Meistaradeildin Haukar léku meðal annars við stórlið Flensburg í Meistaradeild Evrópu 2008, síðast þegar íslenskt lið lék í riðlakeppni.
Meistaradeildin Haukar léku meðal annars við stórlið Flensburg í Meistaradeild Evrópu 2008, síðast þegar íslenskt lið lék í riðlakeppni. — Morgunblaðið/hag
Úrslitakeppni Olísdeildar karla hefst á sunnudag. Nú er ljóst að liðin leika ekki aðeins um Íslandsmeistaratitilinn heldur munu verðandi Íslandsmeistarar verða gjaldgengir í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Úrslitakeppni Olísdeildar karla hefst á sunnudag. Nú er ljóst að liðin leika ekki aðeins um Íslandsmeistaratitilinn heldur munu verðandi Íslandsmeistarar verða gjaldgengir í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Ísland hefur ekki átt þátttökurétt í keppninni síðustu ár, en samkvæmt reglum Meistaradeildarinnar eru aðeins sæti í boði fyrir fulltrúa úr 27 sterkustu landsdeildum Evrópu. Olísdeildin er einmitt í 27. sæti á nýjasta styrkleikalista Handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Landsdeildunum er styrkleikaraðað á hverju ári eftir árangri í Evrópukeppnunum þremur (Meistaradeildinni, EHF-bikarnum og Áskorendabikarnum). Þar er horft til árangurs síðustu þriggja ára á undan yfirstandandi tímabili. Fyrir næsta tímabil gildir því árangur íslenskra liða tímabilin 2013-14, 2014-15 og 2015-16. Frábær árangur Vals í Áskorendabikarnum í vetur, þar sem liðið er komið í undanúrslit, mun aftur á móti byrja að telja fyrir þarnæsta tímabil.

Olísdeildin var í 36. sæti styrkleikalistans fyrir tímabilið sem nú er að klárast. Það færði íslenskum liðum ekkert sæti í Meistaradeildinni, eitt sæti í EHF-bikarnum og þrjú sæti í Áskorendabikarnum. Næsta vetur mun Ísland missa sæti í Áskorendabikarnum vegna sætisins í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Ísland átti síðast fulltrúa í forkeppni Meistaradeildar haustið 2011 þegar FH tók þátt en liðið tapaði fyrir Haslum frá Noregi og komst ekki áfram í sjálfa riðlakeppnina. Ef verðandi Íslandsmeistarar nýta tækifærið til að taka þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar, með tilheyrandi kostnaði, þurfa þeir að slá út tvo andstæðinga til að komast í riðlakeppnina. sindris@mbl.is