Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Framkvæmdir hefjast í haust og við finnum að eftirspurn eftir húsnæði er mikil,“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Íbúðafélagsins Bjargs.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Framkvæmdir hefjast í haust og við finnum að eftirspurn eftir húsnæði er mikil,“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Íbúðafélagsins Bjargs. Tilkynnt var í gær um stofnframlag til félagsins frá Íbúðalánasjóði vegna byggingar 1.150 leiguíbúða í Reykjavík og Hafnarfirði á næstu árum. Byggingamagnið er um 80 þúsund fermetrar og kostnaður verður rúmlega 30 milljarðar króna. Af því verða um 30% stofnframlag frá eigendum Bjargs, sem eru ASÍ og BSRB, en 70% eru 50 ára lán frá Íbúðalánasjóði og fleirum. Leiguíbúðir Bjargs í Reykjavík verða 1.000 og reistar á svonefndum þéttingarreitum. „Við byrjum í Spöng, í Úlfarsárdal og á Kirkjusandi. Nágrenni Öskjuhlíðar og fleiri svæði koma síðar. Fyrstu íbúðirnar ættu að verða tilbúnar seint á næsta ári,“ segir Björn sem gagnrýnir ströng og flókin skilyrði í deiluskipulagi sem tefji öll mál.

Íbúðirnar verða leigðar beint til íbúa eða þá félagasamtaka til framleigu. Reynt er að fara nýjar leiðir í hönnun með félagsleg sjónarmið að leiðarljósi. Þá hefur verið unnið með Félagsbústöðum í Reykjavík sem fá um 20% íbúðanna til ráðstöfunar. Opnað verður fyrir umsóknir um næstu áramót.

Á vegum Bjargs verða 150 íbúðir reistar í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði. Uppbygging í fleiri sveitarfélögum er í skoðun.