Því hefur lengi verið haldið fram að íslenskt lambakjöt sé einstakt og hafi meiri bragðgæði en lambakjöt frá öðrum löndum. Róbert segir þetta alveg rétt og að landsmenn hafi fulla ástæðu til að vera stoltir af gæðum íslenska lambsins. „Það er helst að lambið frá Nýja-Sjálandi komist nálægt því íslenska því þar fá lömbin líka að ganga um frjáls og nærast á villtum gróðri.“
Sennilega er það fæða lambsins sem hefur mest áhrif á bragðið. „Kjötið hefur vissan villibráðarkeim, og við erum ekki að lenda í ullarbragðinu sem einkennir lambakjöt í mörgum öðrum löndum. Erlendir gestir sem panta sér lambarétt á veitingastaðnum hafa iðulega á orði að þeir hafi aldrei áður smakkað jafn bragðgott lambakjöt.“