafa bíla. Í þá daga var Hafnarfjarðarstrætó óspart notaður. Alltaf átti Pétur þó bíl og ógleymanlegir eru allir bíltúrarnir, þar sem þeyst var út og suður og ekkert endilega verið að telja farþegana sem í bílnum voru. En þetta var í þá dagana allt svo frjálslegt og ekkert verið að vesenast yfir smámununum. Í mörg sumur dvöldu þau hjónin austur á Fljótsdalshéraði þar sem þau eignuðust sumarbústað. Þar fékk Pétur nafnbótina „hreppstjórinn í Hjallaskógi“. Af sérstöku þakklæti minnist ég elsku frænku minnar, sem var mér að mörgu leyti eins og stór systir. Blessuð sé minning hennar og veri hún Guði falin. Innilegar samúðarkveðjur til frænda minna og fjölskyldna þeirra.
Dunna
Birna Gunnhildur
Friðriksdóttir (Dunna).