Halla Daníelsdóttir fæddist á Akureyri 28. nóvember 1938. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru þau Sigríður Guðmundsdóttir frá Dæli í Fnjóskadal og Daníel Kristinsson frá Kerhóli í Sölvadal. Systkini hennar voru Sveinn Magni Daníelsson, látinn, kvæntur Fanneyju Dóru Kristmannsdóttur, og Auður Daníelsdóttir, gift Jakobi Ágústi Hjálmarssyni.

Halla giftist 23. febrúar 1961 Jóni Ásbjörnssyni forstjóra, f. í Reykjavík 30. nóvember 1938, d. 2. október 2012. Foreldrar hans voru Ásbjörn Jóhannes Jónsson, ættaður frá Múlanesi á Barðaströnd, og Kristrún Valgerður Jónsdóttir, ættuð frá Þóroddsstöðum í Ölfusi. Systir Jóns er Fríða Valgerður Ásbjörnsdóttir, gift Steingrími Baldurssyni.

Börn Höllu og Jóns eru Ásbjörn og Ásdís.

Ásbjörn er kvæntur Hildigunni Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn, Jón Gunnar, sem á dótturina Unni Sigríði, Ásbjörn Daníel og Arndísi. Ásdís er gift Árna Rudolfi Rudolfssyni og eiga þau tvö börn, Rudolf Jón, kvæntur Rakel Flygenring, og eiga þau dótturina Móheiði; og Höllu Mörtu. Leiðir Höllu og Jóns skildu 1995 en lágu aftur saman þegar hann flutti til hennar sumarið áður en hann lést.

Árið 1983 stofnaði fjölskylda Höllu og Jóns Fiskkaup hf., til vinnslu á ferskum fiski og síðar saltfiski. Fékk það svo fyrst allra leyfi til útflutnings á saltfiski 1990. Halla starfaði lengst af nokkuð hjá fyrirtækinu en einnig og fyrr í eldhúsi Fossvogsspítala og við verslunarstörf. Aðalstarf hennar var þó alla tíð húsmóðurstarfið.

Útför Höllu fer fram frá Neskirkju í dag, 7. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Maríuerlan hún Halla tengdamamma mín er flogin.

Ég man hvað fuglarnir sungu fallega á laugardagsmorguninn, Halla var að kveðja.

Alltaf jafn tillitssöm og umhugað um að allir hefðu nóg af öllu og tilbúin að aðstoða og hjálpa til ef eitthvað bjátaði á hjá einhverjum.

Það verður erfitt að ímynda sér hátíðir, afmæli og stórveislur án Höllu, sem alltaf kom að skipulagi og undirbúningi slíkra veislna.

Þær eru óteljandi samverustundirnar sem rifjast upp, hvort sem þær voru í sumarbústaðnum á Þingvöllum, Skorradal, skíðaferðir í Ölpunum eða á Spáni.

Takk fyrir samfylgdina.

Þinn tengdasonur,

Árni Rudolf.

Í minningunni er Halla tengdamóðir mín hávaxin kona, með falleg brún augu, alltaf glæsileg til fara og kunni vel að meta góðan húmor. Hún var vel lesin, góð í tungumálum og fannst gaman að ferðast. Sumarhúsið og sólin á Spáni voru í uppáhaldi.

Halla var líka ofuramma, vakin og sofin yfir velferð barnabarnanna. Síprjónandi, saumandi og lítandi eftir því hvort allir hefðu ekki nóg að bíta og brenna. Alltaf gátu börnin okkar Adda komið við hjá henni á Hrólfsskálamelnum og fengið gott að borða hvort sem hlé var í skóla eða vinnu. Þvílíkur snilldarkokkur sem hún var og matgæðingur og langt á undan sinni samtíð í þeim efnum. Hún hefði sómt sér vel á Michelin-stað með margar stjörnur, en kaus frekar að láta fjölskyldu og vini njóta þessara hæfileika sinna, enda hlédræg að eðlisfari. Í matarboðum og veislum var hún ávallt fremst í flokki með að aðstoða og reiða fram hina girnilegustu rétti, frægt er fiskipatéið og Pavlovan. Heimabakstur keyrði Halla út um allan bæ og hengdi á útidyrahurðarhúna hjá börnum og barnabörnum ef enginn var heima. Stundum gat hún laumað sér inn hjá okkur Adda og þá stóðu kræsingarnar á eldhúsborðinu, skonsur, pítsusnúðar, möffins eða einhverjar nýjar afurðir sem Halla hafði fundið uppskrift að og verið að spreyta sig á útfærslunni.

