Frambjóðandi Guillaume Bijl í Mengi með kynningarspjald frambjóðandans Stefáns Jónssonar. Hann segist sýna fornleifar samtímans, í núinu.
Frambjóðandi Guillaume Bijl í Mengi með kynningarspjald frambjóðandans Stefáns Jónssonar. Hann segist sýna fornleifar samtímans, í núinu. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Hollenski listamaðurinn Guillaume Bijl hefur sett upp athyglisverða innsetningu í menningarhúsinu Mengi við Óðinsgötu og býður gestum að upplifa hana í dag, föstudag, kl. 12 til 21 og á morgun kl. 12 til 19.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Hollenski listamaðurinn Guillaume Bijl hefur sett upp athyglisverða innsetningu í menningarhúsinu Mengi við Óðinsgötu og býður gestum að upplifa hana í dag, föstudag, kl. 12 til 21 og á morgun kl. 12 til 19. Verður hún einungis til skoðunar þessa tvo daga.

Innsetningar Bijl, sem stendur nú á sjötugu, eru hlaðnar íróníu og birta ætíð óvænta snúninga listamannsins á tilveruna. Viðfangsefni hans er iðulega menningarferðamennska, afþreyingariðnaður og aðrar samfélagslegar uppákomur sem hann sviðsetur á raunverulegan hátt. Bijl skapar blekkingarheim sýnilegrar reglu og skipulags til að sýna áhorfendum fram á spaugilegar og gjarnan innihaldslitlar hliðar nútímalífs.

Þegar blaðamaður gekk inn í Mengi í gær var Bijl ásamt aðstoðarfólki að setja upp kosningaskrifstofu manns að nafni Stefán Jónsson – „Nýr frambjóðandi – Ný von“ stendur á veggspjöldum með ábúðarmiklum frambjóðandanum sem er þar í bunka og innar í salnum er komið ræðupúlt fyrir framan nokkrar raðir stóla og von er á fánum sem verða fyrir aftan púltið.

„Ég hef sett upp tímabundnar kosningaskrifstofur í nokkrum löndum,“ segir Bijl. Þegar hann er spurður hvers vegna hann setji upp kosningaskrifstofu segist hann í verkum sínum reyna að skapa spegil fyrir samtíma okkar. „Ég geri allrahanda innsetningar, til að mynda hef ég sett upp kjarnorkubyrgi, ferðaskrifstofu... Ég sýni samtíma minn og sumir segja á grátbroslegan hátt. Ég sýni fornleifar samtímans, í núinu...“

Raunveruleiki eða fáranleiki?

Bijl segir að með því að setja raunverulegar aðstæður upp í listrýmum sýni það til að mynda fram á ákveðinn fáranleika í því sem við köllum siðmenningu. „Hér birtist okkur stjórnmálamaður en í Kaupmannahöfn setti ég í fyrra upp fegurðarsamkeppnina Ungfrú Kaupmannahöfn.

Ég leik mér með ólík þemu og eitt undirliggjandi er umfjöllun um birtingarmyndir neysluhyggjunnar í þessum kapítalíska heimi okkar.“

Þegar spurt er hvort hann leitist við að skapa eins konar framandgervingu með sviðsetningunum svarar Bijl játandi. „Og ég skálda upp aðstæðurnar eins og hér, þar sem nýr stjórnmálaflokkur hefur leigt aðstöðuna og nýr frambjóðandi stígur fram, með nýjan vonir og hugmyndir. Hann getur verið hægri- eða vinstrisinnaður.“

Er þetta verk ekki ádeila á popúlistahreyfingarnar sem hafa verið að styrkjast víða um lönd?

„Auðvitað má segja það. Verkið vísar til þeirra. Kannski má segja að ég leitist við að sýna fram á hvað þetta er allt ómerkilegt. Einhverjir kunna að trúa þessu en aðrir líta á þetta sem brandara...“

Bijl var á sínum tíma kennari Þorvaldar heitins Þorsteinssonar, myndlistarmanns og rithöfundar, í Maastricht í Hollandi.

„Já, og svo sýndum við saman og störfuðum saman, sem var afar ánægjulegt allt saman. Nú er ég svo kominn í fyrsta skipti til Íslands, að frumkvæði Helenu Jónsdóttur, konu Þorvaldar, og það er líka afar ánægjulegt – þetta var örugglega rétti tíminn til að koma hingað.“