Gunnlaugur Einar Kristjánsson fæddist 8. maí 1930. Hann lést 20. mars 2017.

Útför Gunnlaugs fór fram 31. mars 2017.

Með þessum orðum langar mig að minnast vinar míns Gunnlaugs Kristjánssonar, sem nú er fallinn frá. Gunnlaugur flutti með foreldrum sínum og systkinum til Stykkishólms árið 1936. Þá var hann sex ára og við jafnaldrar. Í Hólminum var þá urmull af börnum og allir léku sér við alla og hvergi í veröldinni var betra og skemmtilegra að slíta barnsskónum en einmitt í Hólminum; og svo er enn. Og einhvern veginn æxlaðist það þannig að við Laugi urðum æskuvinir og leikfélagar, og það voru engin takmörk á þeim uppátækjum sem við skemmtum okkur við. Þó er mér sérstaklega minnisstætt eitt af uppátækjum okkar, en þá höfðum við um tíma hlustað á klerkinn fóstra minn lesa fyrir okkur upp úr Íslendingasögunum. Þá ákváðum við að sverjast í fóstbræðralag líkt og fornmenn, fórum út á Ytrihöfða, settumst þar undir kletti fremst á Höfðanum og blönduðum blóði með því að stinga títuprjóni í handlegg hvers annars. Það voru engin takmörk fyrir því sem okkur datt í hug. En hvað sem því líður urðum við lífstíðarvinir, og eftir að við urðum eldri höfum við oft haft gaman af því að rifja upp eitt og annað skemmtilegt frá bernskuárunum.

Foreldrar Gunnlaugs, þau Jóhanna og Kristján í Skógarnesi, voru mikið öndvegis fólk og heima hjá þeim fengum við að leika okkur líkt og heima hjá mér. Þá vil ég einnig minnast systkina Gunnlaugs og síðast en ekki síst Maríu, sem ung giftist Lauga og hefur staðið með honum sem klettur í erfiðum veikindum. Henni og börnum þeirra og Herði votta ég innilega samúð mína.

Og að lokum, gamli vinur, þakka þér fyrir vináttuna.

Bragi Straumfjörð Jósepsson.