Hæstiréttur Deilt var um erlend lán slökkviliðsins.
Hæstiréttur Deilt var um erlend lán slökkviliðsins. — Morgunblaðið/Sverrir
Íslandsbanka er gert að greiða Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tæpar 168 milljónir króna vegna útreiknings á ólöglegum erlendum lánum sem slökkviliðið tók á árunum 2001 til 2005.

Íslandsbanka er gert að greiða Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tæpar 168 milljónir króna vegna útreiknings á ólöglegum erlendum lánum sem slökkviliðið tók á árunum 2001 til 2005. Hæstiréttur dæmdi í málinu í gær og sneri þar við dómi héraðsdóms sem hafði sýknað Íslandsbanka.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að augljós aðstöðumunur hafi verið á bankanum og slökkviliðinu hvað varðar þekkingu á fjármálastarfsemi. Þá hafi slökkviliðið greitt í íslenskum krónum inn á bankareikning Íslandsbanka til að greiða af láninu. Þannig hafi meginskyldur beggja aðila skv. lánssamningnum verið með greiðslum í íslenskum krónum.

Um er að ræða þrjú erlend lán sem veitt voru. Það fyrsta í september 2001 að upphæð 190 milljónir króna, annað í júlí 2002 upp á 423 milljónir og þriðji lánasamningurinn í febrúar 2005 upp á 353 milljónir króna.

Greindi málsaðila á um hvort lánasamningana þrjá bæri að meta hvern og einn sem sjálfstæða lánaskuldbindingu, sem svokallaðan rammasamning eða lánalínu sem leiði til þess að skoða beri hverja og eina útborgun lánshluta sem hinar eiginlegu lánveitingar. Þá var tekist á um hvort lánveitingarnar teldust lögleg lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum sem bundin væru við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.