— Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2017 er 168.464 lestir, samkvæmt nýrri reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins. Fyrirkomulag veiðanna er að mestu það sama og verið hefur síðustu ár.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2017 er 168.464 lestir, samkvæmt nýrri reglugerð sjávarútvegsráðuneytisins. Fyrirkomulag veiðanna er að mestu það sama og verið hefur síðustu ár. Reikna má með að vertíð byrji í lok júní miðað við síðustu ár.

Samningar hafa ekki náðst við önnur strandríki um skiptingu afla úr makrílstofninum í NA-Atlantshafi. Í viðræðum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga, Grænlendinga og Evrópusambandsins í fyrrahaust var ákveðið að miða við að afli færi ekki yfir 1.021 þúsund tonn árið 2017. Alþjóða hafrannsóknaráðið lagði í fyrrahaust til að aflinn 2017 færi ekki yfir 944 þúsund tonn og er þar miðað við nýtingarstefnu sem á að gefa hámarksafrakstur til lengri tíma.

Sá kvóti sem Íslendingar hafa nú ákveðið er 16,5% af fyrrnefndri viðmiðun strandríkjanna, eða sama viðmiðun og Íslendingar hafa haft á síðustu árum. Grænlendingar hafa ákveðið að hámarksafli í makríl í ár verði 66.365 tonn. Noregur, Evrópusambandið og Færeyjar hafa tekið frá 15,6 % fyrir Íslendinga, Grænlendinga og Rússa, en Íslendingar taka einir rúmlega það hlutfall. Því bendir allt til að makrílafli ársins fari umfram fyrrnefnd 1.021 þúsund tonn.

Heimilt að flytja 10% milli ára

Makrílkvótinn á síðasta ári var 147.824 lestir, en meðal annars vegna flutnings á milli ára varð aflinn talsvert meiri. Heimildir til slíks voru auknar í 30% kjölfar viðskiptabanns Rússa 2015, þær voru 20% í fyrra, en í ár eru þær að nýju komnar í 10% vegna flutnings heimilda yfir á næsta ár.

Í yfirliti Fiskistofu í byrjun janúar kom fram að makrílafli íslenskra skipa á síðasta ári var 172,2 þúsund tonn en var 169,3 þúsund tonn árið 2015. Þetta var aukning upp á 1,7% milli ára. Af aflanum í fyrra veiddust 162.600 tonn í íslenskri lögsögu, eða 94,4% aflans. Makrílafli íslenskra skipa á alþjóðlegu hafsvæði var 11,4 þúsund tonn og afli í grænlenskri lögsögu nam 6,8 þúsund tonnum.

110 þúsund tonn í hlut skipa með veiðireynslu

Af makrílkvótanum í ár koma tæplega 110 þúsund tonn í hlut skipa sem veiddu makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009. Til vinnsluskipa fara 32.720 lestir og 8.443 lestir til skipa sem ekki frysta aflann um borð. Flutningur á aflaheimildum á milli þessara flokka er heimill. Tvö þúsund tonn fara í sérstakar ráðstafanir vegna smábáta og tæplega níu þúsund tonn, eða 5,3%, fara í skiptimarkað vegna potta eða annarra aðgerða stjórnvalda.

Til smábáta sem veiða makríl á línu eða handfæri er ráðstafað 6.400 lestum.