Blómstrandi greinar og laukblóm eru í aðahlutverki í páskaskreytingum Elísu Ó. Guðmundsdóttur, blómahönnuðar og eiganda blómaverslunarinnar 4 Árstíðir. Kirsuberjagreinar, magnolía, hvítasunnuliljur, perluhýasintur og asíusóley eru dæmi um vinsælar tegundir, að ógleymdum páskaliljum og túlípönum í glaðlegum litum.
Hver árstíð hefur sinn sjarma og vorið er dásamlegur blómatími, þá eru það blómstrandi greinar og laukblóm sem fyrst minna okkur á að náttúran er að vakna til lífsins eftir veturinn,“ segir Elísa Ó. Guðmundsdóttir, blómahönnuður og eigandi blómaverslunarinnar 4 Árstíðir, í Lágmúla. „Það eru einmitt þessir fallegu, ilmandi vorboðar – laukblóm og blómstrandi greinar – sem eru í aðalhlutverki í mínum skreytingum, bæði fyrir fermingarveislur og á páskaborðið.
Ég stofnaði 4 Árstíðir fyrir rúmlega þremur árum og hef frá upphafi lagt mikla áherslu á að bjóða upp á gott úrval, bæði af afskornum blómum og pottaplöntum. Hefðbundnar tegundir eiga sinn fasta sess í versluninni en ég hef líka lagt mig fram um að vera með óvenjuleg blóm af ýmsum gerðum og sérpanta í hverri viku eitthvað spennandi og fallegt sem hæfir hverri árstíð og hittir í mark hjá viðskiptavinum. Eins og nafnið gefur til kynna er 4 Árstíðir árstíðabundin blómahönnunar- og gjafavöruverslun, sem tekur breytingum vetur, sumar, vor og haust.“
Páska-jólarósin
Hvaða blómategundir gegna lykilhlutverki á páskum?
„Dæmi um vinsæl laukblóm eru náttúrlega páskaliljur og túlípanar, en líka hvítasunnuliljur, perluhýasintur, vorhýasintur, anemóna og asíusóley. Aðrar ákaflega fallegar og hátíðlegar plöntur, sem eru tákn um vorið og hæfa mjög vel á páskaborðið, eru til dæmis kirsuberjagreinar og magnolía, og ekki má gleyma hinni eiginlegu jólarós, helleborus, sem er hvítgræn og mjög mikið notuð einmitt núna.“
Lifandi blóm og litirnir í ár í páskaskreytingum – hefur gulur alltaf vinninginn?
„Litur páskanna er alltaf gulur, hann er táknrænn, en aðrir vinsælir páskalitir eru hvítur, appelsínugulur, fölblár og fölbleikur. Ég blanda þessum björtu og hlýlegu vorlitum gjarnan saman, það er eitthvað svo ferskt og fallegt við það. Ég flyt mest inn af plöntum frá Danmörku, Hollandi og Frakklandi og núna er eins og sjá má í versluninni tími laukblóma og blómstrandi greina.“
Hvað með þurrskreytingar, tilheyra þær fortíðinni?
„Já, ég held að mér sé óhætt að segja það, það er að minnsta kosti algjör undantekning ef spurt er um þurrskreytingar. Okkar viðskiptavinir vilja lifandi, ilmandi blóm og greinar og auðvitað er ekki hægt að bera þetta tvennt saman, þurrkaðar plöntur og lifandi.“
Meiri rómantík
Naumhyggjan er á undanhaldi í innanhússhönnun – á sama við um blómaskreytingar?
„Já, svo sannarlega, það er allt að verða rómantískara og íburðarmeira. Ef ég tek sem dæmi brúðarvendi hafa þeir síðustu misseri verið í afar föstu formi, pínulitlir og þéttir. Á þessu hefur orðið mikil breyting, núna er allt orðið óreglulegra og frjálslegra, brúðarvendirnir eru gjarnan stærri, lausari og léttari og meira flæði í hönnuninni. Sama er með páskaskreytingarnar, bæði blómvendi í vösum og blómaskreytingar á borð.“
Blómavasar undir veislublómin, stærðir og gerðir, gefur þú góð ráð?
„Þegar ég tek að mér blómahönnun fyrir stóra veislu í sal lána ég vasa og undirlag undir öll blóm og borðskreytingar. Ef um minni veislur er að ræða, í heimahúsum, ráðlegg ég viðskiptavinum mínum alltaf að koma með sína blómavasa að heiman. Þá er hægt að skoða saman í rólegheitum hvað passar í veisluna og ég hanna svo blómvendina og skreytingar í samræmi við það.“
Græn vakning
Hvernig er best að hlúa að afskornum blómum eftir að þau eru komin í vasa, þannig að þau haldi sér vel og lifi sem lengst?
„Blóm endast vel ef farið er að ráðum okkar fagfólksins og ég ítreka það alltaf við viðskiptavini mína. Fyrst og fremst þurfa blómin alltaf hreint vatn og reglulegan afskurð, því er nauðsynlegt að skipta um vatn annan til þriðja hvern dag og um leið skera neðan af stilkunum. Þetta er lykilatriði.
Svo þarf að passa að sólin skíni ekki beint á blómin og þau mega heldur ekki standa nálægt funheitum ofni. Einnig þarf að hafa í huga að neðstu blöðin snerti ekki vatnið í vasanum og það er sérstaklega mikilvægt þegar rósir eiga í hlut, þær eru mjög viðkvæmar. Blómanæring er ekki nauðsynleg, það er helst að rósirnar þurfi á henni að halda og við látum hana alltaf fylgja með okkar rósavöndum.“
Pottaplöntur eru aftur komnar í tísku – verður þú ekki áþreifanlega vör við það í 4 Árstíðum?
„Jú, svo sannarlega. Þetta er mjög ánægjuleg þróun, enda verður heimilið og allt vinnuumhverfi svo miklu fallegra og hlýlegra með blómum. Fólk velur sér í auknum mæli skemmtilegar plöntur inn á heimili sitt, ekki bara í stofuna heldur líka á baðið og í svefnherbergið. Þykkblöðungar eru sérstaklega áberandi um þessar mundir. Svo er líka vinsælt að setja grænar greinar í háa vasa og ég sel mikið af grænum blöðum til að stinga í vatn. Í rauninni má segja að hér hafi orðið græn vakning.“ beggo@mbl.is