Brúðkaupsferð hjónakornanna var ansi rómantísk.
Brúðkaupsferð hjónakornanna var ansi rómantísk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónakornin Katrín Björg Weskamp og Paul Weskamp gengu í það heilaga síðasta sumar. Brúðkaupið var vel lukkað í alla staði, og brúðkaupsferðin var afar eftirminnileg og hreint ekkert slor. Ellen Ragnarsdóttir | ellen@mbl.is

Við skötuhjúin gengum í það heilaga 25. júní 2016. Þar sem eiginmaður minn er þýskur og kaþólskur var brúðkaupið okkar mjög sérstakt. Ég ólst að mestu upp á Akureyri og hafði alltaf látið mig dreyma um að gifta mig í Akureyrarkirkju. Eiginmaðurinn vildi uppfylla þann draum svo við enduðum á því að fá séra Jakob, sem er kaþólskur og þýskumælandi prestur, til þess að koma til Akureyrar og gefa okkur saman að kaþólskum sið. Helmingur athafnarinnar fór fram á íslensku og hinn helmingurinn á þýsku. Við héldum síðan veislu og okkur til mikillar gleði komu 50 manns alla leið frá Þýskalandi til þess að fagna með okkur. Nokkrum dögum síðar flugum við síðan í brúðkaupsferðina,“ segir Katrín Björg, en hún og eiginmaður hennar fóru í afar eftirminnilega og rómantíska brúðkaupsferð.

„Brúðkaupsferðin var æði. Fyrst flugum við til Las Vegas, gistum þar í tvær nætur, skoðuðum borgina, næturlífið og spilavítin. Ótrúlegt en satt þá tókst okkur að græða smá pening í rúllettu. Eftir það leigðum við okkur Mustang-blæjubíl og keyrðum í gegnum eyðimörkina til Los Angeles og síðan til San Francisco. Á leiðinni stoppuðum við í nokkrum smábæjum og skoðuðum okkur um. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, 4. júlí, vorum við stödd í litlum bæ sem heitir Monterey. Það var mjög áhugavert að sjá alla fagna, en bæjarstjórinn keyrði vinkandi í gegnum mannfjöldann á blæjubílnum sínum. Þegar við komum til San Francisco var veðrið ekkert sérstaklega spennandi og notuðum við því dagana þar til að slappa af á hótelinu,“ segir Katrín Björg, en ferðin var þó alls ekki búin.

„Eftir 10 daga ferðalag flugum við síðan til Oahu á Hawaii og slöppuðum þar af í viku. Vinafólk okkar hafði gefið okkur þyrluferð um eyjuna í brúðkaupsgjöf, svo auðvitað nutum við þess. Við leigðum einnig bíl og keyrðum sjálf um eyjuna þar sem við skoðuðum allskonar skemmtilegheit og fallegar strendur. Við fórum til dæmis í fjórhjólaferð um svæði þar sem margar kvikmyndir hafa verið teknar upp, svo sem Jurassic Park og 50 first dates. Síðasta daginn heimsóttum við Honolulu og skoðuðum minningarsvæðið í Pearl Harbor, sem hreyfði mikið við okkur, en smápartur af Arizona-skipinu liggur enn á hafsbotninum þar.“

Eftir dvölina á Hawaii flugu skötuhjúin aftur til Las Vegas, þar sem Paul kom sinni heittelskuðu á óvart en hann hafði bókað þyrluflug yfir Miklagljúfur án hennar vitundar.

„Það var ótrúlegt ævintýri. Þyrlunni var lent í gljúfrinu, þar sem við gátum fengið okkur einn kaldan, smá hressingu og tekið myndir. Eftir þyrluferðina fórum við síðan í eitt af stærstu sundlaugarpartíunum í Las Vegas, sem kallast Wet Republic og um kvöldið skelltum við okkur á Hakkasan Nightclub, sem er einn af þeim þekktustu í Las Vegas,“ segir Katrín Björg.

„Það má með sanni segja að þetta hafi verið draumaferðin okkar. Ég vildi upphaflega bara fljúga eitthvert í sólina og slappa af, en maðurinn minn vildi helst fara eitthvert þar sem við gætum drukkið í okkur smá menningu og skoðað okkur um. Okkur tókst að sameina báðar þessar draumaferðir og gætum ekki verið ánægðari með útkomuna,“ segir Katrín Björg sem ekki einungis á yndislegar minningar úr ferðinni, því á allra næstu dögum eiga hjónakornin von á sínu fyrsta barni sem einmitt kom undir í hinni rómantísku ferð.

Höf.: Katrín Björg Weskamp, Paul Weskamp