Fyrst og fremst bar tengdamóðir mín stöðuga umhyggju fyrir fjölskyldunni og vinum og lifði fyrir að láta gott af sér leiða. Ég er þakklát Höllu tengdamömmu fyrir samfylgdina í næstum fjörutíu ár og hve mikla umhyggju hún bar fyrir börnunum okkar Adda og reyndist þeim alltaf vel.

Blessuð sé minning Höllu Daníelsdóttur tengdamömmu.

Þín tengdadóttir,

Hildigunnur.

Elsku nafna mín.

Það er sárt að þurfa að kveðja þig. Ég man alltaf eftir því hversu glæsileg og falleg kona mér fannst þú vera þegar ég sá þig fyrst. Hávaxin, bein í baki og með þessa fallegu brúnu húð. Mamma hafði einnig orð á því þegar hún sá þig í útskriftarveislunni hans Nonna, en þá var ég nú jafnframt búin að átta mig á því að þú værir ekki bara falleg að utan.

Ég hefði viljað að samverustundir ykkar langömmustelpnanna þinna hefðu getað orðið fleiri, en ég er þó svo þakklát fyrir þær dýrmætu stundir sem þið náðuð að eiga. Við mæðgur munum í staðinn ylja okkur yfir góðum minningum um langömmu Höllu. Einstaka konu sem alltaf var að baka og elda fyrir okkur Nonna, prjóna á okkur sokkapör og bjóðast til að strauja skyrtur. Góssið af bakkelsi og mat sem beðið hefur okkar á hurðarhúninum í gegnum tíðina frá langömmu Höllu er endalaust. Spaghetti bolognese, kjöthleifur, kartöflur, brún sósa og salat, brokkolísúpa og rjómalagað karrýpasta, nýbakaðar skonsur, vöfflur, pítsasnúðar og skinkuhorn. Súkkulaði- og marmarakökur, muffins og spesíur með kattartungum um jólin, svo ég tali nú ekki um pavlovuna. Við göntuðumst oft með það að þú hlytir einn daginn að ætla að borða okkur, svo umhugað væri þér um að fita okkur.

Um daginn fann ég svo miða sem eitt sinn hafði beðið okkar á hurðarhúninum þegar við bjuggum í kjallaranum á Hagamelnum. Hann ætla ég að geyma vel því hann fékk mig til að brosa og er svo lýsandi fyrir þig. Á miðanum stóð:

„Hæ þið sellar-people. Viljiði setja hinn sokkinn út fyrir dyrnar svo ég geti sett leður undir hann. Þegar ég var stelpa þá hétu borðtuskur bekkjar-rýjur svo ég bjó til rýju handa ykkur.

Amma Halla D.“

Elsku Halla. Ég þakka góðar stundir, öll matarboðin og sumarbústaðaferðirnar og allt sem þú gerðir fyrir okkur, kærleikann og umhyggjuna. Það er dýrmætt veganesti í kröfuhörðum heimi. Litla langömmustelpan þín, sem í þessum skrifuðu orðum er svifin inn í draumheimana með hlýju dúnsængina frá þér, sendir knús til þín. Við mæðgur munum sakna þín. Við sjáumst síðar hinum megin. Þín vinkona,

Guðrún Halla Daníelsdóttir.

Elsku amma mín.

Þær stundir sem við áttum saman á Aflagrandanum, Skorradal, Þingvöllum, Spáni og sérstaklega á Hrólfsskálamelnum verða mér dýrmætar til æviloka. Þú hefur verið mér afar mikilvæg í gegnum árin og verð ég ávallt þakklátur fyrir það stóra hlutverk sem þú spilaðir í lífi mínu.

