<strong>Sjómenn </strong>Sigurbjörg Berg Sigurðsson skipstjóri, til vinstri, og Þorleifur Guðjónsson.
Sjómenn Sigurbjörg Berg Sigurðsson skipstjóri, til vinstri, og Þorleifur Guðjónsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Á yfirstandandi vetrarvertíð hefur gengið vel hjá áhöfninni á Andey GK 66. Báturinn er í eigu og útgerð Stakkavíkur og tveir eru í áhöfn; Sigurbjörg Berg Sigurðsson skipstjóri og Þorleifur Guðjónsson.

Á yfirstandandi vetrarvertíð hefur gengið vel hjá áhöfninni á Andey GK 66. Báturinn er í eigu og útgerð Stakkavíkur og tveir eru í áhöfn; Sigurbjörg Berg Sigurðsson skipstjóri og Þorleifur Guðjónsson. Þeir fara gjarnan út á miðnætti og snema nætur leggja þeir línuna úti af Krýsuvíkurbergi. Koma svo inn síðdegis og síðastliðinn þriðjudag var afli dagsins um 6 tonn. Þegar best hefur látið að undanförnu hafa Andeyingar fiskað 14-15 tonn á dag. Koma þá fyrst í land með það sem báturinn ber og renna svo aftur eftir restinni.

Munar hundrað þúsund köllum

„Það er misjafnt frá degi til dags hvernig fiskast, en því ræður veður, sjávarstraumar og fleira,“ segir Sigurbjörn skipstjóri, sem hefur fiskað á þessum miðum í áratugi. „Að fá kannski 15 tonna afla á 36 bjóð á einum degi er mjög gott. En auðvitað finnur maður alveg fyrir því í launum að krónan styrkist. Það munar einhverjum hundrað þúsund köllum í launum hvers mánaðar.“

Þorleifur Guðjónsson hefur verið á Andey í þrjú ár. Hann hefur verið í áratugi á sjó; var á netabátunum, seinna togurum en er nú kominn á línubát eins og í gamla daga. „Það verður ágætt að enda ferilinn eins og maður byrjaði. Ég ætla í land á næsta ári, enda get ég hætt þá orðinn 67 ára,“ segir Þorleifur, sem viðurkennir að vinnudagarnir á sjónum séu oft langir. Á þriðjudaginn komu þeir Sigurbjörn í land um klukkan þrjú og höfðu þá verið fimmtán tíma úti. Stundum er starfsdagurinn lengi svo ekki munar miklu að sólarhringurinn nái saman.

„Þetta er ekki stanslaus vinna, það koma alltaf góðar pásur inni á milli eins og þegar við höfum lagt línuna. Þá er hægt að leggja sig í tvo til þrjá tíma. En núna þegar ég er búinn að spjalla við þig og lesta bátinn ætla ég heim og leggja mig. Ekki veitir af, því það styttist í næsta ræs,“ segir Þorleifur. sbs@mbl.is