Karlakór Hreppamanna Alveg skælbrosandi með stjórnandanum Edit Molnár.
Karlakór Hreppamanna Alveg skælbrosandi með stjórnandanum Edit Molnár.
Nú geta unnendur karlakórssöngs aldeilis fagnað og skundað af stað, því fram undan eru þrennir afmælistónleikar Karlakórs Hreppamanna sem skipaður er vöskum uppsveitarmönnum.

Nú geta unnendur karlakórssöngs aldeilis fagnað og skundað af stað, því fram undan eru þrennir afmælistónleikar Karlakórs Hreppamanna sem skipaður er vöskum uppsveitarmönnum. Á morgun, laugardag, eru tuttugu ár liðin frá því að hátt í þrjátíu karlar komu saman á Flúðum með Edit Molnár og gengið var í að stofna kór. Allar götur síðan hefur Edit séð um að stjórna körlunum en kórnum hefur vaxið fiskur um hrygg og eflst bæði í fjölda karla og gæðum söngs, enda Edit metnaðarfullur listamaður og það sama má segja um undirleikarann Miklós Dalmay sem fylgt hefur kórnum dyggilega.

Ekki aðeins ætla Hreppamenn að sjá um að syngja fyrir afmælisgesti sína á komandi tónleikum heldur fá þeir þrjá aðra karlakóra til liðs við sig. Tónleikaröðin byrjar á Flúðum á morgun, laugardag 1. apríl, kl. 16 á sjálfan afmælisdaginn. Með kórnum á þeim tónleikum verða Fóstbræður úr Reykjavík. Aðrir tónleikar verða í Selfosskirkju mánudaginn 3. apríl kl. 20 þar sem Karlakór Selfoss kemur til liðs við kórinn. Karlakórinn Þrestir syngur svo með kórnum í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði miðvikudaginn 5. apríl kl. 20.

Efnisskrá tónleikanna samanstendur af úrvali laga og verka sem kórinn hefur flutt gegnum tíðina og ekki verður brugðið út frá þeirri hefð að kórinn syngi líka lög eftir Hreppatónskáldið Sigurð Ágústsson. Einsöngvari á öllum tónleikunum verður Guðmundur Karl Eiríksson barítón.