Það var alltaf gott að tala við þig og bera undir þig hinar og þessar spurningar. Því spurningum svaraðir þú ávallt heiðarlega og varst ekki hrædd við að láta þitt í ljós ásamt því að álit þitt skipti mig líka miklu máli. Skýrt dæmi um það er þegar ég var að huga að íbúðarkaupum fyrir nokkrum vikum. Þá varstu komin inn á spítala og ég og pabbi komum við hjá þér á leiðinni til baka úr Kópavogi, þar sem við vorum að skoða íbúð sem okkur leist vel á. Ég sagði þér frá íbúðinni en þú varst sko aldeilis ekki hrifin af staðsetningunni. Þú skildir ekki af hverju ég væri að flytja í Kópavog þegar öll fjölskyldan mín er á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum, þessu var ég hjartanlega sammála. Tveimur dögum síðar var ég búinn að kaupa íbúð á Seltjarnarnesi, í fimm mínútna göngufjarlægð frá íbúðinni þinni.

Ég held mjög mikið upp á öll skiptin sem þú bauðst mér í hádegismat eftir að ég byrjaði að vinna í Fiskkaupum. Ég mætti alltaf til þín á slaginu 12, lagði mig svo eftir matinn og var alltaf of seinn til baka í vinnuna. Þú varst engum lík í eldhúsinu en þó var einn réttur í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Óaðfinnanlegur matur var samt alls ekki aðalástæðan fyrir því að maður leitaði svona mikið til þín því þægilega og yfirvegaða nærvera þín veitti mér mikla ró, þótt maður þyrfti nú stundum að snúast aðeins fyrir þig. Svo varstu líka hjartahlý og hafðir mikinn húmor fyrir sjálfri þér sem kom mér oft til að brosa.

Þú hugsaðir mjög vel um barnabörnin þín og máttu þau aldrei vera svöng né kalt á tánum. Ég held að þú hafir prjónað sokka á alla sem þú þekktir. Ég á a.m.k. þrjú pör og nota þá svo mikið að þú áttir fullt í fangi með að gera alltaf við sokkana, en það kom ekki að sök því ég átti alltaf sokka frá þér til skiptanna þegar aðrir voru í viðgerð.

Amma mín. Þessi texti gæti verið miklu, miklu lengri en minningunum er best varið á milli okkar. Ég mun sakna þín alveg rosalega mikið en um leið er ég þakklátur fyrir allar þær frábæru minningar sem ég hef af þér. Guð geymi þig.

Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson.

Elsku amma, nafna og vinkona, nú ertu farin. Þú varst mér afar kær og sakna ég þess að geta hringt og fengið að vita hvað þú hafir verið að bralla. Mér finnst rosalega gaman og ég er stolt af að fá að bera nafnið þitt og hef ég alltaf metið það mikils.

Amma var alltaf til staðar og ég vissi ekkert betra en að hringja í ömmu og fá hana til að bralla eitthvað með mér. Amma kenndi mér að prjóna og hvatti mig áfram í að skapa frá unga aldri í gegnum handavinnu, bakstur og föndur. Hún var alltaf til staðar þegar ég þurfti hjálp við verkefni og alltaf með lausnina. Eitt minnisstætt verkefni okkar ömmu er teppið sem við hekluðum saman fyrir tveimur árum og ég held mikið upp á. Þó að við kæmum miklu í verk var alltaf stutt í gleðina og hláturinn. Þegar ég var á grunnskólaaldri vorum við saman næstum á hverjum degi, ég fór úr skólanum til ömmu sem var heima með nýbakaðar bollur, við sveifluðumst um bæinn og hún hjálpaði mér með lærdóminn, þetta voru uppáhaldsdagarnir. Amma var mjög fyndin og bulluðum við oft mikið saman við eldhúsborðið er við biðum eftir nýbökuðum hornum úr ofninum og oftar en ekki að spila líka. Við nöfnurnar komum okkur upp afar skemmtilegu nafnakerfi í einum af þessum skemmtilegu eldhússamræðum, eða Halla E. fyrir eldri og Halla Y. yngri. Samband okkar ömmu hefur alltaf verið mjög náið og þróast mikið í gegnum árin frá því ég var lítil og hún að hugsa um mig, keyra mig um, hjálpa mér að baka yfir í að ég keyri hana um, hjálpa henni að baka og hugsa um hana. Það hefur reynst mér mjög erfitt að búa í útlöndum síðustu ár og á hverjum einasta degi hef ég spurt mömmu um þig og þú hefur alltaf spurt um mig. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að fara til þín og eyða sem mestum tíma með þér. Amma var sterkasta, fórnfúsasta og gáfaðasta kona sem ég þekki, hefur alltaf verið og mun alltaf vera ein af mínum stærstu fyrirmyndum í lífinu og er ég afar stolt af að vera barnabarn þitt. Elsku amma, ég á eftir að sakna þín.

