Undirbúningur útvarpsfrétta á K100, útvarpsstöð sem Árvakur festi kaup á í lok síðasta árs, stendur nú yfir. Áformað er að fréttaútsendingar hefjist á næstu vikum. Verið er að leggja lokahönd á aðstöðu fyrir útvarpið í húsnæði Árvakurs í Hádegismóum og sent hefur verið út þaðan um nokkurt skeið. Ætlunin er að sækja hratt fram á komandi misserum með aukinni þjónustu við hlustendur og verða fréttir í útvarpi veigamikill þáttur í þeirri viðbótarþjónustu.
Auðun Georg Ólafsson hefur verið ráðinn í starf fréttastjóra útvarps hjá Árvakri. Hann lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og meistaragráðu í sama fagi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2000. Hann starfaði á árum áður meðal annars sem frétta- og dagskrárgerðarmaður á Stöð2 og Bylgjunni en frá árinu 2013 hefur Auðun ritstýrt Kópavogsblaðinu.