ASÍ Betur mætti gera, segir ASÍ.
ASÍ Betur mætti gera, segir ASÍ. — Morgunblaðið/ÞÖK
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur fjármálastefnu og áætlun ríkisins hvorki skapa grundvöll að efnahagslegum né félagslegum stöðugleika og velferð.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur fjármálastefnu og áætlun ríkisins hvorki skapa grundvöll að efnahagslegum né félagslegum stöðugleika og velferð. Í athugasemd ASÍ við ríkisfjármálaáætlunina segir sambandið að skattalækkanir undanfarin ár hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið úr aðhaldi ríkisfjármála í miðri uppsveiflu.

„Afleiðingarnar verða þær að tekjustofnar ríkisins nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þrátt fyrir uppsveiflu,“ segir í athugasemd ASÍ. Telur sambandið það fyrirséð að þegar dragi úr umsvifum muni blasa við niðurskurður í opinberum rekstri eða skattahækkanir þvert á hagsveifluna.

Fjölgun hjúkrunarrýma ónóg

ASÍ gerir nokkrar alvarlegar athugasemdir við efnisatriði fjármálaáætlunarinnar. Telur sambandið til að mynda ekki nógu langt gengið í fjölgun hjúkrunarrýma en sambandið segir áformaða fjölgun fram til ársins 2022 aðeins nema rúmlega helmingi áætlaðrar viðbótarþarfar fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020. ASÍ gagnrýnir einnig styttingu bótatímabils atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 og kallar skerðinguna „alvarlega aðför að grundvallarréttindum launafólks“.

ASÍ fagnar framlögum til byggingar nýs Landspítala en segir rekstur spítalans enn alvarlega vanfjármagnaðan og gagnrýnir að þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sé fjármagnað með hækkun á kostnaði hjá allflestum notendum heilbrigðisþjónustunnar.

Þá segir ASÍ að barna- og vaxtabótakerfin sem séu mikilvæg tekjuöflunartæki fyrir ungt fólk séu áfram veik og gagnrýnir jafnframt að engin áform séu um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði líkt og ASÍ hefur lagt áherslu á. ASÍ gagnrýnir einnig seinagang í tímabærum breytingum á réttindum örorkulífeyrisþega.