Sigurjón Steinsson fæddist á Hring í Stíflu 22. maí 1929. Hann lést á HSN Siglufirði 25. mars 2017.
Foreldrar Sigurjóns voru Steinn Jónsson bóndi, f. 12. mars 1898, d. 6. mars 1982, og Elínbjörg Hjálmarsdóttir, f. 24. október 1888, d. 29. september 1964. Sigurjón kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Svölu Bjarnadóttur hjúkrunarfræðingi, f. 6. apríl 1937, 26. desember 1964. Synir þeirra eru: a) Sigurður f. 19. desember 1965, kvæntur Huldu Magnúsardóttur, f. 24. febrúar 1962, börn þeirra eru Linda Hrönn, f. 2. mars 1986, gift Halldóri Páli Jóhannssyni og eiga þau saman eina dóttur, Heru Sóleyju, f. 24. nóvember 2008. Sigurjón Ólafur, f. 4. júlí 1994, og Helga Eir, f. 9. febrúar 1996. b) Júlíus Helgi, f. 26. ágúst 1971, í sambúð með Hönnu Bryndísi Þórisdóttur Axels, f. 2. febrúar 1970, dætur Hönnu Bryndísar eru Silja Ýr, f. 7. febrúar 1992, og Lydía Ýr, f. 16. janúar 1995. Systkini Sigurjóns: Ingólfur, f. 1. september 1919, d. 7. júlí 1998, Fanney, f. 29. júní 1922, d. 4. apríl 1901, Jón Gestur, f. 25. ágúst 1924, d. 12. júní 1926, Hulda, f. 4. febrúar 1927. Systkini samfeðra: Hreinn, f. 26. mars 1934, d. 9. desember 1916, Regína, f. 26. mars 1937, Jóhann, f. 7. september 1945, og Sigrún, f. 29. apríl 1951. Sigurjón flutti frá Nefstöðum í Fljótum til Siglufjarðar vorið 1961. Hann starfaði sem vörubílstjóri alla tíð eða allt þar til hann seldi vörubifreið sína árið 2014, þá 85 ára gamall. Sigurjón var mikill harmonikkuunnandi, hann var sjálflærður og byrjaði að spila á harmonikku 14 ára gamall. Hann spilaði víða og kom m.a. fram í mörg ár á söltunarsýningum Síldarminjasafnsins á Siglufirði.
Útför Sigurjóns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 7. apríl 2017, klukkan 14.
Elsku Ninni minn, nú er komið að leiðarlokum. Ég veit ekki hvernig lífið verður núna án þín, við vorum samrýnd hjón og eftir að við hættum að vinna gerðum við nánast allt saman, fórum okkar daglegu rúnta og gengum oft suður á fjörð, ég mun sakna þess. Ég veit að strákarnir okkar sem þú varst svo stoltur af passa upp á mig.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Þú varst minn besti vinur. Ég elska þig og mun hitta þig á ný í Sumarlandinu góða.
Þín Svala.
Ég sakna þín óskaplega mikið, elsku pabbi minn, og ég veit að þú fylgist með okkur og ég passa upp á mömmu fyrir þig. Ég elska þig, pabbi minn, og þú kemur og nærð í mig þegar minn tími kemur.
Þér kæra sendi kveðju
með kvöldstjörnunni blá
það hjarta, sem þú átt,
en sem er svo langt þér frá.
Þar mætast okkar augu,
þótt ei oftar sjáumst hér.
Ó, Guð minn ávallt gæti þín,
ég gleymi aldrei þér.
(Bjarni Þorsteinsson.)
Þinn sonur
Júlíus.
Þinn sonur,
Sigurður.