Halla Marta Árnadóttir.

Ég kveð heimsins bestu ömmu með miklum söknuði. Ég á henni elsku ömmu minni svo margt að þakka umfram tilvist mína og besta föður sem hægt er að ímynda sér. Fáar manneskjur hafa haft jafnmikil áhrif á mitt líf. Mér er minnisstætt hvað amma var vel að máli farin. Af því leiddi óhjákvæmileg að hún var dugleg að amast við málfari okkar barnabarnanna. „Maður segir ég vil“ og „ég hlakka til“ fékk ósjaldan að hljóma. Ég veit ekki hversu vel þetta féll í kramið á þeim tíma, en ég held að við þökkum öll fyrir þetta í dag.

Að við barnabörnin séum ekki langt yfir kjörþyngd er þó ekki ömmu að þakka. Amma eldaði nefnilega mat á heimsmælikvarða og það í miklum mæli. Vorum við barnabörnin gjarnan þau sem fengu að njóta afrakstursins. Allt sem hún gerði var gert af einskærri ást og væntumþykju. Hún setti fjölskylduna og ekki síst okkur barnabörnin alltaf í allra fyrsta sæti.

Ein af mínum uppáhaldsminningum, ekki bara af ömmu, heldur í lífi mínu öllu, er af mér, ömmu og Rudolf í sumarhúsinu hennar ömmu á Spáni þegar við frændurnir vorum u.þ.b. 10 ára. Ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel. Ég er nokkuð viss um að Rudolf sé mér sammála, þrátt fyrir hafa fengið myndarlegan sólbruna. Ég mun aldrei gleyma minningunni um ömmu að maka nokkrum ísköldum jógúrtdollum á bakið á mínum elskulega frænda. Eitt af fjölmörgu sem hún amma mín kenndi mér.

Kærleikur og umhyggjusemi einkenndi ömmu. Fráfall ömmu skilur eftir sig gríðarlega mikið tóm. Þetta tóm er bein afleiðing þeirra áhrifa sem amma hafði á fólkið í kringum sig og ber skýran vott um að hún hefur sannarlega komið auga á það sem máli skiptir í lífinu.

Um leið og ég er þakklátur fyrir að Unnur Sigríður hafi fengið að hitta langömmu sína er ég sorgmæddur yfir því að stundir þeirra saman verði ekki fleiri. Ég mun í staðinn sjá til þess að minning ömmu lifi, ekki síst með því að gera mitt allra besta til að Unnur Sigríður verði gædd sömu kostum og langamma hennar.

Elsku amma, það er komið að kveðjustund. Þú trúir því ekki hvað ég á eftir að sakna þín mikið. Ég elska þig.

Jón Gunnar Ásbjörnsson (Nonni).

Elsku amma mín.

Það var alltaf svo skemmtilegt hjá okkur. Það sem við gátum hlegið þegar við fífluðumst með Hafnarfjarðarferjuna og frægu ferðina okkar í Fjarðarkaup. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki komið til þín í kjötsúpu í hádeginu og allra matarsendinganna sem þú varst svo dugleg að senda okkur öllum. Ég á svo skemmtilegar myndir af þér og Móheiði sem ég hlakka til að sýna henni og segja sögur af því hversu glæsileg, skemmtileg og góð kona þú varst. Þín verður sárt saknað, elsku amma.

