Höfundurinn Árni Daníel Júlíusson.
Höfundurinn Árni Daníel Júlíusson. — Morgunblaðið/Ómar
Í tilefni af útgáfu bókarinnar Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals flytur höfundurinn, Árni Daníel Júlíusson, fyrirlesturinn Þúfur sem segja sögur – ný sýn á íslenskar miðaldir kl. 17 í dag, föstudag 7. apríl, í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals flytur höfundurinn, Árni Daníel Júlíusson, fyrirlesturinn Þúfur sem segja sögur – ný sýn á íslenskar miðaldir kl. 17 í dag, föstudag 7. apríl, í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Titillinn á fyrirlestrinum vísar í þúfur í sveitum landsins, en þegar betur er að gáð segja þær sögur sem aðrar heimildir steinþegja um. Þúfurnar eru þá leifar af fornbýlum, gömlum eyðibýlum sem voru í byggð á miðöldum en hafa verið í eyði í margar aldir. Þarna bjó fólk oft öldum saman en engar samtíma ritheimildir greina frá því hvað býlin hétu eða hvaða fólk bjó þar. Undanfarin ár hefur athyglin æ meira beinst að þessum byggðarleifum. Í Svarfaðardal eru t.d. leifar um 60 fornbýla. Býli í Svarfaðardal byggð á síðari öldum eru um 70, þannig að hlutfallslega eru þar mörg fornbýli, eða um eitt á hvert nútímabýli. Hlutfallið er svipað í Hörgárdal, Skagafirði og víðar þar sem þessar fornu rústir hafa verið kannaðar. Fátt er vitað um hversu lengi býlin voru í byggð, hvenær þau byggðust eða þau fóru í eyði. Rannsóknir eru lengst komnar í Skagafirði, þar sem athuganir á fornbýlum benda til að mörg hafi verið í byggð á 11.-14. öld. Það hlýtur að teljast brýnt að fá betri hugmynd um þessa byggð, því hér virðist heill kafli úr miðaldasögu Íslands vera nánast ókannaður. Rannsóknir á fornbýlunum gætu birt nýja sýn á íslenskar miðaldir.

Árni Daníel gegnir rannsóknarstöðu dr. Kristjáns Eldjárns í Þjóðminjasafni Íslands. Bók hans Miðaldir í skuggsjá Svarfaðardals kom út í 2016 á vegum Þjóðminjasafns Íslands og Forlagsins þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns, fyrrum forseta Íslands og þjóðminjavarðar.