Fjarðabyggð Vinnsla á fiskimjöli er stór þáttur í sjávarútveginum á Austurlandi. Þessi mynd er frá Eskifirði þar sem verksmiðja Eskju hf. er fyrir miðri mynd.
Fjarðabyggð Vinnsla á fiskimjöli er stór þáttur í sjávarútveginum á Austurlandi. Þessi mynd er frá Eskifirði þar sem verksmiðja Eskju hf. er fyrir miðri mynd. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fiskimjölsframleiðendur og Landsvirkjun semja. Umframorka seld í verksmiðjurnar. Mengandi orkugjafar mega missa sig.

Fulltrúar Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda undirrituðu í vikunni samkomulag um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði. Framleiðendur hafa í tímans rás notað bæði olíu og rafmagn í starfsemi sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á því og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni. Nú eru um 75% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja rafvædd en talið er raunhæft að það hlutfall geti farið upp í um 85%. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf hins vegar að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku í landinu.

Styðja við markmið í loftslagsmálum

Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Íslands í loftslagsmálum. Skrifað var undir yfirlýsinguna í hinu nýuppgerða Marshall-húsi við Grandagarð í Reykjavík sem nú er listhús en var upphaflega byggt sem síldarbræðsla og gegndi því hlutverki í um hálfa öld.

Hjá Landsvirkjun kemur fram að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði, sem mun væntanlega standa fiskmjölsframleiðendum til boða sem og öðrum sem uppfylla skilyrði Framboðið ræðst hins vegar af aðstæðum í vatnsbúskap hverju sinni og getur því verið takmarkað á stundum. Þá ætla fiskimjölsframleiðslu að nýta rafmagnið eins og kostur er „í stað annarra mengandi orkugjafa,“ eins og komst er að orði í fréttatilkynningu.

Umhverfisvænt umfram aðra orkugjafa

„Yfirlýsing þessi er stórt skref í þá átt að takast megi að fullnýta þá fjárfestingu í rafvæðingu sem þegar hefur átt sér stað í verksmiðjunum og jafnvel að auka hana eitthvað,“ segir í tilkynningu, haft eftir Jóni Má Jónssyni, formanni Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda. „Yfirlýsingin gerir það að verkum að félagið getur með góðri samvisku hvatt félagsmenn sína til að nota umhverfisvænt skerðanlegt rafmagn umfram aðra orkugjafa. Það er von okkar að sá andi og þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við gerð yfirlýsingarinnar nái líka til annarra aðila sem koma að sölu á rafmagni til verksmiðjanna.“

sbs@mbl.is