Páll Vígkonarson, fv. framkvæmdastjóri, fæddist í Reykjavík 5. júlí 1931. Hann lést 28. mars 2017 á Landspítalanum.

Foreldar hans voru Vígkon Hjörleifsson húsasmíðameistari og kona hans, Sigríður Pálsdóttir. Páll stundaði nám í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi í prentsmíði árið 1953 og prentmyndaljósmyndun 1965. Hann hlaut meistararéttindi 1966. Páll var verkstjóri hjá prentmyndastofunni Litrófi 1955-1957, stofnandi og framkvæmdastjóri Myndamóta hf. 1957-1989 og framkvæmdastjóri H. Pálssonar frá 1989 til starfsloka. Páll sat um árabil í stjórnum félaga og fyrirtækja í prentgeiranum, m.a. í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins 1974-1982. Páll var virkur innan Oddfellow-reglunnar og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Eftirlifandi eiginkona Páls er Erna Arnar. Synir þeirra eru Bernhard Örn og Hákon. Fósturdóttir Páls og dóttir Ernu er Rannveig E. Arnar.

Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 7. apríl 2017, klukkan 13.

Á sólríkum Kaliforníudegi bárust mér fréttir um fráfall afa míns á Íslandi. Harmi slegin átti ég í fyrstu erfitt með andardrátt en eftir skamma stund fylltist hugur minn af yndislegum minningum um afa. Afi var alltaf fullur orku og áhuga og var sögumaður á heimsmælikvarða. Hver saga einkenndist af kímni, frásagnargáfu og vissu skáldskaparleyfi sem hann tók sér, sem örvaði ímyndunarafl mitt mikið. Sem barn hlustandi á frásagnir hans upplifði ég lífsþrótt hans. Spurningarnar streymdu: hvar, hvers vegna, hvenær og hvað! Þessi reynsla örvaði áhuga minn á að kynna mér heiminn og að taka hvert tækifæri sem mér bauðst. Hann var fagurkeri sem sóttist eftir öllu því góða sem lífið bauð upp á og hann naut slíkra stunda til fullnustu.

Með fráfalli hans er það kannski rétt að ég segi eina þá sögu að hætti hans sem hann sagði mér í hvert skipti sem við hittumst. Fyrir mig markaði þessi saga þá ást og umhyggju sem hann ávallt sýndi fólki í kringum sig. Þetta er sagan um hvernig hann hitti ömmu í fyrsta sinn. „Shireen,“ sagði hann, „það var mesta lukkan í mínu lífi þegar ég hitti ömmu þína af tilviljun í Kaupmannahöfn. Hún var og er enn fallegasta kona sem ég hef augum litið. Hún er ólík öllum öðrum konum, alveg sérstök“. Svo benti hann á ömmu, sem var aldrei langt í burtu. Og henni leið vel. Þessi orð breyttust aldrei í þau 33 ár sem við töluðum saman. Þessi orð festust í mínu minni. Þau sýndu að ást og umhyggja getur enst lengur en 60 ára hjónaband, og að það er hollt að rækta sér áherslu á jákvæðni og hamingjuríkar stundir. Hann sagði ávallt „ég vil lifa fleiri skemmtilegar stundir en færri leiðinlegar“ sem var leiðandi prinsipp í hans lífi.

Ég var heppin að geta fylgst með ástríkum eiginmanni, tengdaföður, afa, og svo ástríkum langafa sonar míns, Tristans. Við berum öll nafn hans, Pálsson. Nafn hans og sögur hans eru hluti af okkur og börnum okkar. Ég elskaði afa innilega, ég mat hans mikils, ég er stolt af því að vera barnabarn hans og er heppin að njóta jákvæðra áhrifa hans á mitt líf. Þó að það sé eðlilegt að finna fyrir sorg og söknuði, er mun mikilvægara að vita að hann lifði hamingjuríku lífi og að við fengum tækifæri á að eyða ótöldum stundum með honum.

Kveðja,

Shireen Maria Palsson.

Á æskuárum mínum á Kirkjubóli í Korpudal, Önundarfirði, var gestkvæmt á sumrin. Minnisstæðast er mér er ég stóð, strákhnokkinn, úti og fyrir garðshornið renndi sér límósína í hlaðið. Út sté hár og glæsilegur frændi minn, klæddur ljósum kakífötum og frú Erna í sumarkjól. Börnin prúðbúin í aftursætinu. Fyrir mér var þetta sem upphaf amerískrar bíómyndar þar sem hann lék aðalhlutverkið en er nú að ljúka. „The end!“

Páll var gamansamur, góður sögumaður. Sagði gjarnan frá því er hann var ungur að nema prentmyndaiðn í Kaupmannahöfn og hitti föngulega stúlku. Ávarpaði hana á sinni fínu dönsku og þau ræddu saman um hríð. Kom þá í ljós að þau voru bæði íslensk en þar var komin Erna Arnar, hans eiginkona og stoð og stytta í lífinu. Þau stofnuðu síðan Myndamót á efstu hæð Morgunblaðshússins, prentmyndagerð og auglýsingastofu. Á þessum tíma vorum við bræðurnir að hefja innflutning á raftækjum. Ómetanleg var sú faglega aðstoð sem Páll og hans starfsfólk veitti okkur við markaðssetningu og átti vafalaust þátt í velgengni okkar. Það ber að þakka. Hákon og Berglind hafa síðan fram haldið starfinu sem H. Pálsson, auglýsingastofa og tölvuþjónusta. Ánægjulegt að sjá árangursríku ævistarfi skilað til afkomenda sinna.

