Sverrir Sigmundsson, fv. innkaupastjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, fæddist 9. janúar 1929 að Hraunsnefi, Borgarbyggð, Mýrarsýslu. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 22. mars 2017.

Foreldrar hans voru Sesselja Samúelsdóttir húsmóðir frá Gröf í Miðdölum, f. 1893, d. 1957, og Sigmundur Ingvar Björnsson verkamaður frá Óskapsstaðaseli, V-Húnavatnssýslu, f. 1901, d. 1971.

Systir Sverris var Bjarnheiður Sigmundsdóttir, f. 1930, d. 2016.

Sverrir kvæntist Önnu Margrjeti Thoroddsen, f. 1935, fv. ritara og skjalaverði hjá Hafnarfjarðarbæ, árið 1958 og eignuðust þau þrjú börn. Þau eru 1) Valgarður I. Sverrisson rekstrarhagfræðingur, skrifstofustjóri hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, f. 1959, kvæntur Sigrúnu Hólmfríði Óskarsdóttur kennara, f. 1961. Barn Valgarðs er María Kanak, f. 1999. 2) María Sverrisdóttir svæfingalæknir, f. 1962, gift Kristni Þorsteinssyni, skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ, f. 1962. Börn þeirra eru a) Þorsteinn, f. 1988 og b) Sverrir, f. 1998. 3) Ingvar Sverrisson, f. 1965, lögfræðingur hjá EFTA, Brussel, kvæntur Sigríði Eysteinsdóttur, lögfræðingi í sendiráði Íslands, Brussel, f. 1977. Barn þeirra er Anna Sigrún, f. 2014.

Sverrir ólst upp í Hafnarfirði og gekk í Lækjarskóla og seinna fór hann í Iðnskóla Hafnarfjarðar. Árið 1947 hóf hann nám í rafmagnstæknifræði í Stockholms Tekniska Institut og lauk þar námi. Árið 1951 fór hann til Buffalo University í Bandaríkjunum til frekari náms og var þar í eitt ár á Fulbright-styrk.

Að námi loknu hóf hann störf hjá Rafha í Hafnarfirði og vann þar til ársins 1960 þegar hann tók til starfa hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og vann þar til ársins 2000.

Útför Sverris fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, í dag, 31. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Föstudaginn 31. mars kveð ég föður minn, Sverri Sigmundsson, í hinsta sinn. Hann var ætíð mín stoð og stytta og verður hans sárt saknað.

Pabbi var ljúfur og rólegur að eðlisfari og sóttist ekki eftir að vera miðpunktur athyglinnar. Hann var mikil barnagæla og hafði mikla þolinmæði til að tala og leika við börn. Þó að pabbi væri rólegur lét hann ekki fara neitt með sig ef hann vildi það ekki. Þegar ég varð eldri og reyndi að ráðskast með hann komst ég alltaf betur og betur að því að hann var þrjóskari og staðfastari en flestir sem ég þekki.

Þegar ég hugsa til baka kemur efst í hugann hvað pabbi reyndist mér vel. Ég átti alltaf bakland hjá honum og mömmu ef á þurfti að halda. Hann tók sér frí í vinnunni þegar Stenni var veikur svo ég og Kiddi kæmumst í vinnu. Þegar Kiddi fluttist til Íslands frá Hollandi, einu ári áður en ég var búin með sérnámið og við sáum fram á að þurfa au pair, stakk pabbi strax upp á því að hann og mamma gætu leyst það vandamál. „Ég get að vísu ekki eldað og ekki heldur tekið til, en ég get passað,“ sagði hann. Úr varð að þau komu til skiptist þetta ár og sáu um Stenna þegar ég var í vinnunni. Þegar Sverrir yngri kom í heiminn var pabbi yfir sig glaður að fá nafna, enda vísaði hann ávallt til Sverris sem nafna síns.

Eftir að við fluttum til Íslands var hann óþreytandi í því að sækja og skutla drengjunum á milli staða.

Elsku pabbi, nú er komið að leiðarlokum, 88 ára lífshlaupi er lokið. Þú mátt vera stoltur af því lífi. Þú eignaðist fjölskyldu sem þú sást vel fyrir og studdir hana með ráðum og dáð fram í andlátið.

Heiðarlegur, heill og sannur í gegn. Kveðja,

María.

