Á Alþingi er nú rætt um fjármálastefnu og aðhald í ríkisrekstri og sýnist sitt hverjum um hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. Stjórnarliðar benda á að aðhald sé nauðsynlegt og það er vissulega rétt. En aðhald gengur illa upp – og stjórn ríkisfjármála yfirleitt, með eða án aðhalds – ef ekki er skýr forgangsröðun. Ríkið þarf, eins og einkaaðilar, að tryggja að fjármunir fari þangað sem þörfin er brýnust. Að öðrum kosti fer illa.
Í ríkisrekstrinum er hægt að spara. Og það er ekki alltaf mjög erfitt eða sársaukafullt. Tvö dæmi má nefna um ríkisstofnanir sem vinstristjórnin sem sat frá 2009-2013 setti á laggirnar og engin þörf er fyrir.
Önnur stofnunin er Fjölmiðlanefnd. Þetta er stofnun sem ekki var til fyrir nokkrum árum og samt sem áður gengu fjölmiðlar ekki síður þá en nú. Raunar var betra fyrir fjölmiðla að þurfa ekki ofan á allt annað að halda uppi Fjölmiðlanefnd og sinna að auki allri þeirri skriffinnsku sem nefndin reynir að hlaða á þá.
Fjölmiðlaumhverfið var líka heilbrigðara áður en ríkið fór að skikka fjölmiðla til að setja sér reglur um starfsemi ritstjórna sinna sem væru ríkinu þóknanlegar. Slíkar reglur eru fjölmiðlar nú látnir setja sér, að viðlögðum dagsektum, og Fjölmiðlanefnd leyfir sér að finna að þeim ef þær eru ekki ríkinu þóknanlegar. Þá vill nefndin setja reglur um hvernig fjölmiðlar fjalla um tiltekin efni. Í landi þar sem tjáningarfrelsi á að ríkja skjóta þessi ríkisafskipti skökku við, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Annað dæmi um stofnun sem furðu vekur að enn skuli vera haldið úti á kostnað skattgreiðenda er Umboðsmaður skuldara. Þeirri stofnun var komið á fót þegar þrengt hafði mjög að eiginfjárstöðu heimilanna og skuldir voru mörgum erfiðar. Þá kunna að hafa verið rök fyrir því að ríkið reyndi að greiða úr vandanum umfram það sem verið hafði, en nú er þessi stofnun aðeins til af sömu ástæðu og svo margar aðrar; af því að ríkið leggur helst aldrei af stofnanir sem settar hafa verið á fót.
Hvernig væri nú að ríkisstjórnin færi í það að leggja af óþarfar stofnanir og þaðan af verri? Fjármunina mætti svo nýta betur, bæði í skattalækkanir og til þarfari verka.