Rudolf Jón Árnason.

Fallin er frá vinkona okkar, Halla Daníelsdóttir, eftir langvarandi og erfið veikindi. Halla fæddist á Akureyri og ólst þar upp með foreldrum sínum og tveimur systkinum. Hún minntist oft með gleði æskuáranna í hópi frændfólks og vina. Ung fluttist hún suður og fór í húsmæðraskóla að þeirrar tíðar hætti. Þar tókst vinskapur með þeim skólasystrum sem entist æ síðan. Þær stofnuðu saumaklúbb sem var annarrar gerðar en margir aðrir með sama heiti, þar var nefnilega saumað af kappi. Halla giftist Jóni Ásbjörnssyni og bjuggu þau síðan í Reykjavík og lengi á Seltjarnarnesi. Þau eignuðust tvö börn og tengdabörn, fimm barnabörn og nú síðast Halla tvær langömmustelpur. Halla var stolt af sínu fólki og mátti hún vera það.

Kynni okkar hófust fyrir rúmlega 30 árum. Við fórum oft í hópi góðra vina í sumarbústaði, spiluðum brids og slógum upp stórveislum, í matargerð var Halla fremst meðal jafningja. Við fórum árum saman í skíðaferðir til Austurríkis en oftast til smábæjar Frakklandsmegin í Pýreneafjöllum. Við héldum okkur gjarnan í aflíðandi brekkum meðan meiri kappar í hópnum lögðu á brattann. Margar ferðir fórum við í hús Höllu á Spáni, einnig til fleiri landa, m.a. í tvær dásamlegar Frakklandsferðir. En eftir allar þessar skemmtilegu ferðir og fínu veislur var ánægjulegt að sitja í eldhúsinu á fallegu heimili hennar Höllu með kaffibolla og heimabakað. Við glímdum saman við krossgátu Moggans í mörg ár og höfðum gaman af því að fetta og bretta hugsunina. Halla var listamaður í höndunum. Þegar unglingur okkur tengdur fermdist fyrir allmörgum árum horfði yngri systir yfir góssið þar sem glóði á skart og glampaði á tölvu í peningahrúgunni, benti og sagði: Mig langar í svona sokka. Voru það listilega útprjónaðir ullarsokkar frá Höllu.

Skilnaður þeirra Jóns á sínum tíma var Höllu þungbær en lífið hélt áfram og hennar góða fjölskylda og vinir stóðu þétt að baki hennar. Síðustu árin voru Höllu erfið. Heilsan var brostin og þrekið þvarr. Börnin hennar, tengdabörn og barnabörn sinntu henni af mikilli umhyggju. Þegar sorg og söknuður sækir að er gott að eiga sjóð minninga. Kæra fjölskylda, við samhryggjumst ykkur innilega. Geymd er góð minning.

Valgerður Kristjónsdóttir,

Björn Theodórsson.

Mig langar til að skrifa nokkur kveðjuorð til hennar Höllu sem ég var búin að þekkja síðan við vorum um tvítugt og hún kom nýtrúlofuð Jóni, frænda mínum, á heimili foreldra Jóns á Nýlendugötu 29, þar sem ég var heimagangur.

Okkur kom strax vel saman og töpuðum við aldrei okkar góða sambandi þó að leiðir þeirra Jóns skildi og áttum við Garðar alltaf gott samband við Höllu. Hún fór með okkur vestur að Deildará nokkrar ferðir eins og þau Jón höfðu gert áður, öll nutum við okkar vel í kyrrð afskekktrar byggðar þótt við værum orðin þrjú og lentum við í ýmsum ævintýrum. En eftirminnilegast var þegar Garðar minn vildi bera berjafötuna hennar Höllu yfir Lurká, sem var þá óvenjuvatnsmikil og hann hrasaði og fór á bólakaf í ána, fyrst brá okkur mikið en allt breyttist í hlátur þegar sást að allt væri í lagi.

