Niðurstaða er komin í langvarandi deilur kirkjumálasjóðs sem eiganda kirkjujarðarinnar Staðastaðar á Snæfellsnesi og eiganda jarðarinnar Traða um veiðirétt í Staðará. Hæstiréttur dæmdi að Traðir ættu veiðirétt í ánni og sneri við dómi héraðsdóms frá því á síðasta ári sem dæmdi Staðastað allan veiðirétt.
Traðir eru gömul hjáleiga frá Staðastað en var seld til ábúanda á árinu 1999. Fyrir nærri 80 árum var Tröðum og Traðabúð skipt út úr Staðastað og sameinaðar. Í hlut Traða kom afmarkað ræktar- og engjaland en beitiland í óskiptri sameign með Staðastað. Óskipta landið náði að Staðará. Ákvæði voru um að veiði í Staðará og reki fyrir landi jarðanna skyldi áfram fylgja Staðastað eins og verið hefði.
Hæstiréttur telur að það fyrirkomulag um veiðiréttinn sem kveðið var á um í landskiptagerðinni hafi ekki verið í samræmi við ákvæði lax- og silungsveiðilaga um jafnan veiðirétt þeirra sem land ættu í óskiptri sameign.
Taldi Hæstiréttur að í byggingabréfi frá árinu 1947 til þáverandi ábúanda Traða, þar sem kveðið var á um að Tröðum fylgdi „veiðiréttur í Staðará að sínum hluta samkvæmt því sem lög ákveða“ hefði skipan veiðiréttar fyrir sameiginlegu landi jarðanna verið fært í lögmætt horf.