[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undirbúningur útvarpsfrétta á K100, útvarpsstöð sem Árvakur festi kaup á í lok síðasta árs, stendur nú yfir. Áformað er að fréttaútsendingar hefjist á næstu vikum.

Undirbúningur útvarpsfrétta á K100, útvarpsstöð sem Árvakur festi kaup á í lok síðasta árs, stendur nú yfir. Áformað er að fréttaútsendingar hefjist á næstu vikum. Verið er að leggja lokahönd á aðstöðu fyrir útvarpið í húsnæði Árvakurs í Hádegismóum og sent hefur verið út þaðan um nokkurt skeið. Ætlunin er að sækja hratt fram á komandi misserum með aukinni þjónustu við hlustendur og verða fréttir í útvarpi veigamikill þáttur í þeirri viðbótarþjónustu.

Auðun Georg Ólafsson hefur verið ráðinn í starf fréttastjóra útvarps hjá Árvakri. Hann lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og meistaragráðu í sama fagi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2000. Hann starfaði á árum áður meðal annars sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á Stöð2 og Bylgjunni en frá árinu 2013 hefur Auðun ritstýrt Kópavogsblaðinu.

Snarpar, líflegar og fræðandi fréttir

„Ég hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni og starfa með því mikla hæfileikafólki sem fyrir er á ritstjórn Morgunblaðsins og mbl.is,“ segir Auðun. „Með það trausta bakland sem við eigum í fréttaöflun öflugra fréttamanna mbl.is og Morgunblaðsins eru okkur allir vegir færir. Við ætlum að vera með snarpar, líflegar og fræðandi fréttir á K100 sem koma öllum við.“