<strong>Úr róðri</strong> Elís Pétur Elísson og Björn Hermannsson á Ella P koma til hafnar á Breiðdalsvík með metafla í desember 2014 og báturinn er vel siginn. Rólegt hefur verið yfir aflabrögðum undanfarið eftir góðan febrúarmánuð.
Úr róðri Elís Pétur Elísson og Björn Hermannsson á Ella P koma til hafnar á Breiðdalsvík með metafla í desember 2014 og báturinn er vel siginn. Rólegt hefur verið yfir aflabrögðum undanfarið eftir góðan febrúarmánuð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppbygging til lands og sjávar á Breiðdalsvík. Bjórinn Beljandi fljótlega á markað.

Aflinn í febrúar var bingó, en þegar kom fram í marsmánuð var lítið að hafa á línuna og aflabrögð hafa lítið glæðst enn sem komið er,“ segir Elís Pétur Elísson, skipstjóri og útgerðarmaður á Breiðdalsvík. Hann segist lítið hafa róið síðustu daga og meðal annars nýtt tímann til að standsetja brugghús á Breiðdalsvík. Þar verður Beljandi-bjór fáanlegur þegar kemur fram á vorið.

„Þegar loðnan kom lagðist hún yfir allt og fiskurinn virðist ekki enn vera búinn að jafna sig eftir að hafa étið yfir sig í veislunni. Síðstu þrjú ár hefur loðnan gengið hjá og menn hafa varla tekið eftir breytingu í aflabrögðum. Eldri menn segja mér að í ár hafi þetta verið eins og í gamla daga og það sé eðlilegt að fiskurinn sé einhvern tíma að jafna sig,“ segir Elís.

Tók því varla að sækja steinbítinn

Eins og áður sagði var góður þorskafli í febrúar og mest að hafa í grennd við Hvítinga út af Hvalnesi. Þá hefur tíðarfarið verið með besta móti miðað við árstíma. Elís segist oft hafa farið á steinbít á þessum tíma árs og vel hafi veiðst af honum í marz en verðið á fiskmörkuðum hafi hins vegar verið svo lágt undanfarið að varla hafi tekið því að sækja steinbítinn.

Sjómenn sem róa frá Breiðdalsvík, Stöðvarfirði og Djúpavogi fylgjast vel með því hvort þorskurinn gefi sig og reiknar Elís með að fara á sjó fyrr en seinna. Farandbátarnir, eins og Elís kallar þá, landa aðallega í höfnum á Snæfellsnesi og Reykjanesi á þessum árstíma, en nokkrir bátar leggja reglulega upp á Breiðdalsvík.

Þar hefur fyrirtækið Ísfiskur verið með vinnslu í frystihúsinu í tvö ár og núna eru þar um tíu heilsársstörf. Ísfiskur kaupir fisk af bátunum og einnig á markaði, en tveir bátanna og Ísfiskur eru í samstarfi um byggðakvóta Breiðdælinga. Sveitarfélagið fær 150 þorskígildistonn í byggðakvóta og 400 tonn í sérstakan byggðakvóta.

Fiskvinnslan er í gamla frystihúsinu, sem Byggðastofnun lét gera upp til margvíslegra nota, meðal annars er þar glæsilegur ráðstefnu- og tónleikasalur. Í Breiðdalshreppi búa nú um 180 manns, þar af um 120 á Breiðdalsvík, en í hreppnum voru skráðir 302 íbúar 1998.

Í Breiðdalshreppi er töluverð ferðatengd starfsemi og má nefna Hótel Bláfell á Breiðadalsvík, Hótel Staðarborg í Breiðdal, veiðihúsið Eyjar við Breiðdalsá og loks Silfurberg, sveitahótel að Þorgrímsstöðum í botni Breiðdals, auk fleiri minni eininga.

Vantar fólk til að vinna störfin

Elís segir að gróska sé í atvinnuuppbyggingu á svæðinu, nokkrir bændur hafi stofnað matvælaframleiðslu undir nafni Breiðdalsbita og ný harðfiskverkun hafi tekið til starfa, svo fátt eitt sé nefnt.

„Hér vantar ekki atvinnu heldur fólk til að vinna störfin,“ segir Elís. „Annars tel ég útgerð og fiskvinnslu vera nauðsynlega kjölfestu í svona byggðarlögum og því mikilvægt að tryggja að þær greinar geti rekið sig og dafnað til lengri tíma litið. Þessi byggðarlög byggðust upp í kringum sjávarútveginn og það gerir mikið fyrir sjarmann og karakterinn í svona byggðarlagi þegar margir bátar eru að landa fiski og vinnslan á fullu gasi.“

Beljandi á Gæruloftinu

Brugghúsið Beljandi, sem áður var nefnt, dregur nafn af svipmiklum fossi í Breiðdalsá. Starfsemi þess er einkum hugsuð til að efla ferðaþjónustu og fjölga möguleikum í plássinu.

Elís stendur að þessu litla brugghúsi ásamt Daða Hrafnkelssyni, sem er brottfluttur Breiðdælingur, en starfar nú sem tannlæknir í Danmörku. Þeir keyptu gamla sláturhúsið á Breiðdalsvík undir brugghúsið og þar verður m.a. að finna barinn Gæruloftið.

Áætlað er að framleiða fjórar tegundir af gæðabjór fyrir austfirskan markað til að byrja með og voru tæki keypt frá Danmörku. aij@mbl.is