Guðleif og Arnar Ingi voru ákaflega lukkuleg með sýninguna.
Guðleif og Arnar Ingi voru ákaflega lukkuleg með sýninguna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðleif Nóadóttir og Arnar Ingi Lúðvíksson fóru ótroðnar slóðir þegar þau ákváðu að ganga í hjónaband í byrjun árs.
Guðleif Nóadóttir og Arnar Ingi Lúðvíksson fóru ótroðnar slóðir þegar þau ákváðu að ganga í hjónaband í byrjun árs. Hjónakornin, sem höfðu verið par í fjöldamörg ár, höfðu lengi talað um að gifta sig en langaði þó ekki að halda hefðbundið kirkjubrúðkaup. Ellen Ragnarsdóttir | ellen@mbl.is

Okkur langaði alltaf að gifta okkur með öðruvísi hætti. Við höfðum velt því fyrir okkur að fara til sýslumanns og svo sáum við grein þar sem auglýst var eftir tilvonandi brúðhjónum sem væru til í að gifta sig á leiksýningu. Við ákváðum að sækja um en heyrðum ekkert í þeim sem ætluðu að sjá um það í langan tíma og héldum að þetta væri úr sögunni. Mörgum mánuðum seinna fengum við síðan póst þar sem okkur var boðið að taka þátt. Þá ákváðum við bara að slá til,“ segir Guðleif, en sýningin sem um ræðir nefndist A Guide to the Perfect Human og var sýnd í Tjarnarbíói.

Athöfnin, sem og sýningin, var fremur óhefðbundin en ekki vissu allir sýningargestir að um raunverulegt brúðkaup væri að ræða. Sýningin hófst á því að veislugestir söfnuðust saman í Tjarnarbíói, þaðan sem þeir röltu yfir í Iðnó. Þar var síðan haldin stutt athöfn þar sem Guðleif og Arnar Ingi voru gefin saman. Að því loknu var brúðhjónunum skutlað í myndatöku, áður en borðhaldið hófst, en það fór fram á sviðinu í Tjarnarbíói. Hluti veislugesta sat við borð á sviðinu á meðan aðrir sátu í áhorfendastúkunni.

„Við sátum við langborð á sviðinu, en við vorum búin að láta okkar gesti vita að þeir ættu bara að haga sér eins og í venjulegri veislu. Að þetta væri alls ekkert formlegt,“ segir Guðleif og bætir við að athöfnin hafi verið einstaklega skemmtileg og vel heppnuð.

„Svo var þriggja rétta máltíð í leikhúsinu. Aðalrétturinn var harðsoðið egg, en þegar þau voru borin á borð var stiginn eggjadans. Brúðartertan var síðan bollakaka, en þeir sem sátu í stúkunni fengu engan mat heldur þurftu að horfa á hina borða. Við hvert borð mátti síðan finna reglur, svo sem að bannað væri að setja olnboga á borðið og sitja þyrfti beinn í baki. Ef veislugestir brutu reglurnar voru þeir sendir upp í stúku og aðrir gestir sendir niður í staðinn.“

Eins og áður sagði höfðu skötuhjúin engan áhuga á því að gifta sig með hefðbundnum hætti, en Guðleif verður seint talin kirkjurækin.

„Við höfðum lengi hugsað okkur að gifta okkur, en höfðum ekki áhuga á venjulegri athöfn í kirkju. Mér leiðist bara svo mikið að vera í kirkju, að ég vildi ekki gera gestunum það,“ segir Guðleif hress í bragði og bætir við að gestirnir hafi skemmt sér konunglega.

„Allir sem komu á okkar vegum voru voðalega ánægðir með þetta. Öllum fannst þetta æðislegt og sögðu að þetta hefði verið skemmtilegasta brúðkaup sem þau hefðu farið í,“ segir Guðleif að endingu.

Höf.: Guðleif Nóadóttir, Arnar Ingi Lúðvíksson