[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Þetta mál er enn rekið á vettvangi EUIPO, þeirrar stofnunar Evrópusambandsins sem annast vörumerkjaskráningar,“ segir Urður Gunnarsdóttir, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins, um aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn bresku verslanakeðjunni Iceland Foods, sem hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu. Málið hófst í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra en er haldið áfram af núverandi ráðherra.

Urður segir að samkvæmt síðustu upplýsingum sem hún hafi um stöðu málsins sé enn beðið eftir viðbrögðum bresku verslanakeðjunnar við kærunni. Viðbúið sé að málareksturinn geti tekið nokkra mánuði, jafnvel ár. Úrskurðarvald í málinu er í höndum stofnunarinnar.

Það var í nóvember í fyrra sem utanríkisráðuneytið greindi fyrst frá málinu. Fram kom að breska fyrirtækið hefði einkarétt á orðmerkinu Iceland í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun fyrrnefndrar vörumerkjastofnunar, EUIPO. Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.

Ráðuneytið upplýsti að verslanakeðjan hefði ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem notuðu orðið Iceland sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslanakeðjunnar hefðu m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn.

Rétt er að hafa í huga að aðgerðir ráðuneytisins gagnvart Iceland-keðjunni snúast ekki um það að meina henni að nota nafnið í sínu vörumerki heldur að koma í veg fyrir að fyrirtækið geti meinað íslenskum aðilum að nota nafnið, sem er mjög mikilvægt fyrir íslenskan útflutning.

Ekki er setið auðum höndum meðan málið er fyrir EUIPO því á mánudaginn kynntu fulltrúar utanríkisráðuneytisins málið á fundi nefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar í Genf, WIPO, um vörumerki, hönnun og landfræðilegar tilvísanir. Þann fund sóttu fulltrúar 87 ríkja. Sendinefndin gerði grein fyrir mikilvægi þess að viðskiptalífið geti tengt vörur sínar og þjónustu við uppruna og benti á að með því að leyfa skráningar orðmerkja sem samanstanda eingöngu af landaheiti væri í raun verið að veita eiganda skráningarinnar einkarétt á notkun viðkomandi landaheitis í viðskiptum. Slíkar skráningar takmörkuðu því svigrúm viðskiptalífsins, auk þess sem þær gætu í sumum tilfellum verið beinlínis misvísandi gagnvart neytendum um raunverulegan uppruna vara og þjónustu.

Fjallað hefur verið um málið á vefsíðunni Lexology, sem helguð er lagalegum álitaefnum í alþjóðlegum viðskiptum. Þar kemur fram að samkvæmt reglum EUIPO megi ekki nota heiti sem dregin eru af uppruna vöru eða þjónustu sem vörumerki. Þess vegna hafi vörumerkinu Monaco verið hafnað. En hvernig stendur þá á því að Iceland er leyft? Gögn sýna að stofnunin gerði ekki athugasemdir við skráningu breska fyrirtækisins á sínum tíma. Fyrirtækinu var eingöngu neitað að nota það um fisk því slíkt vöruheiti var talið lýsandi. Á öðrum sviðum hafi vörumerkið verið samþykkt gegn andmælum íslenskra stjórnvalda.

Á Lexology kemur fram að ekki sé þó algjörlega útilokað að nota landaheiti sem vörumerki. Hafi slíkt heiti verið notað nægilega lengi og oft opinberlega sé hægt að fá leyfi. Rökin eru að neytendur þekki þá merkið nógu vel og ruglist í slíkum tilvikum ekki á upprunanum og vörumerkinu. Það kemur nú í hlut Iceland-keðjunnar að sanna fyrir EUIPO að slíkt eigi við um vörumerki þess. Höfundur greinarinnar á Lexology telur að möguleikar íslenskra stjórnvalda til að fá einkaleyfi Iceland Foods hnekkt séu góðir.

Ísland gegn Iceland
» Breska verslanakeðjan Iceland hefur einkarétt á vörumerkinu Iceland.
» Evrópska vörumerkjastofnunin, EUIPO, veitti fyrirtækinu leyfið.
» Leyfið er talið skaða markaðsstarf íslenskra fyrirtækja erlendis.
» Iceland hefur markvisst hindrað íslensk fyrirtæki í að nota Iceland erlendis.
» Íslensk stjórnvöld krefjast þess að Iceland verði bannað þetta hátterni.