Frændi var lífsnautnamaður. Ferðaðist um heiminn, stundaði laxveiði, sem varð tilefni að mörgum veiðisögum, úr Laugardalsánni, Langá og víðar. Sumarbústaðurinn á Þingvöllum var þeirra unaðsreitur.

Í seinni tíð leitaði hugurinn vestur þar sem hann dvaldi ungur hjá frændfólki og vinum á sumrin. Ættrækinn í meira lagi, sótti reglulega elsta frændfólkið í kaffi á sunnudögum. Stofnaði bridsklúbb með jafnöldrum sínum að vestan sem ég tek enn þátt í.

Eitt það besta sem hent hefur mig á lífsleiðinni er að ganga í Oddfellowregluna. Það var einmitt frændi minn sem gaf mér kost á því og fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur. Hann gekk í stúkuna okkar, Þorfinn Karlsefni nr. 10, IOOF árið 1966. Leiða má líkum að því að þess vegna hefur ávallt verið nokkuð um bræður af önfirskum uppruna í stúkunni. Jafnan á mánudögum hringdi ég í hann og við vorum samferða á fundi og aðra viðburði í stúkunni. Í seinni tíð hefur fundarsókn hans strjálast eins og gengur. Það var okkur því sérstakt ánægjuefni að hann kom eftir áramótin til að veita viðtöku viðurkenningu okkar fyrir hálfrar aldar starf eins og hefð er fyrir í okkar félagsskap. Við það tækifæri rifjuðust upp öll þau mikilvægu ábyrgðar- og forystustörf sem hann hafði tekið að sér og rækt með myndarskap og framsýni fyrir okkar stúku og regluna í heild, meira en ég hafði hugmynd um. Fyrir hönd okkar Þorfinnsbræðra flyt ég honum þakkir fyrir að leiðarlokum. Frú Ernu, Rannveigu, Bernhard, Hákoni og fjölskyldum færum við innilegar samúðarkveðjur. Hvíl í friði, kæri frændi og vinur.

Össur Stefánsson.

Við brotthvarf vinar streyma fram minningar. Ég man það eins og það hafi gerst í gær þegar ég kom fyrst í heimsókn til Benna, æskuvinar míns, í Aratún 40, árið 1969.

Foreldrar hans, Erna og Páll, tóku á móti mér eins og ég væri einhver sérstakur, ekki bara einhver strákur úr hverfinu. Seinna sá ég að þau komu svona fram við alla vini Benna.

Einhvern veginn hafði Páll þá gáfu að umgangast ungt fólk eins og fullorðnar manneskjur. Þannig urðu tengslin og samræðurnar dýpri. Páll kom fram við mig af einstakri hlýju of gestrisni. Hann þreyttist aldrei á að uppfræða aðra um sína eigin reynslu og hvatti til framfara og bjartsýni. Í gegnum árin fylgdist hann vel með því sem ég var að gera og tók oft á sig aukakrók til að aðstoða erlenda stafsmenn mína, með því t.d. að bjóða þeim aðstoð, taka þá með í golf, svona rétt til að auðvelda þeim aðlögun að landi og þjóð.

Leiðir okkar lágu víðar saman á lífsveginum en í Garðabænum. Við hittumst m.a. í Kansas og Kaliforníu. Góðar minningar, skemmtilegar sögur, ljúffengar máltíðir og barferðir lifna við í huga mér er ég kveð Pál.

Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Páli og fjölskyldu.

Friðrik R. Jónsson.

Tíminn er merkilegt hugtak. Hann hefur ekkert upphaf og engan endi, líður áfram með jöfnum hraða og stoppar aldrei. Hann mælir tíma okkar í tilverunni, ævi okkar, bernskunni, unglings og fullorðinsárum. Vinur minn Páll Vígkonarson var Reykvíkingur. Fyrstu spor sín steig hann í Vesturbænum. Þegar litið er yfir æviskeið Páls Vígkonarsonar sjáum við fyrir okkur hlýtt og gott æviskeið með mörgum gæfuríkum stundum. Bernskan með sína gleði og gáska, unglingsárin með sína drauma og fullorðinsárin þar sem draumarnir urðu að veruleika.

Á unglingsárunum stefndi Páll á arkitektúr sem framtíðarstarf. Sá draumur gekk þó ekki eftir, hann lærði prentiðn hér í Reykjavík en fór síðan til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann konuefni sínu, ungri Reykjavíkurstúlku sem þó átti uppruna sinn austan lækjar. Svona eru gæfusporin. Að vera á réttum stað á réttum tíma.

