Charley Hoffman
Charley Hoffman
Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman var með góða forystu á fyrsta hring á Masters-mótinu í Augusta þegar Morgunblaðið fór í prentun á tólfta tímanum í gærkvöldi en þá áttu fáeinir kylfingar eftir að ljúka leik.

Bandaríkjamaðurinn Charley Hoffman var með góða forystu á fyrsta hring á Masters-mótinu í Augusta þegar Morgunblaðið fór í prentun á tólfta tímanum í gærkvöldi en þá áttu fáeinir kylfingar eftir að ljúka leik.

Hoffman skilaði frábærum hring upp á 65 högg og er á sjö höggum undir pari. Landi hans William McGirt var næstur en hann er á þremur undir pari.

Þeir sem voru seint úti í gær höfðu heppnina með sér. Fyrri hluta dags var mikill vindur og skorið var hátt. Aðstæður voru erfiðar og frekar fáir undir parinu. En þeir sem fóru síðastir út fengu síðasta þriðjung hringsins í hægum vindi eða nánast logni. Þá breytist staða efstu manna mjög og Hoffman var einn þeirra sem nýttu tækifærið. Hann var á tveimur undir pari eftir 11 holur en náði frábærum lokakafla.

Lee Westwood nýtti sér það einnig þegar aðstæður skánuðu. Hann var á þremur yfir pari eftir 12 holur og í svipaðri stöðu og margir snjallir kylfingar sem fóru út snemma í gær. En Westwood fékk þá fimm fugla í röð og lauk leik á tveimur undir pari.

Rory McIlroy nýtti einnig tækifærið. Hann var á þremur yfir pari eftir 12 holur en var á parinu þegar hann átti eina holu eftir.

Charley Hoffman er fertugur og hans besti árangur á Masters er 9. sæti árið 2015 sem er einnig hans langbesti árangur á risamóti.