Framkvæmdir Fólk erlendis frá er mikilvægt á vinnumarkaði hér.
Framkvæmdir Fólk erlendis frá er mikilvægt á vinnumarkaði hér. — Morgunblaðið/Eggert
Í ályktun frá Samiðn er skorað á fjármálaráðherra að tryggja fjármuni svo Ríkisskattstjóri geti áfram verið þátttakandi stéttarfélaganna í vinnustaðaeftirliti.

Í ályktun frá Samiðn er skorað á fjármálaráðherra að tryggja fjármuni svo Ríkisskattstjóri geti áfram verið þátttakandi stéttarfélaganna í vinnustaðaeftirliti. Nú hafi RSK ákveðið að hætta þessu samstarfi og beri meðal annars fyrir sig að Alþingi hafi ákveðið að skera niður fjárveitingu upp á 40 milljónir sem sérstaklega hafi verið ætlaðar þessu eftirlitsstarfi. Slíkt sé miður. Þetta starf hafi skilað góðum árangri, þar sem hluti þeirra útlendinga sem starfa á Íslandi njóti ekki þeirra starfskjara sem kjarasamningar og lög eigi að tryggja.

Vel sé búið að starfsmönnum

„Eins og kunnugt er hefur orðið mikil fjölgun erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og spár benda til að enn eigi eftir að fjölga í þeim hópi. Erlendir starfsmenn eru mikilvægir fyrir atvinnulífið og mikilvægt að vel sé búið að þeim hvað varðar aðbúnað og launakjör. Reynslan segir okkur að hættan á félagslegum undirboðum og undanskotum frá skatti eykst verulega við aðstæður sem þessar og öflugt og skilvirkt vinnustaðaeftirlit því nauðsynlegt,“ segir Samiðn.

Í annarri áyktun Samiðnar er fagnað hugmyndum sem uppi séu um breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda erlenda starfsmenn tímabundið til Íslands. Nú sé meðal annars gert ráð fyrir ábyrgð notendafyrirtækis í byggingastarfsemi eða mannvirkjagerð á vangoldnum lágmarkslaunum starfsmanna erlendra verktaka í þeirra þjónustu og starfsmannaleiga. Þetta hefur verið kallað keðjuábyrgð og er skorað á félagsmálaráðherra að tryggja að frumvarp að breytingunum verði lagt fyrir Alþingi og það afgreitt á yfirstandandi þingi. Jafnframt er því beint til Alþingis að tryggja að ábyrgðin taki einnig til starfsmanna íslenskra undirverktaka svo jafnræði erlendra og íslenskra starfsmanna sé tryggt. sbs@mbl.is