Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Síðasti vinnudagur á Rakarastofunni Klapparstíg í Reykjavík er í dag. Hún á sér tæplega 100 ára sögu. Þar af hefur Sigurpáll Grímsson rakarameistari rekið hana í um 50 ár og á núverandi stað síðan 1980.
Sigurpáll er kominn á aldur og það er ein ástæða þess að hann skellir nú í lás. Óþægindi vegna ýmissa framkvæmda í nágrenninu vega þó þyngra. „Allt í kringum mig hefur verið í hers höndum í sjö ár,“ segir hann. Götur hafi meira og minna verið lokaðar, Hverfisgata og Smiðjustígur sundurgrafin, og á síðasta ári hafi gatan fyrir framan rakarastofuna verið eins og uppskipunarhöfn. „Reiturinn er stór og allir flutningar vegna byggingarframkvæmda á honum hafa farið hérna í gegn. Vaðið hefur verið yfir fyrirtæki á svæðinu,“ segir hann.
Útgönguleið
Mikil eftirspurn hefur verið eftir húsnæði á svæðinu og segir Sigurpáll að hann hafi fengið nokkur tilboð í húsnæði sitt. Hann hafi að lokum tekið einu þeirra. „Það hefur verið vegið að okkur og eins og eigendur smáfyrirtækja hafa upplifað er lítið hægt að fá fyrir fyrirtækin hérna sem slík og því var þetta ágætis útgönguleið.“Starfsliðið tekur við rekstrinum og flytur í húsnæði hjá Hársnyrtistofunni Sandro á Hverfisgötu 49. Nú eru sjö starfsmenn í rúmlega fjórum stöðugildum en voru mest 32. „Ég hvet alla viðskiptavinina til þess að fylgja fólkinu mínu,“ segir Sigurpáll. Hann segir að vinnan hafi alltaf verið jafn skemmtileg og aðsóknin aukist eftir að bítlatískan hafi minnkað og liðið undir lok. „Það þurfti samt líka að snyrta bítlahárið, en ég byrjaði að læra um það leyti sem Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið og þá var ég einn af sárafáum í náminu. Rakarar hættu og fóru í annað og ég keypti mig strax inn í stofuna að loknu námi.“
Á tímabili unnu tvær stúlkur við að taka á móti viðskiptavinum og selja vörur, einkum rakspíra. „Eftir að sala á rakspíra var gefin frjáls byrjaði ég að selja þessar vörur og auglýsti þær grimmt,“ rifjar Sigurpáll upp.
Margir viðskiptavinir rakarastofunnar hafa haldið tryggð við hana í mörg ár. Sigurpáll segir að á dögunum hafi einn maður sagt sér að hann hafi flutt til Reykjavíkur sem barn 1938 og verið kúnni á rakarastofunni síðan þá. „Þegar ég mætti á staðinn, kornungur maðurinn, nýbúinn að kaupa mig inn, voru nær allir fastir kúnnar og þeir tóku mér vel enda var ég eini nýi maðurinn á svæðinu.“