Ungur stofnaði Páll Vígkonarson fyrirtæki sitt Myndamót. Þar hefur hann nefnt við mig annað gæfuspor sitt er hann gerði samkomulag við Bjarna Benediktsson, sem þá var ritstjóri Morgunblaðsins, um samvinnu Morgunblaðsins og Myndamóta. „Sjálfs þitt afl, var þín stoð“, svo ég vitni í Einar Benediktsson. Það var við inngöngu mína í Oddfellowregluna að við Þórey kynntumst þeim Páli og eiginkonu hans, Ernu Arnar. Það voru okkur góð kynni sem leiddu af sér margar góðar stundir. Hæst risu þær þegar þau Páll og Erna skutu yfir okkur skjólshúsi er dráttur varð á afhendingu húsnæðis sem við höfðum samið um og keypt. Marga góða þætti er hægt að telja fram um Pál Vígkonarson en hér er mál að ljúka. Því vil ég með þessum fátæklegu skrifum þakka þér, Páll, fyrir þau skref sem við höfum stigið saman í tímans rás, með tilvitnun í kvæðið Höfðingi smiðjunnar, sem Davíð Stefánsson orti svo fallega til okkar iðnaðarmanna. Þessi orð lýsa lífsstíl þínum vel.

Hann tignar þau lög, sem lífið

með logandi eldi reit.

Hann lærði af styrkleika stálsins

að standa við öll sín heit.

Hann lærði verk sín að vanda

og verða engum til meins.

Þá væri þjóðinni borgið,

ef þúsundir gerðu eins.

Ásgrímur Jónasson.

Svona týnist nú tíminn eins og sagt er. Fólk kemur og fer, það fækkar í hópnum. Það sem áfram lifir er ljúfar minningar og oft stórskemmtileg atvik sem ylja manni við upprifjun, úr veiðiferðum, golfleik og bridge. Er aldur færist yfir og heilsu hrakar styttist í kveðjustundina. Það má velta því fyrir sér hvað telst vera hár aldur, meðalævi fólks á Íslandi er í kringum 86 ár og þykir vera nokkuð hátt borið saman við aðrar þjóðir. En þegar að kveðjustundinni kemur brýst stundum fram tregi, sem kannski mætti kalla sjálfselsku, sem tengist að hluta til áratugalangri vináttu og góðum félagsskap.

Við vorum vanir að vera fjórir saman í holli, í golfi eða við spil. Það hefur fækkað í hollinu, Viðar kvaddi 2015 og nú er Páll allur. Sporin við kveðjustundina eru þung því það er á slíkum stundum er minningabrot langrar vináttu hrannast upp. Við Páll kynntumst í kringum 1960 og tengdist það prentbransanum, sem ég þó tengdist ekki heldur æskufélögum mínum úr hollinu góða en þeir voru áhrifamenn úr þeim geira, hver á sínu sviði. Kynnin voru upphaflega tengd spilamennsku, síðan tóku við veiðiferðir sem allar voru mjög skemmtilegar og eftirminnilegar en lengst var samvera okkar tengd golfinu og við golfleik, hér heima og einnig erlendis og þá voru oftast eiginkonurnar með og voru þetta dásamlegar ferðir.

Páll var mjög lunkinn í spilum og hafði ég gaman að sjá hversu klókur hann var að spila úr tvísýnni stöðu og ekki brást honum bogalistin í veiðiskapnum. Það sem ég undraðist þó oft var hversu laginn hann var í golfinu því ég vissi ekki til þess að hann hefði mikið æft í þeim flókna leik, ef nokkuð, en hann var að mínu áliti „natural golfer“ og tel ég mig geta fellt þann dóm þar sem ég var nú einna iðnastur okkar félaganna í þeim fagra leik.

Lífshlaup Páls er um margt athyglisvert. Þegar hann hafði lokið námi í iðngrein sinni hér heima fór hann til Danmerkur til frekara náms. Þar safnaði hann fróðleik og náði sér í mikilvæga reynslu sem kom m.a. styrkum stoðum undir hans farsæla fyrirtæki, Myndamót. Mestur fengur af Danmerkurdvölinni var þó sá að þar kynntist hann hinni bráðfallegu konu sinni, Ernu B. Arnar. Allt lagðist með þeim Páli og Ernu og eignuðust þau tvo myndarlega drengi, Bernharð, vísindamann í fremstu röð og eftirsóttan fyrirlesara, og Hákon, sem strax tengdist rekstri fyrirtækis foreldra sinna og hefur verið framkvæmdastjóri þess síðastliðinn áratug eða lengur. Fyrir átti Erna dótturina Rannveigu og hefur samheldni fjölskyldunnar verið traust. Farsæld Páls er ekki síst Ernu konu hans að þakka, staðfesta og glöggskyggni eru meðal margra góðra eiginleika hennar. Ég lýk þessum fátæklegu orðum um góðan félaga og þakka honum skemmtilega samfylgd um lífsins veg.

Ég votta þér, Erna mín, samúð mína, sem og fjölskyldunni allri.

Ásgeir Nikulásson.