Hvort sem fólk trúir því eða ekki eru ekki nema rétt um fjórar vikur þar til flautað verður til leiks í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Sunnudaginn 30. apríl hefst veislan, en þá fara fram þrír leikir í deildinni.
Hvort sem fólk trúir því eða ekki eru ekki nema rétt um fjórar vikur þar til flautað verður til leiks í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Sunnudaginn 30. apríl hefst veislan, en þá fara fram þrír leikir í deildinni. ÍBV og Fjölnir eigast við í Eyjum, ÍA tekur á móti Íslandsmeisturum FH og Valur og Víkingur Ólafsvík eigast við á Valsvellinum.

Það verður að segjast eins og er að Pepsi-deildin á síðustu leiktíð náði aldrei neinu flugi. Ævintýraför íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótið í Frakklandi setti eðlilega mikið strik í reikninginn.

Eftir Evrópumótið var stemningin afar lítil í kringum Pepsi-deildina og aðsóknin á leikina var dræm og ekki bætti úr skák að titilbaráttan var engin.

FH tryggði sér áttunda Íslandsmeistaratitilinn í 20. umferðinni og varð fyrsta liðið í 21 ár til að verða meistari án þess að spila en eftir jafntefli Breiðabliks í 20. umferðinni, sem fram fór eftir að FH hafði lokið sínum leik, var titillinn í höfn hjá Hafnarfjarðarliðinu.

FH verður áfram liðið sem önnur lið þurfa að keppast við að velta úr sessi sem besta lið landsins. Mín spá er sú að FH fagni titlinum þriðja árið í röð en vonandi fær liðið harða keppni. Ég sé fyrir mér að Valur, KR, Stjarnan og Breiðablik séu liðin sem hafi burði til að skáka FH-liðinu við í sumar.

Grasvellir landsins virðast koma ansi vel undan vetri og það ætti því ekkert til fyrirstöðu að við fáum að sjá góðan fótbolta strax í fyrstu umferðinni og vonandi verða gæðin, stemningin og mörkin meiri en á síðustu leiktíð.