Við ákváðum að halda mótmælabrúðkaup vegna þess að kynsegin fólk, sem hvorki skilgreinir sig sem karla eða konur, getur lagalega séð ekki gift sig sem kynsegin. Þessi hópur fólks þarf því að gera málamiðlun, og annað hvort skrá sig sem karla eða konur þegar það gengur í hjónaband. Við viljum ekki gera þessa málamiðlun, sem á ekki einungis við um hjónabönd, því við getum ekki skráð okkur sem kynsegin á nein opinber skjöl eða skilríki,“ segir Ugla Stefanía.
„Við gætum skráð okkur í hjónaband, en maki minn er ekki búinn að breyta fæðingarvottorðinu sínu. Lagalega séð yrðum við því að gifta okkur sem tvær konur. Það finnst okkur ekki í lagi, og sýnir hversu fáránlegt það er að þurfa að skrá kyn á þennan hátt. Í okkar tilfelli á það einfaldlega ekki við og gæti í rauninni breyst,“ segir Ugla Stefanía, en hán og maki hennar hafa lengi barist fyrir vitundarvakningu um málefni trans- og kynsegin fólks.
„Í mörgum löndum, svo sem Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Danmörku og Möltu er mögulegt að skrá kyn sitt sem X hjá opinberum stofnunum. Með brúðkaupinu viljum við því þrýsta á bresk stjórnvöld til að taka þetta upp á þinginu. Við gerðum einnig könnun þar sem við spurðum kynsegin fólk á Bretlandi hvort það vildi fá möguleikann á því að geta skráð kyn sitt sem X á opinber skjöl, og ætlum í kjölfarið að senda bréf á þingmenn. Ég veit að á Íslandi verður hugsanlega lagt fram lagafrumvarp á næstunni, þar sem leggja á til kynlausa skráningu. Síðan er spurning hvort það muni ná í gegn,“ segir Ugla Stefanía, en hán og Fox myndu gjarnan vilja gifta sig í framtíðinni.
„Við myndum vilja skuldbinda okkur á einhvern hátt, hvort sem það væri í formi giftingar eða borgaralegrar athafnar. Athöfnin yrði þó líklega fremur óhefðbundin, enda erum við ekkert rosalega hefðbundið par,“ segir Ugla Stefanía og skellir upp úr. Mótmælabrúðkaupið var þó fremur hefðbundið.
„Við héldum athöfn við ráðhúsið í Brighton, en vinur okkar sá um hana. Hann hefur áður haldið mótmælaathafnir, meðal annars þegar samkynja pör máttu ekki gifta sig á Bretlandi. Síðan buðum við vinum okkar að koma og njóta dagsins með okkur. Þrátt fyrir að athöfnin hafi verið nokkuð hefðbundin var hún auðvitað pólitísk. Eftir giftinguna héldum við síðan svolitla veislu,“ segir Ugla Stefanía og bætir við að það geti valdið kynsegin fólki miklum vandræðum að þurfa annað hvort að skilgreina sig sem karlmenn eða konur opinberlega.
„Við sem samfélag erum einfaldlega komin lengra og erum farin að hugsa um kyn sem víðara mengi. Þetta snýst um ákveðna þróun, en það að ég gæti skráð mig sem X á opinberum skjölum myndi breyta ofsalega miklu fyrir mig. Þeir sem eru ekki kynsegin skilja kannski ekki hversu miklu máli það skiptir okkur. Fólk þarf bara að leyfa öðrum einstaklingum að vera þeir sjálfir og hafa möguleika á því að skrá kyn sitt á þann hátt sem endurspeglar kynvitund þeirra.“