Georg Lúðvíksson
Georg Lúðvíksson — Morgunblaðið/Eggert
Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið fjármögnun að fjárhæð 7,5 milljónir evra, eða jafngildi 900 milljóna íslenskra króna. Fjármögnunin er í formi nýs hlutafjár frá sænska fjárfestingasjóðnum Industrifonden.

Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið fjármögnun að fjárhæð 7,5 milljónir evra, eða jafngildi 900 milljóna íslenskra króna. Fjármögnunin er í formi nýs hlutafjár frá sænska fjárfestingasjóðnum Industrifonden. Jafnframt auka núverandi fjárfestar í Meniga; Frumtak, Kjölfesta og Velocity Capital við hlut sinn.

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segir að gengið í viðskiptunum hafi verið hærra en í síðustu hlutafjáraukningu árið 2015. Verðmæti félagsins hleypur nú á nokkrum milljörðum íslenskra króna.

Georg segir í samtali við Morgunblaðið að hlutur Industrifonden í Meniga sé umtalsverður eftir kaupin. Fyrirtækið sér nú fram á mikinn tekjuvöxt. „Vöxtur félagsins hefur komið í sveiflum. Fyrstu árin var hann mjög hraður, en hefur verið hægari síðastliðin þrjú ár. Tekjur hafa þó vaxið á hverju ári, en starfsmannafjöldi staðið að mestu í stað síðastliðin tvö ár. Nú sjáum við fram á mikinn tekjuvöxt og einhverja fjölgun starfsmanna,“ sagði Georg.

Starfsmenn Meniga eru 70 á Íslandi, 7 í Svíþjóð og 12 í London. Félagið er átta ára gamalt.

„Það eru miklar tæknibreytingar að eiga sér stað í bankaþjónustu og hefðbundnir bankar hræðast að smærri fyrirtæki og smáforrit taki við hlutverki þeirra, eða risafyrirtæki eins og Google og Facebook. Reglugerðarbreytingar í Evrópu hafa líka áhrif, því bankar koma til með að þurfa að leyfa fólki að flytja færslusögu sína á milli, og leyfa þriðja aðila að hefja millifærslur í bankanum. Þess vegna er mikil fjárfesting í gangi í netbönkum í Evrópu. Almennt vilja menn gera netbankana persónulegri, og við getum hjálpað til með það, bæði hvað ráðgjöf varðar, og við að bjóða sérsniðin tilboð byggð á viðskiptasögu.“

Bankar auglýsingahagkerfi

Hann segir að eftirspurn eftir vörum Meniga hafi aldrei verið meiri. „Fjármögnunin mun búa okkur undir aukin umsvif. Úti er hugmyndin að bankar búi til auglýsingahagkerfi inni í netbönkum, byggt á fjármálasögu viðskiptavinanna, með þeirra samþykki, rétt eins og Facebook og Google hafa gert. Okkar vaxtaráætlanir ganga út á að við fáum ríflegar tekjur af þessum auglýsingum í gegnum tekjuskiptasamninga. Það er okkar stóri draumur til að verða risafyrirtæki.“

Spurður að því hvort Meniga geti hugsað sér skráningu í kauphöll, segir Georg að sem stendur henti þeim betur að fá fjármagn frá sérhæfðum fjárfestum.

Meniga sér fram á að skila hagnaði í ár, en síðustu ár hefur félagið verið rekið með tapi. „Við höfum reyndar orðið fyrir barðinu á styrkingu krónunnar, enda með 90% af tekjum í evrum en langmestan kostnað í krónum.“

Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu bankar heims en þeirra á meðal eru Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Lausnir Meniga eru notaðar í um 20 löndum af rúmlega 40 milljón virkum notendum.

tobj@mbl.is