Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Heimkynni – Sigrid Valtingojer er heiti sýningar sem verður opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði á morgun, þriðjudag, klukkan 15. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga, þar sem það fyrrnefnda leggur til verkin, allt grafíkverk, en í hinu síðarnefnda er sýningin sett upp.
Sigrid fæddist 1935 en við andlát sitt 2013 hafði hún arfleitt Listasafn ASÍ að öllum verkum sínum, um 300 verkum alls, ásamt ýmsum gögnum þeim tengdum. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir, listfræðingur og myndlistarmaður.
Auk þess að gefa innsýn í ólíkar aðferðir grafíklistar, sem var aðalviðfangsefni Sigridar, kynnast sýningargestir sköpunarverkum listamanns sem var sannkallaður heimsborgari. Sigrid nam bæði hér á landi og erlendis, sýndi og starfaði víða og hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Sem barn, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945, kynntist Sigrid því að vera flóttamaður þegar fjölskylda hennar var svipt eignum og rekin brott frá heimkynnum sínum í Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu. Þau flúðu til Thüringen-héraðs Þýskalands og settust svo að í Jena sem þá var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan svo til Vestur-Þýskalands. Fullorðin valdi Sigrid Ísland sem heimkynni; hún settist hér að árið 1961 og hér skildi hún, að sögn sýningarstjórans, eftir arfleifð sem á rætur í miðevrópskri menningu.
Vandvirk og þýskur agi
Aðalheiður kynntist Sigrid í gegnum félagið Íslenska grafík, sameiginlegan vettvang þeirra. Hún segir að leitað hafi verið til sín að stýra þessari sýningu á verkum Sigridar þar sem hún þekkti bæði verk hennar og hana sjálfa, þó ekki of náið svo hún hefur faglega fjarlægð á verkin. En hvernig listamaður var Sigrid?„Grafíkin var fyrst og fremst hennar miðill en hún var alltaf reiðubúin til að prófa sig áfram og uppgötva eitthvað nýtt,“ segir Aðalheiður.
„Hún var mjög vandvirkur listamaður og nákvæm – það má segja að í verkum hennar birtist viss þýskur agi en um leið var hún reiðubúin að þróa verk sín sífellt lengra áfram.“
Upphaflega vann Sigrid raunsæisleg verk, til að mynda dúkristur, en þegar ferill hennar hófst fyrir alvöru tók ætingin við sem hennar helsti miðill í grafíkinni. „Þá varð íslensk náttúra áberandi í verkunum enda heillaðist Sigrid af henni. Hún ferðaðist mikið um fjöll og firnindi, sótti viðfangsefni í náttúruna og gerði þau að sínu. Það skipti ekki máli um nákvæmlega hvaða staði var að ræða heldur upplifunin af því að vera í náttúrunni og skynja hana. Formin og litirnir. Á sýningunni er til að mynda tólf mynda sería sem heitir „Landslag“. Öll verkin sýna stök fjöll og í þeim vinnur Sigrid með formin – hún kallaði þau verk óð til Íslands. Við setjum þau upp í langri línu.“
Flóttamenn og náttúruvernd
Í Þýskalandi lagði Sigrid ung stund á nám í auglýsingateiknun og tískuteikningu en hún lærði síðan myndlist á Íslandi.„Hún hóf því sinn listamannaferil hér eftir að hafa verið í grafíkdeildinni í Myndlista- og handíðaskólanum. Auk þess að sýna hér byrjaði hún fljótlega að taka þátt í stórum grafíksýningum og tvíæringum erlendis og vegnaði vel. Hún fékk til að mynda verðlaun fyrir verk á sýningum á Ítalíu, í Japan og víðar,“ segir Aðalheiður.
„Eftir að hafa haft ætingu og akvatintu um skeið sem sinn aðalmiðil innan grafíkur þá vék hún af þeirri leið, meðal annars til að hafa meiri möguleika í litanotkun, og fór þá út í tréristur. Á því sviði gerði hún líka allrahanda tilraunir og allt var það mjög vandað hjá henni.“
Sýningin í Listasafni Árnesinga er tvíþætt. Í öðrum salnum er lögð áhersla á náttúrumyndir en í innri salnum á tákn og táknmyndir í verkum Sigridar.
„Þar eru meðal annars verk sem hún sýndi fyrst í sýningarsölum Start-Art við Laugaveg eftir að hún dvaldist um tíma í Palestínu þar sem hún vann sem sjálfboðaliði. Verkin eru táknræn upplifun á þeirri ferð og hverju verki fylgir texti um ferðina og upplifanir. Sigrid var mikill friðarsinni og málefni flóttamanna voru henni hugleikin. Árið 2010, þremur árum áður en hún lést, þá hélt hún í Listasafni ASÍ sýningu þar sem verkin hverfðust um flóttamenn og stöðu þeirra í nýjum heimkynnum þar sem þeir þurfa m.a. að læra nýtt tungumál. Þau verk eru táknmyndir unnar út frá þeim pælingum. Hún þekkti vitaskuld þann veruleika sjálf að vera á flótta og skipta um heimkynni.“
Aðalheiður telur líklegt að hrakningar fjölskyldunnar þegar hún var á barnsaldri hafi mótað lífsafstöðu Sigridar. „Hún gat sett sig í spor flóttamanna í samtímanum,“ segir hún. „Þá var náttúruvernd henni líka hugleikin og í verkunum kemur glögglega fram hvað hún bar mikla virðingu fyrir náttúrunni.“ Og Aðalheiður segir að hugmyndin að heiti sýningarinnar, Heimkynni , hafi verið að ná utan um þessar margþættu tengingar Sigridar við Ísland.
„Hún var alla tíð íslenskur listamaður en með góðan grunn í evrópskri hámenningu.“
Sýn á verk og vinnulag
Aðalheiður segist hafa notið þess að rýna í það úrval verka Sigridar sem hún arfleiddi Listasafn ASÍ að. „Í samstarfi við Elísabetu Gunnarsdóttur, forstöðumann safnsins, fékk ég að fara í geymslurnar, skoða verkin vel, og ég valdi að taka þennan pól í hæðina á sýningunni; að stilla annarsvegar fram landslags- og náttúrumyndum og hinsvegar táknum og táknmyndum.“Hún segir að í miðsal Listasafns Árnesinga sé brugðið upp dæmum um vinnu Sigridar með grafíkmiðilinn, til að mynda getur að líta ætingarplötur hennar og skýringar á vinnuaðferðum.
„Ég hef reynt að skapa góða sýn á verk og vinnulag Sigridar,“ segir Aðalheiður. „Hún vann mikið í seríum og við sýnum nokkrar þeirra. Í einni þrykkir hún beint eftir hrauni, svokölluð „frottage“-verk og þau eru verulega glæsileg saman komin. Þá létum við ramma inn fjölda verka sérstaklega fyrir sýninguna. Við reynum að gera Sigrid góð skil og sýna henni verðskuldaðan sóma.“