Friðjón Björgvin Gunnarsson, fyrrv. eigandi netverslunarinnar buy.is og bestbuy.is, hefur í héraðsdómi verið dæmdur í tveggja ára og sex mánaða fangelsi og til að greiða 307,6 millj. kr. vegna skattsvika.

Friðjón Björgvin Gunnarsson, fyrrv. eigandi netverslunarinnar buy.is og bestbuy.is, hefur í héraðsdómi verið dæmdur í tveggja ára og sex mánaða fangelsi og til að greiða 307,6 millj. kr. vegna skattsvika. Honum ber að greiða sektina innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í eitt ár. Eiginkona hans sem einnig var ákærð var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfelld undanskot á virðisaukaskattsgreiðslum hjá tveimur fyrirtækjum sem hann var í forsvari fyrir. Einnig að hafa ekki gefið upp tekjur 2011-2013 og þar með svikist um að greiða 16,5 milljónir kr. í tekjuskatt.

Þá var hann fundinn sekur um peningaþvætti með því að hafa látið hluta ávinnings af brotum sínum renna inn á bankareikning sinn og bankareikning eiginkonu sinnar. Neitaði maðurinn undanskotum einkahlutafélaganna og peningaþvætti, en játaði að hafa skilað röngum skattframtölum fyrir sig. Var hann engu að síður fundinn sekur í öllum ákæruliðum.

Eiginkona hans var fundin sek um peningaþvætti með því að hafa veitt viðtöku 11,5 milljónum kr. á reikning sinn. Þá féllst dómurinn á að gera upptækar 4,9 milljónir kr. á reikningi konunnar auk þess sem mikill fjöldi raftækja og tölvutækja sem fundust á heimili þeirra var gerður upptækur.