Skattur Þórdís Kolbrún segir ýmis verkefni í gangi til að styrkja landsbyggðina í ferðaþjónustu en aðgerðirnar koma verst niður á jaðarsvæðum.
Skattur Þórdís Kolbrún segir ýmis verkefni í gangi til að styrkja landsbyggðina í ferðaþjónustu en aðgerðirnar koma verst niður á jaðarsvæðum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Þórdís Kolbrún R.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir ákvörðun fjármálaráðherra um að færa ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattþrep vera í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fækka undanþágum í virðisaukaskattkerfinu og ekki mikið svigrúm til þess að taka slíka ákvörðun í samráði við hlutaðeigandi enda hafi ekki verið í boði að fjölga virðisaukaskattþrepum að nýju og búa til sérstakt milliþrep fyrir ferðaþjónustuna.

Stór atvinnugrein á undanþágu

Spurð hvort þrýstingur sé frá öðrum atvinnugreinum sem hafa orðið fyrir svonefndum ruðningsáhrifum ferðaþjónustu kveður hún svo ekki vera, en þó megi færa fyrir því rök að atvinnugrein sem sé eins stór og ferðaþjónustan er, eigi ekki heima í sérstöku undanþáguþrepi í virðisaukaskattkerfinu.

Hún segir ferðaþjónustufyrirtæki nú hafa 15 mánuði til að búa sig undir breytingarnar sem fyrirtækin hafa gagnrýnt m.a. á þeim forsendum að þegar sé búið að selja þjónustu á verði sem miðast við lægra virðisaukaþrepið. Spurð hvort hlustað verði á þá gagnrýni segir Þórdís að auðvitað verði hlustað á sjónarmið ferðaþjónustunnar en svona komi fjármálaráðherra til með að kynna þetta í dag.

Ferðamenn greiði sama skatt

Að sögn Þórdísar benda gögn frá fjármálaráðuneytinu og greiningar á áhrifum skattabreytinganna til þess að aðgerðin hægi á vexti ferðamanna til Íslands en fækki þeim ekki. „Þetta er atvinnugrein sem hefur slitið barnsskónum og telja menn nú tíma til að færa hana í almennt skattþrep,“ segir hún.

Þórdís bendir einnig á að í langan tíma hafi verið rætt um gjaldtöku á ferðamenn og erfiðlega hafi reynst að ná sátt og samstöðu um slík áform. „Ég lít svo á að með þessu séum við búin að slá komugjöld og náttúrupassa út af borðinu. Ég vil sjá gistináttaskatt felldan niður eða færðan til sveitarfélaga,“ segir Þórdís og bendir einnig á að ekki sé verið að skattleggja hagnað fyrirtækja heldur ferðamennina beint, sem nú greiði sama virðisaukaskatt og aðrir.

Þá bendir hún á að ýmsar aðgerðir séu í vændum til þess að styrkja stöðu landsbyggðarinnar í ferðamennsku, s.s. flugþróunarsjóður, markaðsstofurnar verði efldar sem og framkvæmdasjóður ferðamanna, svo dæmi séu tekin.