31. mars 1863 Vilhelmína Lever kaus í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri og varð þar með fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi.
31. mars 1863
Vilhelmína Lever kaus í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri og varð þar með fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi. Hún var þá 61 árs og sögð „einkar vel gáfuð“ og „einhver hin framkvæmdasamasta og duglegasta kona sinnar tíðar“.
31. mars 1967
Snjódýpt á Raufarhöfn mældist 205 sentímetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli. „Ein fjölskylda varð að yfirgefa hús sitt vegna þess hve snjóinn skóf ofan í skorsteininn svo ekki var hægt að kynda það,“ sagði Alþýðublaðið.
31. mars 2007
Hafnfirðingar höfnuðu tillögum um stækkun álversins í Straumsvík með 88 atkvæða mun. Andvígir stækkun voru 6.382 en 6.294 hlynntir. Kosningaþátttaka var 77%. „Það er mikil sorg í mönnum og vonbrigði,“ sagði Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi í samtali við Fréttablaðið.Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson