Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um starfsnám á framhaldsskólastigi kemur fram að aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum til að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafi ekki náð tilætluðum árangri. Að mati Ríkisendurskoðunar hljóti ómarkviss stefnumörkun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda að eiga umtalsverðan þátt í því að starfsnám standi enn höllum fæti.
Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að nú myndi fara fram ákveðin vinna í ráðuneytinu við að greina skýrsluna og hugsa hver næstu skref yrðu af hálfu stjórnvalda. „Ég er mjög eindreginn talsmaður þess að verk- og starfsnám verði eflt og hef mikinn áhuga á því að finna leiðir til þess,“ sagði Kristján.
Í skýrslunni kemur fram að ný lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008, hafi átt að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Frá 2008 til skólaársins 2014-15 hafi nemendum verk- og starfsnámsbrauta hins vegar fækkað um 7% og brautskráningum þeirra fækkað um 18%. Frá því að lögin tóku gildi hafi stjórnvöld unnið að ýmsum áætlunum um aðgerðir til úrbóta án þess að þeim hafi verið hrundið í framkvæmd með skipulögðum hætti.
Stendur höllum fæti
Ríkisendurskoðun telur að ómarkviss stefnumörkun og ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda eigi umtalsverðan þátt í því að starfsnám standi enn höllum fæti.Í skýrslunni kemur fram að ríkisendurskoðun telur að ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla sem tók gildi 2011 og átti að fullu að vera komin til framkvæmda 2015 sé ekki komin til framkvæmda hvað varðar starfsnám.
Í janúar á þessu ári hafi einungis níu af rúmlega 100 námsbrautum sem telja megi til starfsnáms hlotið staðfestingu og fimm að auki hafi beðið staðfestingar. Því sé ljóst að meirihluti starfsnáms á framhaldsskólastigi fari fram á óstaðfestum námsbrautum. Þetta verði að teljast „alvarlegur veikleiki á stjórnsýslu starfsmenntunar“.
Ríkisendurskoðun hvetur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beita sér fyrir því að skipulag og hlutverk starfsgreinaráðs verði endurskoðað og tryggt verði að starfsgreinanefnd sinni hlutverki sínu. Auk þess hvetur stofnunin ráðuneytið til að meta ávinning þess að skólum verði falin skýr ábyrgð á þeim þáttum starfsnáms sem krefjast náms og þjálfunar á vinnustað.