Guðmundur Árnason fæddist á Óðinsgötu 14A hinn 7.4. 1932 en þegar hann var tveggja ára flutti fjölskyldan í nýja íbúð í verkamannabústöðunum við Hringbraut. Þar átti hann heima þar til hann hóf búskap með eiginkonu sinni en þau voru skólasystkini og samstúdentar úr MR.
Guðmundur var í sveit á Kambi í Holtum, á fæðingarstað föður síns, þegar hann var 9 og 10 ára, á Þórisstöðum í Svínadal í Borgarfirði, 11 og 12 ára og var 13 ára við störf í herstöðinni í Hvalfirði. Næstu sex sumur vann hann við Kirkjugarða Reykjavíkur en á námsárunum við HÍ starfaði hann lengst af hjá Landmælingum Íslands á sumrin, með dönskum mælingamönnum: „Við ókum um landið, gengum á fjöll, fundum mælingapunkta og merktum þá með vörðum eða sérútbúnu tréverki. Við mældum t.d. Eyjafjallajökul, Lómagnúp, Snækoll og Snæfell.“
Guðmundur var í Miðbæjarbarnaskólanum, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, lauk stúdentsprófi frá MR 1952 og prófi í tannlækningum frá HÍ í maí 1958.
Að námi loknu hóf Guðmundur störf hjá Halli L. Hallssyni tannlækni í Austurstræti 14 í Reykjavík, og vann þar til 1959. Þá keypti hann, ásamt félaga sínum, Þorgrími Jónssyni, tannlæknastofu Pálma Möller í Þingholtsstræti 11 en Guðmundur átti síðan stofuna einn frá 1964. Stofan er þar enn og er með þeim elstu ef ekki sú elsta á landinu. Þar starfaði Guðmundur samfellt í tæp 55 ár.
Guðmundur sat í styrktarsjóðsnefnd TFÍ 1964-78, í aganefnd KKÍ 1972-82, var gjaldkeri í stjórn TFÍ 1972-74 og 1980-82, sat í stjórn Dentex 1972, í stjórn Dentalíu hf. um skeið frá 1974, var endurskoðandi TFÍ 1974-83 og 1985-91, í taxtanefnd 1974-91 og í skemmtinefnd 1975-76.
„Sveitadvölin og landmælingarnar vöktu áhuga minn á ferðalögum um landið og ég naut þess að ferðast um óbyggðir landsins á góðum jeppa. Síðar komust ferðalög til útlanda einnig á dagskrá og voru Danmörk, Írland og Spánn þá vinsælust.“
Guðmundur æfði knattspyrnu með KR frá átta ára aldri: „Við æfðum á Skálholtstúni þar sem Melabúðin er nú og áður var Camp Knox. Ég lék knattspyrnu með KR alla yngri flokka og einnig handknattleik en þar lék ég með meistaraflokki í 10 ár. Ég heillaðist svo af körfuknattleik þegar ég var 18 ára en honum kynntist ég í MR 1950. Nokkrir nemendur skólans vildu halda áfram að æfa saman og við níu félagar stofnuðum Körfuknattleiksfélagið Gosa, en nafninu varð síðar breytt í KFR, Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur. Það félag varð síðan uppistaðan í körfuknattleiksdeild Vals.
Með Gosa og KFR lék ég í tæp tuttugu ár og var valinn í fyrsta landslið Íslands sem lék við Dani í maí 1959. Sama ár var ég sæmdur silfurmerki KR og síðar einnig gullmerki félagsins enda er og verður KR alltaf mitt félag. Sem stuðningsmaður KR hef ég verið duglegur að sækja leiki félagsins í knattspyrnu og körfuknattleik. Ekki má svo gleyma sundinu sem ég hef stundað í áratugi í Vesturbæjarlaug og síðar sundlaug Seltjarnarness, en á Seltjarnarnesi hef ég búið sl. 47 ár. Þá má nefna golfið sem ég hef stundað í 35 ár.
Árið 1976 keyptum við hjónin húsið Þingholtsstræti 11, þar sem tannlæknastofan er til húsa. Húsið var byggt árið 1870 og er með elstu húsum Reykjavíkur. Við höfum lagt metnað okkar í að færa útlit hússins sem næst upprunalegu útliti og fengum árið 1994 viðurkenningu Reykjavíkurborgar fyrir það.
En þrátt fyrir alla ánægjuna af íþróttaiðkun, ferðalögum og fleiru, er fjölskyldan mér að sjálfsögðu dýrmætust.
Fjölskyldan
Eiginkona Guðmundar er Elín Sæbjörnsdóttir, f. 17.3. 1932, húsfreyja og fyrrv. bankastarfsmaður. Foreldrar hennar voru Sæbjörn Magnússon, f. 21.9. 1903, d. 6.2. 1944, héraðslæknir á Hesteyri og í Ólafsvík, og f.k.h., Ragnhildur Gísladóttir, f. 1.11. 1901, d. 22.5. 1960, húsfreyja..Börn Guðmundar og Elínar eru 1) Hildur, f. 10.10. 1953, ráðgjafi í Kópavogi, maki Rúnar Sigurkarlsson, fyrrv. framkvæmdastjóri, og eru börn þeirra: Davíð, f. 1974, Sigurkarl Bjartur f. 1979, og Sigrún, f. 1985; 2) Árni, f. 19.5. 1956, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Gildis – lífeyrissjóðs, búsettur á Seltjarnarnesi, maki Margrét Halldórsdóttir geislafræðingur og eru börn þeirra: Halldór, f. 1984, Elín, f. 1988 og Guðmundur Örn, f. 1991, og 3) Sæbjörn, f. 5.4. 1961, tannlæknir, búsettur í Garðabæ, maki Auður Elísabet Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðingur og eru börn þeirra. Andri Búi, f. 1997, Eiður Gauti, f. 1999 og Elín Rósa, f. 2002.
Systkini Guðmundar: Guðrún Árnadóttir, f, 23.8. 1924, d. 7.6. 1999; Guðfinna Árnadóttir, f. 2.9. 1926, d. 12.8. 2005; Ágústa Birna Árnadóttir, f. 13.7. 1941, og Adda Gerður Árnadóttir, f. 2.12. 1942, d. 13.2. 2015.
Foreldrar Guðmundar voru Árni Guðmundsson, f. 26.3. 1900, d. 18.10. 1987, bifreiðastjóri í Reykjavík, og Valgerður Bjarnadóttir, f. 4.7. 1899, d. 13.9. 1973, húsfreyja.