Iðnaður Mikill styr hefur staðið um rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík síðustu misserin og er m.a. deilt um mengun frá starfseminni.
Iðnaður Mikill styr hefur staðið um rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík síðustu misserin og er m.a. deilt um mengun frá starfseminni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

„Ég var bæði orðlaus og hissa þegar okkur barst yfirlýsingin frá Orkurannsóknum,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, en fyrirtækið annast umhverfisvöktun við verksmiðju United Silicon í Helguvík.

Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að mælingar sem birtar hafa verið um innihald þungmálma og PAH-efna í ryksýnum í nágrenni við verksmiðjuna séu úr öllu samhengi við raunverulega losun frá fyrirtækinu. Mistök hafi verið í fyrri mælingum.

Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að niðurstöður mælinga á ryksýnum sem tekin voru í mælistöðinni við Hólmbergsbraut hafi verið bornar saman við efnagreiningar á ryki frá útblæstri kísilverksmiðju United Silicon og þær sýni allt að 67 sinnum meira magn þessara efna í ryksýnunum en það sem mælist í ryki frá útblæstri verksmiðjunnar. Þar á meðal sé gildi arsens 27 sinnum meira í ryksýnunum en hafi mælst í útblæstri verksmiðjunnar.

„Við getum lítið gert núna annað en að fylgjast náið með málinu en við funduðum með Umhverfisstofnun í morgun og embætti Sóttvarnalæknis. Okkur var gerð grein fyrir ákvörðun Umhverfisstofnunar um verkfræðilega úttekt á bæði hönnun og rekstri verksmiðju United Silicon. Þar verður m.a. fenginn til verks vottaður mælingaraðili frá Svíþjóð.“

Verksmiðjan áfram í rekstri

Um áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar segir Friðjón að Umhverfisstofnun telji nauðsynlegt að verksmiðjan þurfi að vera í gangi á meðan sú úttekt á sér stað en bæjarráð krefst þess, í ljósi framkominna frétta um misvísandi niðurstöður mælinga, að vinnubrögð verði endurskoðuð þannig að íbúar geti treyst þeim upplýsingum sem fram verða settar.

Spurður hvort Umhverfisstofnun haf skýrt misræmi í mælingum vísar Friðjón til yfirlýsingar Umhverfisstofnunar þar sem segir að um tvenns konar mistök gæti verið að ræða. Ljóst sé að réttri aðferðafræði var ekki fylgt þegar viðkomandi vöktunaraðili sendi sýni héðan til greininga erlendis. Að auki séu ákveðnar vísbendingar um að hugsanlega hafi verið gerð mistök við greiningu sýnaskammts fyrir október til desember 2016.

Áður hafði Sóttvarnalæknir greint frá því, á grundvelli fyrri upplýsinga um háan styrk arsens, að þegar litið væri til niðurstaðna erlendra rannsókna og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana mætti álykta að styrkur arsens í nágrenni kísilverksmiðjunnar í Helguvík væri langt undir þeim mörkum sem talin eru valda bráðum, alvarlegum, heilsuspillandi áhrifum.