Mig langar að rita örfáar línur til að minnast Sigurjóns tengdaföður míns, eða Ninna eins og hann var ætíð kallaður. Kynni okkar hófust fyrir um 27 árum er ég og Siddi sonur hans hófum okkar samband. Ég tel mig hafa verið mjög lánsama að fá að kynnast þessum einstaka manni, manni sem var alltaf til taks, alltaf boðinn og búinn að aðstoða á allan þann hátt sem hann mögulega gat. Hann var umhyggjusamur og blíður en jafnframt ákveðinn. Hann bar alltaf hag fjölskyldu sinnar fyrir brjósti og held að það sé ekkert sem hann hefði ekki fyrir okkur gert. Barnabörnunum þremur, Lindu, Sigurjóni og Helgu, reyndist hann einnig einstakur afi, bar þau alltaf á höndum sér og hafði mikið yndi af þeim. Þegar þau voru yngri þurfti ekki nema eitt símtal til afa: „Afi, viltu koma að sækja mig.“ Þá var hann mættur á svæðið um leið. Það var alltaf svo gott að vera hjá afa Ninna og ömmu Svölu. Stundirnar voru þeim ekki síður dýrmætar eftir að þau komust á fullorðinsár, ég veit að þau eiga eftir að sakna afa síns mikið en eiga frábærar og skemmtilegar minningar um yndislegan afa sem á eftir að ylja þeim um hjartarætur um ókomna tíð.
Elsku Ninni minn, þakka þér fyrir allar góðu stundirnar og allt það sem þú gerðir fyrir mig og mína. Megi góður Guð geyma þig.
Þín tengdadóttir,
Hulda.
Ég er svo þakklát fyrir allar góðu minningarnar okkar saman, elsku afi minn, þú ert flottasti engillinn á himnum.
Þín afastelpa
Helga Eir.
Ninni var sannur Fljótamaður, ættaður úr Stíflunni þar sem hann ólst upp. Hann byrjaði snemma að spila á harmonikku og var fyrirmyndin systir hans sem einnig spilaði. Ekki voru hljóðfæraleikarar á hverjum bæ og var því snemma farið að spila fyrir dansi á skemmtunum bæði í Fljótum og Ólafsfirði. Það var ekki talið eftir sér að labba á skíðum yfir Lágheiðina með harmonikkuna á bakinu ef einhver skemmtun var í Ólafsfirði. Það var alla tíð áberandi í leik Ninna að hann var vanur að spila dansmúsík, því alltaf var passað að spila í danstakti og taktfast.
Ninni flutti til Siglufjarðar upp úr 1960, hóf þar búskap og fór strax að keyra vörubíl á bílastöðinni. F 200 var alltaf með flottustu vörubílunum, enda maðurinn snyrtimenni fram í fingurgóma og með hæfilega bíladellu.
Eftir komuna til Siglufjarðar lagðist harmonikkuleikurinn af að mestu og aðeins tekið í nikkuna í góðra vina hópi.
Það var svo fyrir 25 árum að nokkrir harmonikkuleikarar og aðrir tóku sig saman og stofnuðu Harmonikkufélag Siglufjarðar. Eftir nokkra umhugsun gekk Ninni til liðs við þann hóp og var þá ekki aftur snúið. Ninni spilaði með félaginu meðan það var við lýði og var spilandi allar götur síðan. Hann var duglegur að spila á söltunarsýningum hjá Síldarminjasafninu og öðrum viðburðum þar.
Það var svo eftir samveruna í Harmonikkufélaginu að við Ninni fórum að spila saman við hin ýmsu tækifæri, hann á nikkuna og ég á bassann. Oft var trommari fenginn til hjálpar. Síðan þróaðist þetta út í meiri spilamennsku og var stofnuð fimm mann hljómsveit, Heldrimenn. Æfingatími þeirrar hljómsveitar var alla laugardagsmorgna frá kl. 10 til 12 og ekki slegið slöku við. Sú hljómsveit spilaði við hin ýmsu tækifæri og náði að gefa út einn geisladisk. Þá hafði Ninni þegar spilað inn á disk upp á sitt einsdæmi.
