Líkið af Kim Jong-nam, hálfbróður Kims Jong-un einræðisherra, verður sent til Norður-Kóreu. Á sama tíma verður níu malasískum ríkisborgurum sem staddir eru í Pjongjang heimilað að yfirgefa landið og halda heim. Þetta staðfesti Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, við fréttaveitu AFP .
„Nú þegar krufning og rannsókn er lokið á hinum látna og fjölskylda hans búin að fara fram á að jarðneskar leifar verði sendar aftur til Norður-Kóreu hefur dánardómstjóri samþykkt að afhenda líkið,“ segir Najib í samtali við fréttamann AFP .
Jong-nam var myrtur með eiturefninu VX sem Sameinuðu þjóðirnar hafa skilgreint sem gereyðingarvopn og er öflugasta taugaeitur sem vitað er með vissu að hafi verið framleitt. Er Kim Jong-un sakaður um að hafa fyrirskipað morðið á hálfbróður sínum.