Skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði síðara mark Íslands í gær og um leið sitt fyrsta landsliðsmark í sigurleik á Slóvökum í vináttulandsleik.
Skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði síðara mark Íslands í gær og um leið sitt fyrsta landsliðsmark í sigurleik á Slóvökum í vináttulandsleik. — Ljósmynd/KSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann öruggan sigur, 2:0, á Slóvökum í vináttulandsleiksleik í Senec í Slóvakíu í gær. Eitt mark var skorað í hvorum hálfleik.

Fótbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu vann öruggan sigur, 2:0, á Slóvökum í vináttulandsleiksleik í Senec í Slóvakíu í gær. Eitt mark var skorað í hvorum hálfleik. Elín Metta Jensen opnaði markareikning íslenska liðsins á 19. mínútu og Berglind Björg Þorvaldsdóttir tvöfaldaði forystuna á 33. mínútu síðari hálfleiks. Hún skallaði þá boltann í mark Slóvaka eftir hornspyrnu. Með marki sínu braut Berglind Björg ísinn í sínum 24. landsleik en þetta var fyrsta landsliðsmark þessa marksækna framherja. Hún sagðist í samtali við mbl.is hafa fellt tár þegar ísinn var brotinn.

Leikurinn í Senec var liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir þátttöku í Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Hollandi. Næsti leikur landsliðsins verður á þriðjudaginn þegar hollenska landsliðið verður sótt heim.

Íslenska liðið var sterkara í leiknum í gær. Slóvakar náðu aldrei að ógna íslenska markinu að einhverju ráði. Helsta ógnin stóð af langskotum sem röskuðu lítt ró Guðbjargar Gunnarsdóttur markvarðar.

Íslenska liðið beitti leikaðferðinni 3-4-3 í fyrri hálfleik en skipti síðan yfir í hefðbundna uppstillingu sína, 4-3-3, í síðari hálfleik.

Vorum sókndjarfar

„Sigurinn var afar öruggur. Við gáfum fá færi á okkur eins og stundum áður enda er og hefur varnarleikurinn okkar verið afar skipulagður,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við Morgunblaðið eftir leikinn í gær.

„Mér fannst við sókndjarfar, ekki síst í fyrri hálfleik þegar við náðum oft að koma okkar í álitlega stöðu á vallarhelmingi Slóvaka. Upp úr einni góðri sókn náðum við að skora fínt mark eftir tæplega 20 mínútna leik. Yfirhöfuð vorum við mjög skapandi, ekki síst í fyrri hálfleik,“ sagði Margrét Lára sem var afar sátt við árangurinn af þeirri breytingu sem var á skipulagi leiks liðsins í fyrri hálfleik með leikkerfinu 3-4-3.

„Það tók okkur nokkra stund að ná áttum í seinni hálfleik eftir að við breyttum yfir í 4-3-3 aftur. Kom það til vegna stöðubreytinga og eins vegna þess að liðið breyttist. En það var ekkert óeðlilegt.

Við innsigluðum sigurinn í síðari hálfleik með góðu marki eftir fast leikatriði og vorum nærri því að bæta þriðja markinu við þegar unglingurinn okkar, Agla María Albertsdóttir, fékk frábært færi,“ sagði Margrét Lára.

Hún var ánægð með leik liðsins og einnig þá staðreynd að markahrókurinn Berglind Björg náði að skora sitt fyrsta mark fyrir landsliðið.

Alltaf að stækka hópinn

„Margir leikmenn fengu tækifæri í þessum leik sem er afar jákvætt því með því móti stækkum við hópinn sem er tilbúinn að taka þá ábyrgð að leika fyrir íslenska landsliðið. Mér finnst við vera á góðum stað um þessar mundir. Framundan er annar vináttuleikur við skemmtilegt lið Hollendinga sem eru á mikilli uppleið,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu.