Synir Gylfa Askur og Jökull, stjúpsynir Önnu Svövu, ásamt Gylfa.
Synir Gylfa Askur og Jökull, stjúpsynir Önnu Svövu, ásamt Gylfa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Svava Knútsdóttir fæddist 31. mars 1977 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hún ólst upp í Fossvoginum og gekk í Fossvogsskóla og Réttarholtsskóla. Anna Svava bjó einnig í Danmörku þegar hún var 5 ára og Englandi þegar hún var 8 ára.

Anna Svava Knútsdóttir fæddist 31. mars 1977 á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hún ólst upp í Fossvoginum og gekk í Fossvogsskóla og Réttarholtsskóla. Anna Svava bjó einnig í Danmörku þegar hún var 5 ára og Englandi þegar hún var 8 ára.

Anna Svava varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1997, var í námi í bókmenntafræði við Háskóla íslands 1999-2002, síðan í Leiklistarskóla Listaháskóla Íslands 2003 og útskrifaðist þaðan 2007.

„Ég var ekkert byrjuð að spá í að skrifa á þessum tíma. Ég held að fólk velji bókmenntafræði þegar það veit ekkert hvað það ætlar að gera. Það ætlar bara að lesa eitthvað skemmtilegt og það var mjög skemmtilegt í bókmenntafræðinni. Ég kláraði 90 einingarnar og var m.a.s. hálfnuð með lokaritgerðina, en ég mun ekkert fá meira borgað þótt ég klári hana. Ástæðan fyrir því að ég fór síðan í leiklistarskólann var að ég lærði leiklistarsögu í bókmenntafræðinni og þá settum við upp sýningu. Þar fékk ég áhuga á að verða leikkona, en ég hafði aldrei leikið í framhaldsskóla eða neinu slíku, þótt ég hefði verið dugleg í félagsmálum, var formaður skemmtinefndar og unglingaráðs og þess háttar.“

Skemmtilegra að skrifa

Eftir útskrift úr Leiklistarskólanum hóf Anna Svava störf hjá Leikfélagi Akureyrar, var þar í tvö ár en samdi síðan og flutti einleikinn Dagbók Önnu Knúts – helförin mín árið 2009.

„Þessi sýning var það fyrsta sem ég skrifaði og eftir hana hef ég verið beðin um að skrifa og það kom mér mjög á óvart og það kemur mér enn á óvart að einhver skuli biðja mig um það. Mér finnst þetta miklu skemmtilegra en að leika, það er ekkert sem getur hamlað manni í því.“

Síðan þá hefur Anna Svava unnið við skriftir, uppistand og veislustjórn. Hún hefur verið einn af höfundum Áramótaskaupsins í fimm skipti, hún hefur skrifað m.a. fyrir sjónvarpsþættina Hæ Gosi og Hulla, Stundina okkar og átti hugmyndina að, var handritshöfundur og lék aðalhlutverkið í sjónvarpsþáttaröðinni Ligeglad. „Það er ekkert mál að fá hugmyndir, aðalmálið er að framkvæma þær og við gerðum þessa þætti saman við Arnór Pálmi Arnarson leikstjóri og bróðir minn Arnar sem var framleiðandi.“ Vignir Rafn Valþórsson sem lék í þáttunum og Anna Svava hafa lokið við að skrifa aðra þáttaröð að Ligeglad og vonast hún til að þættirnir geti farið í framleiðslu í haust. „Ég eignaðist barn í janúar og þess vegna er ekki hægt að demba sér í þetta strax, núna eru barnauppeldi og að búa til þroskaleikföng helstu áhugamálin.

Svo hefur ísbúðin Valdís tekið mikinn tíma. Við sambýlismaðurinn minn stofnuðum hana 2013 og hefur ísbúðin verið svo vinsæl að ég hef þurft að aðstoða hann við hana. Mér finnst annars alveg fáránlegt að eiga 40 ára afmæli því ég er bara 25.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Önnu Svövu er Gylfi Þór Valdimarsson, f. 9.10. 1975, matreiðslumaður og ísbúðareigandi. Foreldrar hans eru Margrét Sigríður Karlsdóttir, f. 8.2. 1956, starfsmaður sýslumannsins í Keflavík, og Valdimar Þorgeirsson, f. 28.8. 1954, verslunarstjóri í Fríhöfninni og ökukennari.

Börn Önnu Svövu og Gylfa eru Arnar Orri Gylfason, f. 16.3. 2015, og Laufey Gylfadóttir, f. 6.1. 2017. Synir Gylfa eru Jökull Orri Gylfason, f. 28.10. 2002, og Askur Orri Gylfason, f. 23.1. 2008.

Albróðir Önnu Svövu er Arnar Knútsson, f. 2.7. 1971, kvikmyndagerðarmaður og framleiðandi, bús. í Reykjavík; systur Önnu Svövu samfeðra eru Kristín Helga Knútsdóttir, f. 12.3. 1984, aðstoðarmaður forstjóra HB Granda, bús. í Reykjavík, og Sigrún Anna Knútsdóttir, f. 6.4. 1987, flugfreyja og kennari, bús. í Reykjavík; bróðir Önnu Svövu sammæðra er Andri Kjartan Andersen, f. 14.6. 1989, teiknari, bús. í Hveragerði.

Foreldrar Önnu Svövu eru Ásthildur Kjartansdóttir. f. 5.10 1950, kvikmyndagerðarmaður og kennari, bús. í Reykjavík, og Knútur Signarsson, f. 15.4. 1950, fyrrverandi framkvæmdastjóri og núverandi golfari, bús. í Reykjavík. Eiginkona Knúts er Kristín Helga Waage, f. 27.4. 1951, húsmóðir og ofuramma. Stjúpfaðir Önnu Svövu og sambýlismaður Ásthildar er Jakob Andersen, f. 8.10 1952, eigandi Reykjavík Posters.