Jón og Halla byrjuðu að búa á Nýlendugötunni á hæðinni fyrir ofan foreldra Jóns og eignuðust fljótlega tvö myndarleg börn, sem glöddu ömmu og afa. Mér fannst ég alltaf koma heim er ég kom til frændfólksins á Nýlendugötu sem alltaf var svo gott samband við.

Því miður var Halla vinkona mín ekki heilsuhraust síðustu árin en hún lét samt ekkert buga sig og var ótrúlega dugleg að reyna að halda heilsunni. Við hjónin viljum þakka Höllu fyrir allt góða sambandið sem við höfðum á lífsleiðinni og aldrei bar skugga á. Fyrir rúmu ári bauð hún nánustu ættingjum Jóns heim með góðri aðstoð systur sinnar og áttum við þá góða stund saman í fallegu íbúðinni á Hrólfsskálamel, sem Halla fékk allt of stutt að búa í.

Ég trúi því að í sumarlandinu hitti ég ykkur öll, ættingja mína og vini, og veit að Halla hefur fengið góða heimkomu til Guðs, eins góð kona og hún var. Við hjónin vottum börnum Höllu og ættingjum innilega samúð og biðjum þeim Guðs blessunar.

Guð veri með þér góða vinkona,

Ásta og Garðar.

Við kynntumst í Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1957-1958.

Hópurinn kom víðs vegar að af landinu. Halla kom frá Akureyri.

Þetta var skemmtilegur vetur. Við lærðum allt sem átti að gera okkur að góðum húsmæðrum; matargerð, bakstur, fatasaum, útsaum, prjón, hekl, vefnað og þrif meðal annars.

Þegar skóla lauk um vorið fóru flestar sem voru utan af landi aftur heim. Við sem eftir vorum ákváðum að stofna saumaklúbb. Við vorum 10 og var Halla okkar ein af þeim.

Við höfum haldið hópinn allan þennan tíma og á næsta ári verða liðin 60 ár frá því að við byrjuðum að hittast í saumaklúbb.

10 sinnum á ári höfum við haldið saumaklúbb til skiptis hjá hver annarri. Það hefur alltaf verið tilhlökkun að mæta í saumaklúbb og ekki síst til Höllu. Hún var snillingur í eldamennsku og bakstri og bráðmyndarleg í höndunum. Halla var mjög smekkleg og bar heimili hennar því gott vitni.

Á þessum tíma höfum við farið saman ýmsar ferðir, innanlands og utan. Alltaf var Halla hrókur alls fagnaðar.

Hún Halla okkar var svo góð og falleg til orðs og æðis, hvað við eigum eftir að sakna hennar sárt.

Fjölskyldu Höllu viljum við votta innilega samúð.

Fyrir hönd vinkvennanna í saumaklúbbnum,

Sigríður Óskarsdóttir.

Á sorgarhafsbotni sannleiksperlan skín,

þann sjóinn máttu kafa, ef hún skal verða þín.

(Steingrímur Thorsteinsson.)

Höllu kynntist ég sem móður Ásdísar vinkonu minnar og sá strax að þar var einstök kona á ferð. Glæsileg, klár og gefandi og elskaði að gleðja aðra. Þegar við vinkonurnar hittumst var oftast sending frá henni, kökur, brauð eða annað bakkelsi, ullarsokkar eða önnur listaverk sem hún hafði gert handa okkur.

Halla kom að vinna með mér í Má Mí Mó og var í nokkra mánuði að hanna og sauma og ekki tók hún í mál að þiggja laun, sagðist vinna ánægjunnar vegna. Hún var miklu færari en ég í saumaskap og var góð í hönnun og kenndi mér margt verklegt auk þess að miðla mér af lífsreynslu sinni. Við urðum góðar vinkonur og nutum samvistanna og ég er þakklát fyrir samveru okkar.

Nú er hún laus við veikindin og komin í faðm ástvina sem hlúa að henni.

Ég sendi fjölskyldu Höllu og vinum mínar samúðarkveðjur.

Guðlaug Ágústa

Halldórsdóttir.