Árangur Vals í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik karla er afar athyglisverður, svo ekki sé meira sagt. Liðið leikur í undanúrslitum tvær síðustu helgar þessa mánaðar gegn félagsliði frá Rúmeníu, Potaissa frá Turda.
Árangur Vals í Áskorendakeppni Evrópu í handknattleik karla er afar athyglisverður, svo ekki sé meira sagt. Liðið leikur í undanúrslitum tvær síðustu helgar þessa mánaðar gegn félagsliði frá Rúmeníu, Potaissa frá Turda.

Íslensk félagslið hafa ekki oft tekið þátt í Evrópukeppni félagsliða á síðustu árum, að undanskildum karlaliði Hauka og kvennaliði Fram. Þátttaka annarra hefur verið með höppum og glöppum.

Haukar hafa lagt mikinn metnaði í að taka þátt í Evrópukeppninni alla þessa öld. Leikmenn og forsvarsmenn deildarinnar hafa lagt að baki margar vinnustundir til þess að öngla saman fyrir kostnaði ár eftir ár.

Sömu sögu er að segja um kvennalið Fram sem reyndar tók ekki þátt í Evrópukeppni á þessum vetri en hefur nánast sleitulaust tekið þátt undanfarinn áratug.

Eflaust kemur hin gloppótta þátttaka til af þeim mikla kostnaðar sem henni fylgir. Eins og kom fram í viðtali í Morgunblaðinu á þriðjudaginn þá hefur kostnaður Valsmanna við hverja umferð, það er leikur heima og að heiman, numið um þremur milljónum króna. Valur hefur þegar farið í gegnum þrjár umferðir, sex leiki. Enn eru að minnsta kosti tveir eftir. Kostnaðurinn eykst eftir því sem liðið stendur sig betur. Leikmenn og forráðamenn halda áfram að vinna baki brotnu í frítíma til að safna fyrir kostnaði við velgengnina. Ættingjar og vinir kaupa ýmsan varning. Sem betur fer er alltaf stöðug þörf fyrir salernispappír á öllum heimilum landsins.