Elsku Sverrir, það er sárt að kveðja þig, en þú skilur eftir margar fallegar og skemmtilegar minningar sem munu lifa um ókomna tíð.

Mér er efst í huga þakklæti fyrir alla þá væntumþykju og einstaka umhyggju sem þú hefur sýnt mér frá því að ég kom inn í fjölskylduna fyrir 12 árum. Ég met það mikils. Þú varst mjög stoltur af okkur Stenna og sýndir námi okkar og ferðalögum alltaf mikinn áhuga.

Ég er einnig mjög þakklát fyrir allar þær góðu samverustundir sem við áttum saman. Þar má nefna ófá matarboðin á heimili ykkar Önnu. Þér þótti einnig gaman að bjóða fjölskyldunni út að borða á hlaðborð, þá naustu þín vel.

Það var einstaklega gaman þegar þú, Anna og María komuð í heimsókn til okkar Stenna til Lundar.

Það skipti þig miklu máli að fá að sjá hvernig við hefðum það hér í Svíþjóð. Við sýndum ykkur bæinn og áttum góðan tíma saman. Þú hefur ósjaldan talað um matinn sem við elduðum handa ykkur og minntist þess oft hversu góðan mat ég eldaði. Það fannst mér alltaf gaman að heyra.

Elsku Anna, megi minningin um einstakan mann veita þér styrk.

Ég mun sakna þín, Sverrir.

Þín,

Tinna.

Það var á haustmánuðum 1981 sem ég hitti Sverri Sigmundsson, verðandi tengdaföður minn, í fyrsta sinn. Við María vorum að draga okkur saman og ég er ekkert viss um að hann hafi verið sérlega ánægður með þróun mála. Sverrir sagði þó ekki mikið frekar en við önnur tækifæri. Hann var ekki mikið fyrir að flíka tilfinningum sínum eða flytja miklar ræður, Sverrir lét verkin tala. Síðan eru liðin rúm 35 ár og á þeim tíma hef ég kynnst Sverri vel og þakka ég fyrir að hafa átt með honum samleið þetta lengi.

Allan okkar búskap hefur Sverrir reynst okkur vel. Þegar við fluttust til Hollands kom hann í heimsókn nokkrum sinnum á ári og veitti okkur ómetanlegan stuðning. Hann taldi ekki eftir sér að koma með litlum fyrirvara og ærnum tilkostnaði ef á þurfti að halda.

Synir okkar Maríu hafa notið þeirra forréttinda að hafa verið ríkir af öfum og ömmum sem hafa reynst þeim vel. Þar lék Sverrir stórt hlutverk. Þolinmæði hans með börnum var takmarkalítil. Til er fjöldi ljósmynda þar hann er að smíða eða brasa eitthvað barnabörnunum. Þó að orkan hafi farið þverrandi með árunum hafði Sverrir alltaf áhuga á afkomendum sínum og gengi þeirra skipti hann miklu máli.

Sverrir er alinn upp í kreppunni á íslensku alþýðuheimili. Hann ræddi ekki mikið um þá tíma og var maður sem horfði frekar fram veginn en að dveljast við liðna tíð. Í dag sakna ég þess að hafa ekki fengið hann til að segja mér meira frá því hvernig lífið var í kreppunni í Hafnarfirði.

Sverrir var ekki maður margra áhugamála en setti fjölskylduna og framgang hennar alltaf í forgang. Ég er efins um að hann hafi nokkurn tíma sett sína hagsmuni ofar annarra í fjölskyldunni.

Fyrir suma er íhaldssemi dyggð og það átti við um Sverri. Þegar við bjuggum í Hollandi fór hann stundum á gírahjólinu mínu.

Hann skipti aldrei um gír og taldi víst að gírinn sem hann var í væri hið minnsta jafngóður og sá sem hann gæti skipt í. Sverrir keyrði alltaf beinskipta bifreið og allar tilraunir til að sannfæra um skynsemi þess að fá sér sjálfskiptan féllu í grýttan jarðveg. Sverrir keyrði beinskipta bifreið fram í andlátið.

Hjónaband Sverris og Önnu Margrjetar Thoroddsen var langt og gæfuríkt. Missir Önnu er mikill en hún býr að fjársjóði minninga um góðan mann og gifturík börn sem hafa byggt gott líf á því veganesti sem með Anna og Sverrir veittu þeim.

Kristinn Þorsteinsson.