Á síðasta ári var farið að þynnast í hópi þeirra Heldrimanna vegna veikinda og dauðsfalla en ekki lagði Ninni nikkuna á hilluna. Hann fékk til liðs við sig ungan harmonikkuleikara. Oftar en ekki var ég með á bassann. Spilað var saman allar götur þar til Ninni veiktist fyrir skömmu og hvarf úr þessari jarðvist eftir stutta sjúkdómslegu.
Innilegar þakkir fyrir þann tíma sem við áttum saman í þessu spiliríi okkar. Aldrei bar skugga á samkomulagið, aldrei ósætti eða fýla.
Þín verður sárt saknað. Ekki hvað síst hjá eldri borgurum sem nutu þess að dansa við músíkina þína í Skálarhlíð á sunnudögum. Við Haukur Orri ætlum að halda uppi merkinu.
Svölu og fjölskyldunni allri sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíl þú í friði, kæri vinur.
Sigurður Ómar Hauksson.
Nefna má þrennt sem tengdi Ninna við safnið: harmonikkuna, vörubílinn og síldina.
Ungur drengur hreifst Ninni af tónlistaráhuga og færni sveitunga sinna í Fljótum. Heima á Hring í Stíflu hafði hann stolist í harmonikku eldri systur sinnar og fékk síðan slíkt hljóðfæri í fermingargjöf í fyllingu tímans. Eftir þrotlausar æfingar næstu misserin fór hann að spila á skemmtunum. Og hversu merkilegt er það nú og frásagnarvert að tíðum gekk hann, stundum á skíðum, yfir Lágheiði með hljóðfærið á baki sér þegar hann var kallaður til að spila fyrir dansi á Ólafsfirði. Enn mátti sjá gamalt blik kvikna í augum er hann spilaði fyrir stúlkurnar í Hornbrekku fyrir nokkrum árum.
Árið 1961 hafði Ninni eignast vörubifreið sem þarfnaðist meiri og stærri verkefna en fásinni sveitalífsins bauð. Um leið og búið var að ryðja Skarðið það vor keyrði hann yfir fjallið í síldarvinnuna á Sigló og settist þar að. Bíll Ninna, F 200, varð sá 28. á Vörubílastöðinni. Næg voru verkefnin í endalausu annríki hvers sumars. En svo hvarf síldin, atvinnulífið dróst saman og smám saman fækkaði á bílastöðinni. Um 1990 var þó eins og síldin væri farin að láta á sér kræla á ný – nú í formi minja og minninga. Það var þá að Ninni spilaði sig inn í vinnu á vaxandi Síldarminjasafni. Spurt var eftir tilteknum bíl á stöðinni og Ninni spurði á móti hvort kunna þyrfti á harmonikku til að fá akstur fyrir safnið. Snaraðist til hliðar og birtist aftur með nikkuna og töfraði fram eldfjörugan síldarvals. Síðan þá hefur Ninni verið bæði bílstjóri safnsins og harmonikkuleikari við hinar frægu síldarsaltanir. Þúsundir hafa notið sýninganna þar sem Ninni og síldargengið hafa haldið uppi fjörinu – og út um allan heim eru varðveittar myndir af þeim sem fulltrúum hinnar horfnu menningar Siglufjarðar. Um það leyti sem Ninni byrjaði á síldarplaninu var sem hann færðist allur í aukana í spilamennskunni. Hann var þátttakandi í Harmonikkusveit Siglufjarðar, var liðsmaður Heldri manna, kom iðulega fram með Ómari Haukssyni, nánum félaga, og nú síðustu misserin með Hauki Orra Kristjánssyni, bráðungum harmonikkuleikara, – auk þess sem hann gaf út eigin hljómdisk með mörgum harmonikkulögum.
Við þökkum Sigurjóni Steinssyni trygglyndi og farsælt samstarf og vottum konu hans, Svölu Bjarnadóttur, og fjölskyldu þeirra samúð okkar.
Anita Elefsen,
Steinunn M. Sveinsdóttir og
Örlygur Kristfinnsson.