Guðmundur Sigurvin Magnússon fæddist í Reykjavík 28. júní 1957. Hann lést að heimili sínu Þóreyjarnúpi í V-Húnavatnssýslu 28. mars 2017.

Foreldrar hans voru Magnús Magnússon rennismiður, f. 24. mars 1936, og Helga Guðmundsdóttir ritari, f. 18. febrúar 1938. Systkini Guðmundar eru Rúnar Magnús, húsasmiður, fæddur 30. mars 1959, og Elín Ragnheiður Magnúsdóttir, launafulltrúi, f. 28. apríl 1965. Guðmundur giftist Þuríði Ingólfsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Ingólfur, tæknifræðingur, f. 1981, giftur Noemi Borbath. Sonur þeirra er Theodór Nói. Þau búa í Danmörku. 2) Arnar, lífefnafræðingur, f. 1990, er í doktorsnámi í Stokkhólmi. Guðmundur lærði húsasmíði hjá Trésmiðju Reykjavíkurborgar og vann við smíðar alla tíð, hann var einnig virkur í hjálparstarfi og var með leitarhund, Lukku, sem hann stjórnaði við leit að fólki m.a. eftir snjóflóðið á Flateyri. Guðmundur ólst upp í Garðabæ, stofnaði þar heimili og bjó þar til hann flutti til Egilsstaða og bjó þar í nokkur ár með fjölskyldu sinni. Frá 2005 bjó hann með Gerði Hauksdóttur, samstarfsmanni og vinnufélaga, dóttir hennar er Unnur Blandon.

Útför Guðmundar verður gerð frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 7. apríl 2017, klukkan 13.

Við kveðjum góðan dreng, Guðmund Sigurvin, með tár í augum og trega í hjarta.

Glettinn svipurinn dillandi hláturinn og skemmtilegur húmor var honum í blóð borinn. Að leita til Gumma í sambandi við smíðar eða annan greiða var allt sjálfsagður hlutur enda var hann oftast störfum hlaðinn. Hann var mikill vinnuþjarkur.

Þegar einhver fellur frá sem hefur verið samferða í gegnum lífið kemur jafnan margt upp í hugann. Þessar línur eru ekki skrifaðar í þeim tilgangi að segja ævisögu Gumma eins og hann var oftast kallaður heldur sem þakklæti fyrir samfylgdina. Það að eitt sinn skal hver deyja er næstum því það eina sem við vitum með vissu að bíður okkar allra. Hvað annað bíður okkar á morgun vitum við ekki, því allt er breytingum háð og enginn veit hvenær hinsta kallið kemur. Kallið sem allir verða að hlýða hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er nú einu sinni svo að okkur finnst erfitt að skilja hvers vegna sumir eru kallaðir svo fljótt frá ættingjum sínum og vinum. Jafnvel þótt við stundum höfum grun um hvert stefnir þá kemur andlátsfregn okkur alltaf á óvart. Nokkur minningarorð vega ekki þungt og segja fátt um fallegt líf heldur er aðeins tilraun til að þakka fyrir samfylgdina.

Nú er Gummi farinn inn í ljósið bjarta og hvílir þar í faðmi Guðs. Við þökkum góðum Guði fyrir að hafa gefið okkur þennan góða dreng og biðjum Guð að blessa minningu hans.

Fjölskyldunni vottum við okkar dýpstu samúð og vonum að þið finnið styrk í góðum minningum um góðan dreng.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Sigurður og Helga,

Guðríður og Hallgrímur.